Hertha W. Jónsdóttir félagi í Gammadeild er látin

Hertha W. Jónsdóttir, félagi í Gammadeild er látin 86 ára að aldri. Hún lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1958 og síðar nam hún uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands. Hún bætti stöðugt við sig í námi og lauk framhaldsnámi  í barnahjúkrun og BSc í hjúkrunarfræði frá HÍ 1987. Hertha starfaði lengi við kennslu- og fræðistörf og var hún kennslustjóri í barnahjúkrun 1978-1980. Lengst af var hún Hjúkrunarframkvæmdastjóri og sviðsstjóri Barnaspítala Hringsins 1980-2000.  Þegar Hertha lauk störfum vann hún rannsóknarverkefni um þróun barnahjúkrunar og gaf það út í bókinni Þróun hjúkrunar á Barnaspítala Hringsins 1980-1998.

Hertha var stofnfélagi Gammadeildar og mjög virkur félagi til æviloka. Hún tók að sér stjórnunarstöður innan DKG og sótti þing og ráðstefnur á vegum félagsins innan lands og utan. Hún var formaður Gammadeildar 1980-1982 og forseti landssambandsins 1991-1993.

Við Delta Kappa Gamma systur minnumst Herthu með þakklæti og virðingu og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.