Erindi Herthu

Jólafundur Þeta deildar 28. nóvember 2009

Kæru Þeta systur.

Þakka ykkur innilega fyrir að bjóða mér á jólafundinn ykkar og gefa mér tækifæri á að rifja upp kynnin við Þeta systur. Fyrst hitti ég margar ykkar í undirbúningi og á kynningarfundi fyrir stofnun deildarinnar og svo var ég við stofnun deildarinnar fyrir rúmum 10 árum. Það er mér og öðrum DKG systrum einkar minnisstætt þegar Þeta deildin tók að sér þá kornung og reynslulítil að halda landssambandsfund sem tókst með miklum ágætum. Það vantaði ekki hugrekkið þar.

En ég var beðin um að spjalla svolítið við ykkur um hvernig við konur getum styrkt okkur sem konur og manneskjur í okkar samfélagi. Það er mjög skemmtilegt að fá að gera það hér í þessu fallega umhverfi hjá henni Guðbjörgu.

Þegar Guðbjörg hafði samband við mig þá hafði ég einmitt lesið gullkorn dagsins og því hef ég kosið að kalla þetta spjall:

Þegar þú brosir af einlægni færir þú hamingju inn í líf annarra!

Ég fór að hugsa um hvernig við getum styrkt okkur sem konur og þá komu upp margar spurningar m.a. þessar:

Eru konur sterkar?
Eru konur duglegar að brosa? 
Eru konur hamingjusamar?
Ráða konur við verkefnin sem þeim eru falin?

Já.  Konur eru sterkar. Þær eru mjög sterkar og hafa alltaf verið sterkar. Við þekkjum söguna frá formæðrum okkar sem hafa í gegn um aldirnar hér á Íslandi og víðar í heiminum barist fyrir sér og börnum sínum og heimilinu oft við mikla fátækt, mikla ómegð og ótrúlegar aðstæður og oftast hafa þær sigrað. Við þekkjum söguna hvernig konur hafa barist fyrir réttindum sínum, fyrir stöðu sinni, hvernig sjómannskonan sat heima með alla ábyrgð meðan bóndinn sótti sjóinn og hvernig afdalakonan þurfti langt að sækja vistir ef bóndinn var í vinnu eða veiktist. Hvernig konur stofnuðu líknarfélög og hvernig konur söfnuðu fé til að byggja upp kirkjur og ..   já,  það eru til margar sögur af styrk kvenna. Konur kunna að takast á við erfið verkefni því þeim eru ætluð erfið verkefni.

Konan gengur með barnið sitt undir belti, fæðir það, ekki alltaf á auðveldan hátt og nærir það á eigin líkama þ.e. móðurmjólkinni svo vikum og mánuðum skiptir. Vinnur heimilisstörfin sín með barnið á handleggnum eða við fótskörina í pilsfaldinum, hefur auga með öðrum börnum, hlustar á og hjálpar til með heimalærdóminn, styrkir og styður, vakir í veikindum barna, hugsar um aldraða, uppörvar, huggar, hrósar, leysir deilur, gleðst með glöðum, syrgir með sorgmæddum,  brosir blítt, tekur að sér vinnu utan heimilis, oft mjög krefjandi vinnu, er fjármálasérfræðingur heimilisins og sér um innkaupin á  matvöru og öllu öðru fyrir heimilið, eldar mat, hreinsar og þrífur, pússar, saumar og prjónar. Býr til heimili, athvarf fyrir fjölskylduna, samastað fyrir alla, skjól fyrir utanaðkomandi áhrifum, skjól fyrir  heiminum þarna úti. Hún skapar hlýju, brosir blítt og veitir öryggi. Konan getur gert margt í einu á sama tíma. Svo bætir hún við störfum í sjálfboðnu starfi fyrir samfélagið í alls kynns félagsstarfi, s.s. íþróttastarfi, skólastarfi, kirkjustarfi, kvenfélögum svo eitthvað sé nefnt..

