23. janúar 2017

23. janúar 2017
Dagskrá fundar:
1. Kveikt á kertum
2. Nafnakall og fundargerð síðasta fundar lesin
3. Orð til umhugsunar
4. Deildarkonur kynna sig
5. Matur
6. Gerður Kristný rithöfundur
7. Önnur mál
 
1. Formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
2. Ritari var með nafnakall og voru 24 konur mættar, þar af ein af þeim nýju sem eru í inntökuferli og ritari las upp fundargerð síðasta fundar.
3. Erla Guðmundsdóttir var með orð til umhugsunar og fjallaði um hjartað og hjartsláttinn í sinni víðustu mynd. Hjartsláttinn innra með okkur og hjartslátt samfélagsins. Takturinn í hjartanu er lífið sjálft. Einnig fjallaði hún um kristna trú og samkennd í víðum skilningi.
4. Undir liðnum deildarkonur kynna sig var það Valgerður Guðmundsdóttir sem kynnti sig. Hún sagði frá uppruna sínum og æsku, menntun, fjölskyldu og starfi.
5. Matur
6. Gerður Kristný rithöfundur sagði frá sér og bókum sínum, hún hefur gefið út 25 bækur en lagði áherslu á að kynna fyrir okkur þrjár þær nýjustu þó að hún hafi rætt um fleiri. Gerður Kristný hefur aðallega gefið út ljóðabækur og barnabækur, en einnig eina viðtalsbók og líka skáldsögur. Hún sagði frá upphafi síns rithöfundarferils og las fyrsta ljóðið sem hún fékk birt. Þær bækur sem hún kynnti aðallega og las upp úr eru Blóðhófnir sem fjallar um Gerði Gymisdóttur og kallast á við eitt frægasta ljóð Eddukvæða, Skírnismál. Hún las fyrir okkur upphaf bókarinnar. Næsta var það Drápa sem segir áhrifaríka sögu í ljóði sem hefst nóttina þegar myrkusinn kemur til borgarinnar. Hún las niðurlag bókarinnar fyrir okkur og að lokum var það Hestvík, nýjasta bókin hennar sem er skáldasaga og fékk ritdóm um að sagan væri ónotasaga. Sagan segir af Elínu sem fer ásamt tólf ára syni sínum í sumarbústað foreldra sinna sem staðsettur er í Hestvík á Þingvöllum. Þangað hefur hún ekki komið í fjölda ára eða síðan hún var unglingur og naut sveitasælunnar í samvistum við foreldra sína. Gerður Kristný las upp úr bókinni. Síðan bauð hún upp á spurningar og spjall.
7. Formaður minnti á Landssambandsþingið á Akureyri í byrjun maí og minnti á að ef einhver vildi vera með erindi á Evrópuþinginu í Tallin í Eistlandi, dagana 24.-29. júlí 2017 þá er enn hægt að sækja um það.
 
Formaður sleit fundi kl. 20:00
Ritari: Sigurlína Jónasdóttir

Síðast uppfært 14. apr 2017