15. janúar 2018

Fundargerð bókafundar Þeta deildar 15. janúar 2018. Haldinn heima hjá Gerði Pétursdóttur formanni

Fundur hófst klukkan 18.

21 kona mætt.

 

Formaður setti fundinn og kveikti á kertum, vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Ritari með nafnakall og las fundargerð síðasta fundar.

Ingibjörg Hilmarsdóttir var með orð til umhugsunar. Umræðuefnið var brjóstakrabbamein sem er algengasta krabbameinið. Konum hefur fækkað sem koma í hópleit og er það sérstaklega áberandi á Suðurnesjum. 208 konur greinast á ári eða um það bil 4 konur á viku og er meðalaldurinn um 62 ár, þannig að þetta leggst frekar á eldri konur þó svo að yngri konur greinist líka. Læknar vilja meina að fjöldinn muni frekar aukast heldur en að minnka en lífaldur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein hefur hækkað, komin eru betri lyf og meðferðir. Sagði hún frá því að hún greindist sjálf fyrir ári síðan sem er auðvitað mikið högg en hefur alveg náð sér. Ítrekaði hún að gríðarlega mikilvægt er að sinna þessum þætti og hvatti félagskonur til að fara í hópleit og hvetja aðrar konur til þess líka.

Þá var komið að liðnum deildarkonur kynna sig og var það Elín Rut Ólafsdóttir sem sagði skemmtilega frá uppruna sínum og æsku, menntun, fjölskyldu, starfi og áhugamálum.

Þá bauð formaður upp á mjög góða grænmetistböku og sykurlausa súkkulaðimús.

Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur kom og sagði frá sér og bókum sínum. Guðmundur fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1964 en ólst upp á Hellum á Vatnsleysuströnd. Þar var hann í Brunnastaðaskóla, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, BA-prófi í almennri bókmenntafræði við HÍ, MA-prófi í leiklistarfræðum frá Royal Holloway University of London 1994, stundaði framhaldsnám og rannsóknir þar 1996-99, lauk djáknanámi við HÍ 2007 og var vígður djákni 2012 og lauk MA-prófi í almennri bókmenntafræði við HÍ sama ár.

Helstu skáldverk Guðmundar eru:

- Tímagarðurinn (2017)

- Líkvaka (2015)

- Gosbrunnurinn: - sönn saga af stríði (2014)

- Kattasamsærið (2012)

- Endalok alheimsins, leikrit ásamt Bergi Þór Ingólfssyni (2011)

- Hrekkjusvín, söngleikur, aðalhöfundur leiktexta (2011)

- Þvílík vika (2009)

- Horn á höfði, ásamt Bergi Þór Ingólfssyni (2009)

- Tuttugu og eins manns saknað (2008), ásamt Bergi Þór Ingólfssyni.

Hann hefur auk þess sent frá sér smásögur og fræðitexta og fengist lítillega við þýðingar.

Guðmundur hlaut Grímuverðlaun 2010 fyrir leikritið Horn á höfði „Barnasýning ársins“ og Íslensku barnabókaverðlaunin 2009 fyrir söguna.

Guðmundur las einnig upp úr bókunum Gosbrunnurinn, Líkvaka og Tímagarðurinn.

Önnur mál:

Formaður minnti á vorþingið á Egilsstöðum og hvatti konur til að sækja það, einnig vantar konur í Evrópunefndina og væri gaman ef einhver úr okkar röðum myndi bjóða sig fram og að lokum minnti hún á að senda Fanneyju mynd.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 20.15

 

 


Síðast uppfært 16. jan 2018