Já, konur eru sterkar og ég er stolt af því að vera kona. Þetta samfélag og ekkert samfélag gæti starfað án kvenna, án þess mannauðs sem konur hafa til að bera, án þeirrar hagsýni og visku sem konur búa yfir og án þess kærleika sem konur eiga.

Og konur láta sig varða.Vilja bæta umhverfi sitt og gera betur. Við eigum systur út um allt, hér heima og út um allan heim og því eru möguleikarnir ótrúlega miklir til að vinna saman og til að breyta.

Þegar ég hugsa um konuna á þennan hátt þá liggur við að maður trúi sögunni um það þegar Guð skapaði Adam og Evu.  Hann spurði „hvort þeirra vildi geta pissað standandi“. Adam varð á undan og varð svo glaður og hljóp út um allt en Eva varð hnuggin og sagði: „Hvað fæ ég þá“? Guð klappaði henni á öxlina og sagði: „Eva mín, þú færð heila“.

Þetta er samt sagt með fullri virðingu fyrir karlmönnum, okkar ágætu eiginmönnum og sonum og þeirra framlagi til samfélagsins.

Já, konur geta allt, en við megum ekki gleyma okkur sjálfum við verðum að sækja styrk og fræðslu þar sem hún gefst.

Við sem erum í samtökum DKG  erum vel settar. Við höfum markmið samtakanna  sem vísa okkur veginn og segja raunar allt um það hvernig við getum stutt hvor aðra og fengið styrk, aukinn þroska, áræði, gleði og aukið sjálfstraust út úr starfinu í samtökunum og eftir því sem ég skoða markmiðin oftar finn ég alltaf eitthvað nýtt í þeim.
 DKG hvetur okkur til að efla starfsáhuga með fjölbreyttri fræðslu á fundum  um samtökin, en ekki síst um landsmál og alheimsmál. Markmiðin leggja til að við styrkjum stöðu kvenna í fræðslustörfum með því að hvetja til þess að konur séu ráðnar í trúnaðarstöður og hvetja þær til að sækja um stöður sem auglýstar eru. Einnig að örva þær til áframhaldandi náms og sækja um námsstyrki sem bjóðast. Markmiðin benda konum á að vera virkar, taka að sér embætti innan samtakanna og vera í stjórnum og nefndum til að auka víðsýni og þroska. Persónulegur og faglegur þroski eykst við þáttöku í deildarstörfum og taka að sér trúnaðarstörf þar. Gefa kost á sér til þáttöku í landssambandsstarfinu, í Evrópustarfinu og í alþjóðasamstarfinu t.d. með fyrirlestraferðum í gegn um “Speakers Fund” eða framboði í hinar ýmsu nefndir.
Það er ekki skylda að bjóða sig fram og ekki alltaf sem það hentar okkur, en það er val – og það er bara mjög gaman að taka þátt og tengjast betur.

Við höfum sem sagt val, alltaf val í öllu og höfum í raun um margar leiðir að velja.
En hvað sem við veljum verður það að gerast af heilum hug og með fullri skynjun á gildi þess fyrir okkur persónulega og fyrir samtökin. Hugurinn verður að vera með og vera fullur af gleði og vissu fyrir því að geta bætt og gert betur.  
Til þess að geta sinnt öllu þessu þarf konan að hugsa um sjálfa sig og sækja sér styrk og orku. Það gildir hérna eins og í flugvélunum að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig og svo á þann sem maður hjálpar.
Ef batteríið er búið hjá okkur getum við ekkert gefið af okkur. Við þekkjum trúlega allar hvernig það er að ganga á varabatteríinu og kannski komnar á felguna. Það er alltaf erfitt og býður upp á heilsutap, andlega og líkamlega. Þá verðum við að sporna við fótum og bera virðingu fyrir okkur sjálfum og störfum okkar. Ná okkur í hjálp, fá góða hvíld og svefn sem nærir.
Við þurfum að gefa okkur tíma til að þakka fyrir alla þá reynslu sem okkur er skömmtuð. Þakka fyrir hvern dag og biðja um leiðsögn, biðja um að störfin raðist niður á sem bestan hátt. Muna eftir að anda, anda djúpt því það gefur innri ró. Nota bjartsýni og trú á velgengni. Trúa að allt gangi vel, sjá það fyrir sér, sjá hlutina gerast, vona og trúa. 

