14. febrúar 2008

Fundur hjá Þeta-deild 14. febrúar 2008.

Fundur haldinn í Bíósal Duushúsa kl. 20:00 - 22:00 á fimmtugsafmæli Sveindísar Valdimarsdóttur, félagskonu. Gestur fundarins var Anna Þóra Baldursdóttir, forseti DKG á Íslandi.

Þórunn Friðriks setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Samkvæmt nafnakalli Bjarnfríðar voru 13 konur á fundinum auk þeirra þriggja, Bryndísar, Guðjónínu og Gyðu sem teknar voru formlega inn í deildina á fundinum. Þorbjörg Garðarsdóttir, sem væntanleg er líka inní deildina gat því miður ekki verið með okkur í kvöld.

Orð til umhugsunar flutti Lára Guðmundsdóttir. Hún kynnti fyrir okkur barnabókina The North Star sem Peter H. Reynolds skrifaði og myndskreytti. Hún lýsir komu barns í heiminn í máli og myndum og fylgir eftir þroska þess, hvernig það reynir að fylgja vegvísum í lífinu, fer stundum út af veginum og lendir úti í skógi eða ofan í mýri en ratar svo uppá veginn aftur. Þessi fallega bók var góð sýn á það að það fara ekki allir sömu leið í lífinu.

Þórunn, formaður, kynnti nú nýjar konur, sem nú ganga til liðs við okkur. Það eru þær Bryndís Guðmundsdóttir, Guðjónína Sæmundsdóttir og Gyða Arnmundsdóttir.

Landsforseti ávarpaði nýliðana og lesin voru meginmarkmið félagsskaparins, þeir voru kynntar merkingar litanna og tákn lykilsins. Þær kveiktu síðan hver á sínu kerti og nældar í þær nælur samtakanna.

Anna Þóra tók næst til máls. Hún flutti kveðju frá Ingibjörgu Einarsdóttur, fyrrverandi forseta og konum í Betadeild þar sem hún er sjálf. Hún sagði okkur nokkuð nákvæmlega frá starfsemi landssamtakanna, sagði okkur frá Evrópuþinginu sem haldið var í Reykjavík 2003, minnti okkur á vorþingið sem verður 17. maí næstkomandi í Kópavogi og síðan landsambandsþingið sem haldið verður 2009 með þemanu Staða nýja kennarans. Einnig sagði hún okkur frá nýju landsambandi sem stofnað hefur verið í Danmörku og að á næsta ári verður stofnað landsamband DKG í Tallin, Lettlandi. Heimsþing í Chicago.

Að lokum fengum við okkur kaffi og með því og ræddum saman áður en við gengum út í nóttina, sumar í afmæli Sveindísar en aðrar beint heim.

Bjarnfriður Jónsdóttir
fundarritari


Síðast uppfært 18. apr 2009