Ferðasaga systra í Þetadeild 2009

Fjórar fræknar á landssambandsþingi DKG á Hallormsstað maí 2009.

Fjórar Þetasystur fóru saman akandi á landssambandsþing Delta Kappa Gamma sem haldið var á Hallormsstað 16. -17. maí 2009.

Tvær lögðu af stað frá Reykjanesbæ kl. 9 að morgni föstudagsins 15. maí, þær Hulda Björk og Inga María og tvær bættust í hópinn að Höfðabrekku við Vík í Mýrdal, þær Guðríður og Guðbjörg Sveinsd. Þangað var komið kl. 12 og snæddur hádegisverður, gómsæt Fagradalsbleikja, með félögum í Grunni sem hélt þar ráðstefnu.

Lagt var af stað frá Hólbrekku kl. 13 og ekið sem leið lá að Höfn í Hornafirði í björtu veðri og nutum við ægifagurrar jöklasýnar. Lónið var yfirfullt af jökum, enginn í hópnum hafði séð annað eins. Á Höfn skoðuðum við bókasafnið og hittum bróður Guðbjargar. Við stoppuðum í hálftíma og birgðum okkur upp af nesti og ís (Guðríður fékk sér ís með súkkulaðidýfu). Síðan var ekið sem leið liggur að Hallormsstað um Breiðdalsheiði. Á leiðinni vöktu athygli okkar litrík þök á sveitabýlum, bæði fjólublá og bleik, hver ætli hafi ráðið litavalinu þar? Þegar komið var niður í Skriðdal tókum við eftir lerki um allt sem gróðursett hafði verði í sendnum og rýrum jarðvegi. Þar með var stofnað áhugamannafélag um lerkirækt á Suðurnesjum. 

Nokkur umræða var um það á Breiðdalsheiðinni hvað við gerðum ef það myndi springa á bílnum á leiðinni. Ein hafði fengið þau ráð fá eiginmanni sínum að stoppa næsta bíl og fá aðstoð (varadekkið undir bílnum!). Þetta olli eilitlum vangaveltum því við vorum svo gjörsamlega aleinar á ferð, sáum ekki anna bíl svo tímum skipti. En allt fór vel og yfir heiðina komumst við heilu og höldnu.

Ekið var í hlað á Hallormsstað kl 19 eftir 10 tíma ferðalag með stoppum. Þar beið okkar gisting í Gráa hundinum, púrtvínsmóttaka hjá Betadeild og kvöldverður. Við lögðum okkar að mörkum við undirbúning ráðstefnunnar, röðuðum í möppur, settum upp félagsfánann og bjuggum til nafnspjöld.

Síðan var haldið í kvöldgöngu um nánasta umhverfi Hallormsstaðar eftir að hafa uppgötvað okkur til mikilla vonbrigða að enginn var heiti potturinn og búið að taka tappann úr sundlauginni. Enduðum svo kvöldið með smá Suðurnesjapartý fram yfir miðnætti  með rauðu og hvítu víni, ostum, vínberjum, hnetum og rúsínum í boði Guðbjargar.

Næsta morgun var samt vaknað tímalega og hressar og endurnærðar eftir góðan svefn mættum við í morgunverðinn kl. 8:30. Ráðstefna hófst svo með skráningu kl. 9:30. Hún var haldin í íþróttahúsi staðarins sem var fallega og látlaust skreyttur  af Zetadeild m.a. með lifandi trjágróðri. Dagskráin hófst með söng Þorbjörns Rúnarssonar við undirleik Magnúsar Magnússonar. Þema ráðstefnunnar var Nýi kennarinn. Kynntar voru rannsóknarstöður, viðhorf nýrra kennara og stjórnenda voru kynnt. Inn á milli dagskrárliða las ungur verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni nokkur ljóð.
Hópavinna braut upp dagskrána og verða niðurstöður hennar sett á vef samtakanna. Allar fjórar Þetakonur tóku þátt í hópvinnunni. Inga María var hópstjóri í einum hópnum og þeirra umræðuefni var: Lykillinn að því að halda nýjum kennurum í starfi er stuðningur og þjálfun í skólunum sjálfum, því þar verða kennararnir að upplifa velgengni og starfsánægju. Það er í skólunum og skólastofnunum sem þessir kennarar taka ákvörðun um hvort þeir ætli að halda áfram í starfi (Johnson, o.fl. 2001) Ræðið hvaða leiðir væri hægt að fara til að auka jákvæða upplifun nýrra kennara. Guðbjörg var ritari í öðrum hópi.