Þetta með „leyndarmálið“ - the Secret - er ekkert nýtt, það hefur alltaf verið til bara ekki sett í orð. En það virkar.
 
 Ennfremur þurfum við að eiga kærleika til eigin líkama og sálar. Þykja vænt um þennan skrokk og þessa manneskju sem i honum býr. Hreyfa sig reglulega, en aldrei ofgera sér, ekki vera of duglegur. Taka reglulega hvíld, hlusta á líkamann og trúa honum. Við erum ekki að gera það fyrir neinn annan, ekki fyrir manninn okkar eða börnin okkar heldur aðeins fyrir okkur sjálfar.
Á hverjum einasta degi þarf að vernda sinn eiginn innri frið  því við það eykst andlegur og líkamlegur styrkur. Það tekur ekki langa stund, við getum gert það í sturtunni, í bílnum, á leiðinni í vinnuna og úti undir beru lofti og þá er gott að teyga að sér loftið og njóta niður í tær, í hvaða veðri sem er. Munið að teyga að ykkur græna litinn t.d. á barrinu hann gefur góða orku og munið eftir að líta upp í himininn og njóta.
Mikilvæg forvörn er að hlusta eftir eigin líðan og lesa í eigið heilbrigði og vinna úr þvi.   
Þú hefur valið. Þú ræður hvort þú verður ósjálfbjarga, andlega og/eða líkamlega eða heldur þér í formi. 
 

En við þurftum líka að styrkja innviðina í samtökunum okkar því allir þurfa að læra á samtökin og tileinka sér siði og venjur eða gildin sem skipta svo miklu máli.  Einnig er dýrmætt að kynnast innan hverrar deildar og heyra hvað hver og ein er að gera því það eykur víðsýni og hvetur til dáða.
Ef innviðir eru sterkir skiptir það máli fyrir fundarsóknina og áhugann í deildunum og samheldnina í samtökunum og styrkur hverrar og einnar verður meiri.
Hugsið ykkur hvað svona samtök gætu gert ótrúlega hluti á landsvísu og á heimsvísu. 

Nefni nokkur dæmi:
Við gætum byrjað á því að láta bera meira á okkur hér heima. Verða þekktar.
Mörg alþjóðleg félög eru mjög þekkt, s.s. Rotary, Oddfellowar, Lions, Frímúrarar, Soroptimistar, Kiwanis o.fl.
Fólk þarf að kveikja þegar sagt er Delta Kappa Gamma, já þær!!.

Hægt er að nota allt það kynningarefni sem við eigum þegar við erum í samskiptum hvor við aðra og við aðra utan samtakanna. 
Notum fallegu  rauðu möppuna, (má nota á almennum fundum), bréfsefnin, samskiptaspjöldin,  lykilinn sem heimilt er að bera alla daga og dreifa kynningarbæklingnum okkar. Það eru engin leyndarmál í samtökunum.
Kynna heimasíðuna okkar.
Heiðra fleiri konur og segja frá því, t.d. með blaðamannafundi eða fréttatilkynningu.

Við þurfum að efla námsstyrkjasjóðina og segja frá því í fjölmiðlum þegar styrkir eru veittir.

Gaman væri að taka upp verkefnið „ Áhrif myndefnis á börn og unglinga“ og
 ræða um ábyrgð foreldra á því að fylgjast með hvað börnin og unglingarnir horfa á.
Sem kennarar, skólastjórnendur, mæður og ömmur verðum við að beita áhrifum okkar.   Okkur má ekki standa á sama. Mörg börn eru orðnir sjónvarps/myndbandafíklar, tölvufíklar og spilafíklar.

