Jenna Jensdóttir í Alfadeild er látin

Jenna Jensdóttir, félagi í Alfadeild og einn af stofnfélögum DKG á Íslandi, lést á Hrafnistu í Reykjavík í gær, 6. mars 2016. 
Jenna fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði og var því á 98. aldursári þegar hún lést. Hún stundaði nám við Kennaraskólann og nam við Háskóla Íslands. Einnig stundaði hún leiklistarnám hjá Lárusi Ingólfssyni. Árið 1942 stofnaði Jenna „Hreiðars­skóla“ á Akureyri ásamt manni sínum, Hreiðari Stefánssyni og starfaði við hann í 21 ár. Hún starfaði einnig bæði við Barna- og Gagnfræðaskóla Akureyrar. 

Jenna og Hreiðar fluttu til Reykjavíkur árið 1963 og var Jenna kennari við Langholtsskóla í Reykjavík í tvo áratugi. Barnaskóli Garðabæjar og Námsflokkar Reykjavíkur nutu einnig starfskrafta hennar. Jenna er höfundur á þriðja tug bóka fyrir börn og unglinga ásamt Hreiðari eiginmanni sínum. Þekktastar eru Öddubækurnar. Hún gaf einnig út eina ljóðabók og tvö rit með smásögum.

Jenna var virk í félagsmálum, en auk þess að starfa með Delta Kappa Gamma þar sem hún sat í stjórn landsambandsins árin 1983–1985, starfaði hún í kvenfélaginu Framtíðin á Akureyri. Hún var í stjórn og um tíma formaður Félags íslenskra rithöfunda og sat í  Skólasafnanefnd Reykjavíkur. Jenna hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf og störf að fræðslumálum og á síðasta ári var hún heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness en hún bjó á Seltjarnarnesi í mörg ár.

Félagskonur Delta Kappa Gamma minnast Jennu með þakklæti í huga fyrir vel unnin störf og votta aðstandendum dýpstu samúð.