Pallborðumræður voru í lok dags þar sem málið var rætt var út frá spurningum  frá hópunum.  Í lokin var flutt samantekt og eftirþankar. Niðurstaða ráðstefnunnar var að nauðsynlegt væri að til væri áætlun um móttöku nýrra kennara og handleiðsla fyrstu árin. Þetta þótti okkur auðvelt að yfirfæra á alla nýja starfsmenn hvert sem starfssviðið væri. Á ráðstefnunni ríkti gleði, ánægja, bjartsýni, hlýhugur og systraþel.

Eftir ráðstefnuna var haldið í skógargöngu um Guttormslund í fylgd Þórs Þorsteinssonar, skógarvarðar.  Sagði hann okkur sögu skógræktarinnar og vakti athygli á ýmsum tegundum trjáa sem þar er að finna. Skógargöngunni lauk svo í skógarlundi þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði með rommi við varðeld. Að skógargöngunni lokinni var  haldinn örfundur í Þetadeild þar sem dagurinn var krufinn og kvöldið skipulagt, ostarnir og vínberin kláruð en engar sögur fara af víninu.

Síðan var skundað í móttöku í gamla Hússtjórnarskólanum Þar tók á móti okkur "Skógarvörður Íslands " Sigurður Blöndal, 85 ára gamall. Hann sagði frá sögu skólans og hússins en hann er alinn þar, foreldrar hans höfðu byggt upp skólastarfið og húsið á sínum tíma og var móðir hans skólastýra. Í húsinu var einnig skoðuð nemendasýning á handverki núverandi nemenda skólans (með innliti í júróvisjón).

Næst tók við hátíðarkvöldverður þar sem boðið var upp á blálöngu í forrétt, lambahrygg í aðalrétt og súkkulaðimús í eftirrétt undir frábærri veislustjórn sr. Láru Oddsdóttur á Valþjófsstað, kona Sigmars Ingasonar. (Ef presturinn segir svona brandara, hvernig eru þeir þá hjá hinum!). Zetadeild sá um mögnuð skemmtiatriði, söng með leikrænu ívafi. Dagskránni var slitið um miðnætti og gengu Þetasystur til hvílu sælar og glaðar eftir skemmtilegan og fræðandi dag.

Sunnudagurinn var tekinn snemma og að loknum morgunverði var gengið til aðalfundar Delta Kappa Gamma samtakanna. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Sigrún Jóhannesdóttir orð til umhugsunar og ræddi um samtökin og þátttöku sína í þeim. Hún sagði m.a. að eins og með svo margt annað þá fengi maður það til baka sem maður gefur af sér í starfi í DKG. Það var kosinn nýr landssambandsforseti á fundinum, Ingibjörg Jónasdóttur úr Gammadeild. Ofurstoltar vorum við  yfir nýjum fyrsta varaforseta, Sóleyju Höllu Þórhallsdóttur úr Þetadeild, fyrsta Þetasystir sem kosin hefur verið í stjórn  landssambandsins. Ekki má samt gleyma Guðbjörgu Sveinsd. sem valin hefur verið  gjaldkeri landssambandsins síðustu tvö kjörtímabil. Guðbjörg gerði grein fyrir reikningum og fjárhagsáætlun og Hulda Björk flutti skýrslu Þetadeildar.
Gestur fundarins frá alþjóðasambandinu var Jacklynn Cuppy, fyrrv. alþjóðaforseti, en Jacklynn er kanadísk og fyrsta kona sem gegnir embætti forseta alþjóðasambandsins sem er ekki frá USA. Jacklynn flutti kveðjur frá alþjóðasamtökunum og hvatningarorð til okkar.
Að loknum aðalfundi var þingið slitið og haldið til hádegisverðar þar sem systur kvöddust og hélt síðan hver til síns heima.

Þetasystur ákváðu að taka "norðurleiðina" heim og fengum við sól og gott skyggni eins og á "suðurleiðinni" en heldur þótti okkur nú fallegra útsýnið á suðurleiðinni. Staldrað var við á Akureyri (meiri ís!) og  í Borgarnesi og heim voru allar komnar fyrir miðnætti eftir einstaklega vel heppnaða og skemmtilega ferð á landssambandsþing DKG 2009.

Smellið hér til að skoða myndir úr ferðinni.


Síðast uppfært 27. sep 2016