Og svo væri mjög spennandi ef íslenskar Delta Kappa Gamma systur gætu styrkt konur í fjarlægum löndum til náms. Í einhverju því landi þar sem ekki þykir sjálfsagt að konur mennti sig. Það væri sannarlega í anda stofnandans dr. Annie Webb Blanton.
Eða styrkt börn til skólagöngu eða til lestrarkunnáttu.
Þetta er bara til umhugsunar fyrir ykkur inn í næsta ár.

En bara það, að vera með, sækja fundina og njóta samverunnar skiptir máli því hver og ein er sérstök og hefur sérstaka reynslu að deila með öðrum og það getur skipt sköpum fyrir einhvern annan.  Ég verð alltaf sterkari eftir hvern fund.

Mig langar að nefna það, að gjarnan er sagt að Delta Kappa Gamma konur séu mjög uppteknar konur, störfum hlaðnar og hafi lítinn tíma til félagsstarfa. Það er vegna þess að þær eru vel menntaðar og færar í sinni sérgrein, eru í þýðingarmiklum störfum og eftirsóttar.
En, það er einmitt þess vegna sem þeim hefur verið boðið að vera DKG konur. Og þessvegna og þrátt fyrir allt segjum við oftast já þegar leitað er til okkar. En munið  - það er val.
 
Að lokum langar mig til að deila með ykkur þessarri skoðun minni, að ef okkur finnst að við eigum ekkert til að gefa, ekkert afgangs, getum við gefið kærleika, umhyggju, faðmlag og einlægt breitt bros. Hlýtt faðmlag styrkir og gefur kraft. Brosið hlýjar og eykur hamingju og gefur von.

Hér er smá uppskrift fyrir okkur:
Tvö faðmlög á dag     halda okkur í jafnvægi, 
3- 4 faðmlög á dag     styrkja okkur og gefa aukinn kraft.  

Nú nýverið sagði ungur maður mér frá reynslu sem hann hafði ekki trúað á áður. Hann missti unga eiginkonu sína mjög snögglega og sorgin var mikil. Stuttu áður hafði hann setið heima í stofu ásamt konu sinni. Hún var að hlusta á útvarpsþátt þar sem fjallað var um styrk trúarinnar og að styrkur gæti borist milli manna jafnvel með snertingu. Hann sagðist hafa sagt við hana:, „að hann tryði nú ekki þessu, þetta væri algjört rugl“.
Síðan kom höggið þegar hún var kölluð burtu í einu vetfangi, án fyrirvara.  Ættingjar og vinir hópuðust að og sýndu samhryggð og umhyggju og þá upplifi hann þetta sem hann hafði ekki trúað á.
Hann lýsti þessu svona:  „Þetta var ótrúlegt, ég fann styrkinn og kærleikann streyma til mín, með orðum, nærveru og faðmlögum, þetta streymdi inn í mig, ég fann það í hjartanu, í maganum og í sálinni, ég fann þetta svo sterkt og ég varð heitur og sterkur og þakklátur,  -  þrátt fyrir að ég væri ekki sáttur við Guð á þeirri stundu.“
Þannig virkar snertingin og brosið, það styrkir og læknar og þegar við höfum ekkert annað að gefa getum við notað faðmlög og snertingu.

Já, kæru systur. Það eru margir sem eiga erfitt og eru hjálparþurfi en það er líka mikil hamingja og gleði í okkar samfélagi og gleði fylgir sól og birta.
Spádómskertið sem við tendrum á morgun í upphafi aðventu, minnir okkur á aðundirbúna komu frelsarans og jólahátíðarinnr þá skulum við staldra við, láta ljósið loga og njóta friðar og kærleika.
Við skulum senda góðar hugsanir og ekki spara faðmlögin.

Óska ykkur öllum gleðilegrar aðventu.


Hertha W. Jónsdóttir,
Gamma deild


Síðast uppfært 07. jan 2010