18. janúar 2023

Fundur í Þetadeild – DKG

18. janúar 2023

 

Árlegur bókafundur Þetadeildar var haldinn í sal Miðstöðvar símenntunar miðvikudaginn 18. janúar. Fjölmennt var á fundinum, 27 félagskonur sem er frábært.

Gestur fundarins var rithöfundurinn Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem las upp úr skáldsögu sinni Reykjavík og sagði okkur frá tilurð hennar. En þessa bók samdi hún með Ragnari Jónassyni rithöfundi.

Bókin fjallar um mál ungrar stúlku, Láru Marteinsdóttur sem hvarf í ágúst 1956, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Katrín sagði frá samstarfi þeirra Ragnars og brennandi áhuga hennar á glæpasögum sem hafa nú ekki alltaf verið hátt skrifaðar í heimi bókmenntanna.

Á fundinum voru tveir aðrir gestir. Þær Linda Björk Pálmadóttir og Hólmfríður Karlsdóttir sem boðið hafði verið á kynningarfund hjá Þeta deildinni.

Lóa Björg formaður brá svo á leik með fundarkonum og bað okkur að mynda litla hópa þar sem við nefndum 2 tilfinningar sem við upplifðum akkúrat á þeirri stundu. Miklar umræður sköpuðust í hópunum og var gaman að sjá hversu margar konur lýstu gleði sínni yfir að eiga einmitt þessa kvöldstund saman.

Í lokin var borin fram dýrindis indversk grænmetis og kjúklingasúpa ásamt nýbökuðu brauði.

 

Næsti fundur er áætlaður þriðjudaginn 21. febrúar 2023.

 

Fundi var slitið kl. 20.00


Síðast uppfært 30. mar 2023