Kynning á Þetadeild 2005

Kynning.  Flutt á landsþingi  2005

Litið um öxl - Stofnun ÞETA deildar á Suðurnesjum haustið 1998 í örsöguformi.
Örsaga er upplifun augnabliksins full af endurtekningum og óræðum atvikum.

Flutningur (tillaga): 
Persónur og leikendur: 
upplesari les hægt með dramatískum tilburðum (Steinunn Njálsdóttir gefur leiðbeiningar),
meðtúlkendur:  túlka með leikrænni tjáningu og ásláttarhljóðfærum.

  
Litið um öxl í ÞETA deild

Síminn hringir.
Óræð rödd er  í símanum.
Ég kannast við nafnið.  Þetta er þekkt kona úr stjórnmálunum.
„Má bjóða þér á fund?“ 
Nokkru síðar erum við mættar á Flughótelið, nokkrar konur, til fundar við mektarfrúr úr höfuðborginni,.
„Ætli ég sé nógu fín?“  
„Er ég nógu gáfuleg?“ 
Ég er með gullarmbandið sem vinnufélagarnir gáfu mér í fimmtugsafmælisgjöf .
Armbandið veitir mér öryggi.
„Ég get þetta!“ 
Á móti okkur tekur ung þjónustustúlka í pilsi, síddin er við hæfi.
Ég dreypi á kaffinu úr kokteilbollanum.
Ég sé konur koma inn ganginn.  Ganga á dökkbláa, dúnmjúka gólfteppinu.
„Hvar eru hinar framandi konur úr borginni?“ 
„Jú, þær eru komnar til að stofna nýja deild.
Þarna birtast þær hver af annarri.  Hárið óaðfinnanlegt.
Fundurinn hefst.  „ÞETA skal hún heita.“ 
ÞETA-deild í Delta, Kappa, Gamma.
„Hvað erum við?“  „Erum við grískar gyðjur?“ 
Ég lyftist öll.
Ég er á háum hælum, þeir hækka.
„Þú verður formaður!“ 
Ég hrekk í kút.  „Var hún að meina mig?“  „Hver er formaður?“  Hún hneigir höfuðið til mín.  Ég er komin í djúpu laugina.  Deildin er stofnuð.
„Þið haldið landsþingið í vor.“  „Sjáumst þá.“ 
„Í vor?  Eftir fjóra mánuði?  Hvað er landsþing?  Hvað gerum við nú?  Förum við um landið og höldum þing?“ 
„Leigjum golfskálann í Leiru!“ „Þar erum við öruggar.“ 
Eigum við að sýna gestunum Bláa lónið, Saltfisksetrið, Fræðasetrið?
Eigum við að sýna þeim allar perlurnar okkar?
Þær eru komnar, konurnar.  Landsþingið er byrjað.
Hvað er á dagskrá kvöldsins? Gleymdist dagskráin?
Enginn fyirlesari? (mikil angist í röddinni)
„Konur skemmtum okkur sjálfar!“ 
„Leikum leikrit!“ „ Yrkjum vísur!“ 
Ég sem limru:  ( verður hugsi augnablik)
 
„Hér sit ég happa og glappa,
í hófi hjá Delta og Kappa.
Ef yrkja á ljóð,
ég alveg verð hljóð,
í heila mér stungið er tappa.“

Landsþinginu er lokið.
„Hittumst, á sama tíma að ári.“

(Leikendur og lesari lúta höfði og þakka fyrir)  LOKIÐ.
      
       (Höfundur: Steinunn Njálsdóttir, Þeta-deild)               


Síðast uppfært 12. maí 2017