28. október 2010

2. fundur vetrarins haldinn í  Holtaskóla fimmtudaginn 28. október, 2010,  kl. 20:00.

Dagskrá fundar:
Kveikt á kertum
Nafnakall/fundargerð
Nýir félagar teknir inn í deildina
Orð til umhugsunar
Fyrirlestur/ Læra að lesa
Önnur mál

Guðbjörg formaður, setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Dagskrá fundarins hófst með nafnakalli og voru 18 félagar mættir. Síðan var síðasta fundargerð lögð fyrir og hún samþykkt.

Næst voru tveir nýir félagar teknir inn í deildina, Fanney Halldórsdóttir og Kristín Helgadóttir. Formaðurinn stýrði athöfninni samkvæmt reglum samtakanna, með aðstoð stjórnar.

Guðbjörg Ingimundardóttir flutti orð til umhugsunar og fjallaði um ágæti KNÚS og FAÐMLAGA. Hún sagði meðal annars að samkvæmt  rannsóknarniðurstöðum væri faðmlögum líkt við kraftaverkalyf, fólk fær síður hjartasjúkdóma og talið ágætt ráð við streitu. Í lokin ráðlagði hún systrum að knúsa og faðma að minnstu tvisvar sinnum á dag.

Fyrirlestur Guðbjargar Þórisdóttur fjallaði um nýbreytni í lestrarnámi nemenda, sem hófst fyrir þremur árum í Holtaskóla og hefur gefist vel. Einnig sagði hún frá lestrarþjálfunarnámskeiði sem haldið er í skólanum á hverju hausti fyrir foreldra. Guðbjörg lauk erindi sínu með því að segja “þegar öllu er á botninn hvolft er hið fornkveðna í gildi, að æfingin skapi meistarann,,.

Eftir fyrirlesturinn og fyrirspurnir spunnust umræður um mikilvægi læsis og systur sammála um að það væri hagur alls samfélagsins að gott og upplýsandi samstarf ætti sér stað á milli skólastiganna þriggja, leik- grunn- og framhaldsskóla.

Eftir fyrirlesturinn færði Guðbjörg formaður, Guðbjörgu Þórisdóttur rós frá deildinni.

Undir önnur mál, minnti formaðurinn enn og aftur á landssambandsþing DKG, sem verður haldið hér í bæ, næsta vor. Einnig kom hún með tillögu stjórnar, að skipa nokkrar undirbúningsnefndir, til að dreifa vinnunni vegna skipulagningar þingsins.

Fundinum lauk með kaffi og hnallþórum, í boði Guðbjargar Sveins. og Bryndísar Guðmunds. og aldrei að vita nema uppskriftirnar komi á vefsíðu deildarinnar.

Í lok fundar kvaddi stór hluti systra með faðmlögum, sem var í anda fundarins.


Inga María Ingvarsdóttir, ritari


Síðast uppfært 04. nóv 2010