Kynjaþing 2017 - tengslaráðstefna fyrir félagasamtök í jafnréttisbaráttunni

Eftirfarandi tölvupóstur barst frá Kvenréttindafélagi Íslands. Ef áhugi er fyrir að taka þátt, vinsamlegast hafið þá samband við landsambandsforseta á netfangið jona.dkg@gmail.com:

Við í Kvenréttindafélaginu blásum til kynjaþings núna 28. október næstkomandi. Hugmyndin á bak við þingið er að þetta sé nokkurs konar Fundur fólksins, bara fyrir femínista! Þetta þing er haldið að norrænni fyrirmynd. Frænkur okkar á hinum Norðurlöndunum hafa haldið svona femínísk forum árlega í einhver ár, samráðsvettvang fyrir okkur sem vinnum að jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi.

Við höfum til umráða tvær skólastofur í Tækniskólanum á Skólavörðuholti þar sem hægt er að skipuleggja málstofur, fyrirlestra, kvikmyndasýningar, og hvað sem ykkur dettur í hug. Gott aðgengi er að skólastofunum. Þær eru á annarri hæð í lyftuhúsnæði og salerni fyrir fatlaða er á staðnum.

Fyrir utan skólastofurnar er alrými þar sem þátttakendum gefst tækifæri á að kynna starf sitt með bæklingum, eða bara sitja á spjalli við aðra gesti! Og að lokinni skipulagðri dagskrá, þá skálum við saman fyrir framtíðinni!

Við viljum leita til ykkar til að taka þátt í að skipuleggja Kynjaþingið með okkur, og standa fyrir einum viðburði á þinginu. Þessi viðburður getur verið hvað sem er, pallborðsumræður, fyrirlestur, kvikmyndasýning, uppistand, samverustund, námskeið, hvað sem er! Og við hvetjum ykkur einnig að kynna starfið ykkar í alrýminu fyrir utan salinn, með bæklingum, plakötum eða öðru góssi og veitingum. 

Þátttaka á Kynjaþinginu er ÓKEYPIS.

Kynjaþingið er hugsað sem tengslaráðstefna fyrir félagasamtök sem vinna að mannréttindum og jafnrétti, þar sem þátttakendur og gestir kynnast nýjum hugmyndum og nálgunum í jafnréttisfræði. Einnig er þingið hugsað sem upplýsingaráðstefna, til að gefa almenningi tækifæri á að kynnast starfi félagasamtaka sem vinna að málefninu. Við vonumst til að kynjaþingið verði til þess að auka þekkingu meðal fólks á jafnréttismálum, auka skilning á mismunandi baráttuaðferðum, og leiði til aukinnar samvinnu okkar sem vinnum að jafnréttismálum í framtíðinni.

Nánari upplýsingar og skráning er á síðunni http://kynjathing.is. Einnig má hafa samband við Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur á netfangið postur@kvenrettindafelag.is eða hringja í síma 694-3625.