Jakobína Guðmundsdóttir, félagi í Alfadeild, er látin
Jakobína Guðmundsdóttir, félagi í Alfadeild, og fyrrum skólastjóri Húsmæðraskólans í Reykjavík lést þann 12. apríl s.l. tæplega 100 ára gömul. Jakobína var fædd 11. maí 1925 á Harðbak á Melrakkasléttu. Hún stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum og við Johanna Brunssons Vavskola í Stokkholmi. Hún lauk kennaraprófi 1948. Jakobína hóf störf við húsmæðraskólann 1953 en hafði áður kennt vefnað víða um land. Auk vefnaðar kenndi hún föndur, textílfræði, uppeldisfræði og híbýlafræði. Í skólastjóratíð hennar voru gerðar breytingar á starfsemi skólans og var m.a. boðið upp á námskeið fyrir almenning.
Jakobína var virkur félagi í Alfadeild DKG á Íslandi í áratugi og var gjaldkeri deildarinnar um árabil. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir húsmæðrafræðslu árið 1994. Félagskonur í Delta Kappa Gamma, minnast Jakobínu með þakklæti og virðingu og votta aðstandendum hennar dýpstu samúð.