Sigríður Jóhannsdóttir, félagi í Alfadeild, er látin

Sigríður Jóhannsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands og félagi í Alfadeild lést 23. júní sl. eftir stutt veikindi, 91 árs að aldri.

Sigríður fæddist á Akureyri 11. nóvember 1929. Hún lauk prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1954 og lauk svo námi í uppeldis- og kennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands árið 1976
Árið 1979 réðst hún sem kennari við Hjúkrunarskóla Íslands og varð skólatjóri við sama skóla 1983-1987. Þá var skólinn lagður niður og allt hjúkrunarnám flutt á háskólastig. Sigríður var í broddi fylkingar um að sameina allt hjúkrunarnám á Íslandi á háskóla­stigi. Á árunum 1988 til 1993 var hún hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Keflavík og að því loknu fór hún á eftirlaun. Lesa má ágrip um Sigríði á vef Morgunblaðsins.

Við Delta Kappa Gamma systur minnumst hennar með þakklæti í huga og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.