26. sept. 2022

 Fundur haldinn mánudaginn 26. september 2022

 

Fyrsti fundur vetrar var haldinn í Sandgerði á heimili Lóu Bjargar formanni nýstofnaðrar stjórnar Þeta deildar. Dagskráin hófst að venju með því að formaðurinn setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Því næst var Guðbjörg Sveinsdóttir með orð til umhugsunar þar sem hún ræddi um áhuga sinn á ljóðalestri og hvatti Þetasystur til að gefa ljóðabókunum rými ofarlega í bóklestri sínum. Guðbjörg gerði fyrrum DKG konuna; Vilborgu Dagbjartsdóttur skáld og kennara að umræðuefni sínu. Vilborg sendi frá sér fjölda ljóða- og barnabóka og þýddi hátt á fimmta tug barna- og unglingabóka. Guðbjörg fléttaði árstíðarljóðum Vilborgar skemmtilega inn í pistilinn sinn.

Lóa Björg sagði okkur frá nýlegu framkvæmdaráðsþingi DKG sem hún sótti í septembermánuði. Þar var farið yfir tilgang og markmið félagsins og rætt um stöðu félagsins á Íslandi og víðar um heim. Nokkur áskorun er víða að halda samtökunum starfandi, þar sem þátttaka hefur dregist saman og sum staðar hafa félög lagt upp laupana. Það er því mikilvægt að við hugum að því að þétta okkar raðir okkar og fá nýja meðlimi í deildina með reglulegu millibili.

Lóa kynnti þema vetrarstarfsins hjá Þeta deild í vetur sem verður gleði. Vegna samkomutakmarkana síðustu tvö árin taldi stjórnin þetta góðan tíma til að styrkja hópinn okkar og virkja hópinn til góðrar þátttöku með ýmsum leiðum.

Því næst var farið í leik sem kallast hraðstefnumót og mætti jafnvel kalla skyndikynni. Þá fengu félagskonur 4 spurningar og nokkar mínútur til að tala saman tvær og tvær og svara spurningum um hvaðan þær væru, hvernig fræðastörfum þær ynnu að, hvað þáttaka í DKG gerði fyrir þær og hvað þær hefðu gert í sumar. Reglulega skiptu félagskonur svo um viðmælendur og voru hvattar til að ræða við þær sem þær þekktu lítið. Þetta var mjög skemmtilegt og mikið hlegið.  

Endað var á að borða Sushi og aðra smárétti frá Reykjavik Asian sem er fyrirtæki í heimabyggð.

Næsti fundur verður 19. október í Setbergi HÍ og þar mun Hómfríður Árnadóttir taka á móti okkur.

Við þökkum Lóu Björgu formanni fyrir að bjóða okkur heim á fallega heimilið sitt.

 

Fundi var slitið kl. 20.


Síðast uppfært 09. jan 2023