Vilborg Dagbjartsdóttir félagi í Gammadeild látin

Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld, kennari og félagi í Gammadeild er látin 91 árs að aldri. Vilborg fæddist á Hjalla á Vestdalseyri við Seyðisfjörð,18. júlí 1930. Hún nam leiklist um skeið en lauk síðar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Einnig lærði hún bókasafnsfræði við Háskóla Íslands. Vilborg starfaði sem kennari við Austurbæjarskóla í 43 ár ásamt að sinna ritstörfum. Hún gekk til liðs við Gammadeild 11. nóvember 1986.
Vilborg sat lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka kvenna og var ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar. Einnig átti hún sæti í stjórn Stéttafélags íslenskra barnakennara og Rithöfundasambandi Íslands. Vilborg gaf út sína fyrstu ljóðabók, Laufið á trjánum, árið 1960. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir fræðslu og ritstörf árið 2000.
Við Delta Kappa Gamma systur minnumst Vilborgar með þakklæti í huga og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.