Fréttir af starfi Þetadeildar vor 2009
Vetrarstarf Þetadeildar 2008–2009.
Þema vetrarins var menning og listir þar sem sérstök áhersla var lögð á að skoða hvernig nemendum á Suðurnesjum eru kynntar þessar greinar. Þegar þetta er skrifað hafa fjórir fundir verið haldnir og sá fimmti með leikhúsferð framundan.
Fyrsti fundur vetrarins var haldinn í Listasafni Reykjansbæjar 6. október og erindi kvöldins hélt Ilmur Stefánsdóttir myndlistarmaður. Hún leiddi Þetakonur um sýningu sína og lagði m.a. áherslu á að nauðsynlegt væri að auka kennslu í sjónlistum á öllum skólastigum. Fram kom í kynningu formanns að safnkennari er við störf hjá Listasafninu og í skipulögðum skólaheimsóknum var búið að taka á móti rúmlega 500 nemendum á þessa sýningu Ilmar. Sigrún Ásta Jónsdóttir flutti orð til umhugsunar og fjallaði um þema vetrarins og tengdi það við fræðslu. Hún sagði m.a. að fræðsla um menningu og listir í skóla væri aðgangsmiði að menningu síðar á ævinni, ef börn venjast því í skóla að fara á listsýningar þá kunna þau að njóta þess þegar þau eru orðin fullorðin. Það að geta notið menningar gerir okkur að sterkari manneskjum, menning og listir eru vinir í raun.
Árið 2008 var afmælisár hjá Þetadeild því 26. nóvember n.k. voru 10 ár liðin frá því að deildin var stofnuð. Haldinn var sérstakur afmælisfundur heima hjá formanni og meginþema fundarins var tónlist. Gestir frá landssambandsstjórn DKG voru Guðný Helgadóttir og Ingibjörg Einarsdóttir og ávörpuðu þær báðar fundinn. Ungur nemandi úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lék á píanó og fyrirlesari kvöldsins, Karen Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans ræddi um gildi tónlistar í samfélaginu, sagði frá rannsóknum á árangri tónlistarnemenda í öðru námi og sagði svo að lokum frá ferð Lúðrasveitar Tónlistarskólans til Bandaríkjanna. Karen sagði að þó mikil vinna færi í að undirbúa slíkar ferðir, þessi ferð var þrjú ár í undirbúningi, þá væri ávinningurinn mikill því nemendum fer mikið fram og ráða við flóknari verkefni fyrir utan lífsreynsluna sem þau fá. Bryndís Bjjörk Guðmundsdóttir flutti orð til umhugsunar og ræddi um menntun. Hún sagði frá ráðstefnu sem hún sótti nýlega þar sem m.a. var rætt um að í ljósi efnahagsástandsins mættum við ekki ala upp hrædda kynslóð eða missa menntað fólk úr landi (spekileki). Í lok kvöldsins var nýr vefur Þetadeildar opnaður formlega. Fundinum lauk svo með því að sunginn var Delta Kappa Gamma söngurinn eftir Herdísi Egilsdóttur við undirleik Geirþrúðar Bogadóttur.
Janúarfundurinn hefur í mörg ár verið tileinkaður bókmenntum hjá Þetadeildinni og að þessu sinni var fundurinn haldinn 13. janúar heima hjá gjaldkera deildarinnar Guðbjörgu Sveinsdóttur. Fundurinn fer alltaf fram þannig að hver og ein kona kynnir eina eða tvær bækur sem hún mælir með við okkur hinar. Oft eru þetta einhverjar uppáhaldsbækur eða nýútkomnar jólabækur. Kynntar voru 19 bækur á þessum fundi og sjá má listann á vef deildarinnar fyrir þær sem hafa áhuga. Þetta er ávallt einn skemmtilegasti fundur vetrarins og mælum við eindregið með þessu fundarefni fyrir aðrar deildir.
Fjórði fundur vetrarins var haldinn í Biósal Duushúsa miðvikudaginn 18. mars þar sem fundarefnið var sagan. Eftir að formaður hafði sett fundinn þá minnti hún á landssambandsþingið sem haldið verður á Egilsstöðum í maí og Evrópuþingið í Noregi í júní. Lára Guðmundsdóttir flutti orð til umhugsunar. Hún lagði út frá frétt í fjölmiðlum í vikunni um mótmæli grunnskólabarna að fá ekki að nota GSM síma í skólanum og ræddi um réttindi og skyldur. Börn og unglingar eru orðnir meðvitaðri um rétt sinn m.a. með þátttöku í nefnum og ráðum í skólum en ekki má gleyma skyldunum sem fylgja réttindum og frelsi. Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar og Björn G. Björnsson sýningarhönnuður kynntu nýja sýningu sem opnuð var á vegum Byggðasafnsins í Gryfjunni í Duushúsum þann 30. mars. Sýningin hefur hlotið nafnið Völlurinn og er um áhrif bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli á mannlífið á Suðurnesjum og störf íbúa á Vellinum. Björn gerði grein fyrir hugmyndafræðinni sem sýningin byggir á og lýsti hvernig sýning verður til. Umræður og ábendingar fundarkvenna bættu við hugmyndum í sarpinn fyrir lokahönnun sýningarinnar og var viðstöddum öllum boðið formlega að vera við opnunina.
Fimmti fundur verður haldinn fimmtudaginn 16. maí og þá förum við í leikhús. Við ætlum að sjá Þrettándagleði Shakespears í meðförum Nemendaleikhússins og leikara Þjóðleikhússins.
Við sendum svo öllum DKG systrum sumarkveðjur og sjáumst sem flestar, hressar og kátar á Egilsstöðum 15. maí.
Bestu kveðjur
Valgerður Guðmundsdótti
Formaður Þetadeildar
Birtist í Fréttabréfi DKG vor 2009.
Síðast uppfært 12. maí 2017