Sigríður Kristjánsdóttir félagi í Alfadeild látin

Sigríður Kristjánsdóttir einn af stofnfélögum Delta Kappa Gamma lést 21. apríl síðastliðinn, 

Eftirfarandi minningarorð ritar Erna Árnadóttir formaður Alfadeildar:

"Sigríður Kristjánsdóttir einn af stofnfélögum Delta Kappa Gamma lést á sumardaginn fyrsta, 21. apríl síðastliðinn, í hárri elli.  Hún var fædd 7. október 1925 og var því rétt fimmtug þegar samtökin voru stofnuð árið 1975. Ég hygg hún hafi verið valin sem fulltrúi hússtjórnarkennara enda sinnti hún lengi kennslu, vann á Leiðbeiningarstöð húsmæðra og var ritstjóri Húsfreyjunnar um árabil. Hún sat í fyrstu stjórn Alfadeildar og var virk í félaginu alla tíð eða þar til henni fannst hún of gömul eins og hún sagði sjálf. Hún var líka dugleg að sækja fundi og ráðstefnur samtakanna erlendis og naut félagsskaparins. Ég veit að henni þótti gaman að sækja fundi í deildinni enda félagslynd og þar átti hún góða vini. Það var hjá henni sem ég heyrði félagsskapinn fyrst nefndan og gekk svo í hann tuttugu árum á eftir henni en þá var hún formaður deildarinnar. 

Við Alfakonur kveðjum Sigríði með söknuði og þökkum henni góða samfylgd."

Við Delta Kappa Gamma systur allar minnumst Sigríðar með þakklæti í huga og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.