Skýrsla formanns 2016-2018

Skýrsla um starf Þetadeildar 2016–2018

 

Stjórn Þetadeildar var kosin á vorfundi deildarinnar 2016. Formaður var kjörin Gerður Pétursdóttir og aðrar stjórnarkonur skiptu með sér verkum. Kristín Helgadóttir er gjaldkeri, Bjarnfríður Jónsdóttir, meðstjórnandi og sá hún um skipulagningu á dagskrárliðunum orð til umhugsunar og félagskona kynnir sig. Sigurlína Jónasdóttir er ritari og vefstjóri og Árdís Hrönn Jónsdóttir meðstjórnandi sem tók að sér ýmis verkefni eins og innkaup á rósum veitingum og gjöfum.

Félagskonur Þetadeildar voru í upphafi tímabils 33, fimm konur hafa hætt í Þetadeild á þessu tímabili og tvær bæst í hópinn og eru núverandi meðlimir 30 talsins. Fín mæting var á flesta fundi deildarinnar og var fjöldi þeirra sem mættu oft á milli 18-22.

Fyrsta verk nýrrar stjórnar var að velja þema til næstu tveggja starfsára. Ákveðið var að leggja áherslu á eftirtalin atriði:

  1. Styrkja tengslanetið innbyrðis og út á við
    1. Konur segja frá frá sjálfri sér og sínu starfi
    2. Efla það sem við stöndum fyrir og samtökin
      1. Fara á Vorþing
      2. Fara á Evrópuþing
      3. Fjölmenning, hvað eru kennarar að erlendu bergi brotið að bera með sér
        1. Fá kynningu frá erlendum kennurum

Vel gekk að vinna með lið númer eitt og hafa kynni og tengsl innan Þetadeildar eflst á tímabilinu. Á fundum flutti formaður reglulega fréttir af alþjóða- og landsambandinu og hvatti deildarkonur til að mæta á fundi á þeirra vegum. Því miður voru langoftast einungis um þrír fulltrúar frá Þetadeild á innanlandsþingum og fundum eða 10% af fjölda deildarkvenna. Við eigum þó mjög öflugar konur sem hafa starfað á vettvangi landsambandsins,unnið þar í nefndum og verið í forystu. Varðandi lið þrjú þá höfum við á tímabilinu fengið áhugaverð erindi sem snúa að fjölmenningu ásamt því að fá í okkar góða hóp fleiri konur af erlendu bergi brotnar.

Innihald funda

Stjórnin hóf stjórnartímabilið á hópavinnu til að fá veganesti frá deildarkonum í skipulagningu funda næstu tvö árin. Deildarkonum var skipt í nokkra hópa og svöruðu þær spurningunum: Af hverju mæta konur ekki/hvað myndi fá þig til að mæta og hvað vilt þú sjá á dagskrá fundanna í vetur? Auk þess ræddu allir hóparnir um fundardaga í vetur og fundartíma. Í kjölfarið á þessu útbjó stjórnin dagskrá fyrir fyrsta starfsárið. Á öðru starfsárinu var ákveðið að breyta til að fá deildarkonur í auknu mæli til að taka að sér skipulagningu á fundum í samstarfi við stjórnina. Það tókst vel til og jók jafnframt virkni deildarkvenna í starfi deildarinnar.

 

Haldnir voru sjö fundir á hvoru starfsári fyrir sig. Fundirnir voru haldnir víða á Suðurnesjum oftast á vinnustöðum deildarkvenna, veitingastöðum og einu sinni á heimili formanns. Boðið var upp á aðkeyptar veitingar og reynt að hafa þær fjölbreyttar, hagstæðar og einfaldar.

Á hverjum fundi var ein deildarkona með orð til umhugsunar og má segja að þar hafi verið farið um víðan völl. Innihald þessa liðs var t.d. síðasta æviskeiðið, aðventan, hjartað, tækifærin, klukkur, aldur, samkennd, hópleit vegna brjóstakrabbameins, stjórnun og vellíðan á vinnustað. Svo sannarlega fjölbreyttur og skemmtilegur dagskrár liður.  Nýr dagskrár liður var tekin upp í október 2017, „félagskona kynnir sig“ en undir þeim lið segir ein deildarkona frá uppruna sínum, æsku, menntun, fjölskyldu og starfi. Alls hafa 10 deildarkonur kynnt sig á tímabilinu og við því náð að kynnast hvor annarri betur og styrkt tengslin.

Leitast var við að hafa dagskránna sem fjölbreyttasta bæði hvað varðar fundarstað og innihald. Við fengum til okkar gesti með fróðleg erindi ásamt því sem deildarkonur tóku á móti okkur á vinnustöðum sínum og kynntu okkur starfsemina og verkefni sín.

Í október 2016 tók Sveindís Valdimarsdóttir verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) og félagskona í Þetadeild á móti okkur og sagði frá starfi sínu við íslenskukennslu hjá MSS og spennandi Evrópuverkefnum sem miðstöðin tekur þátt í.

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir lýðheilsu- og viðskiptafræðingur heimsótti okkur á jólafundi 2016.  Hún sagði frá frá lífi sínu og starfi og mikilvægi lýðheilsu fyrir heill og hamingju hverrar manneskju og fyrir samfélagið allt.

Í febrúar 2017 bauð Gerður Pétursdóttir formaður Þetadeildar okkur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti fyrirtækið Isavia þar sem hún gegnir stöðu fræðslustjóra.  Með Gerði var Lóa B. Gestsdóttir námsbrautarstjóri á Flugverndarbraut sem er ein  námsbraut Isaviaskólans. Hún kynnti meðal annars þjálfunarleiðir og uppbyggingu á þjálfun starfsmanna í vopna- og öryggisleit.

Við fengum Kriselle Lou Suson Cagatin M.A. nemi í Uppeldis- og menntunarfræðum til að halda erindi fyrir okkur í mars 2017. Kriselle sagði frá fjölmenningarstarfi leikskólans Akurs og frá meistararitgerð sinni, þar sem hún er að skoða skóla- og fjölskyldutungumál.

Í október 2017 bauð Kristín gjaldkeri okkur í leikskólann sinn Holt þar sem  Anna Soffía leikskólakennari sagði frá Erasmus+ verkefninu, Frá lýðræði til læsis. Leikskólinn tók þátt í eTwinning samstarfi við Spán, Pólland og Slóveníu. Unnið var með bókina Græni kötturinn eftir Önnu Soffíu.

Á jólafundi 2017 fengum við nokkra góða gesti; Angela Marina B. Amaro frá Portúgal og Aleksandra Pitak  frá Póllandi sögðu okkur frá jólahefðum í sínum löndum. Síðan kom Kjartan Már Kjartansson bæjarstóri í Reykjanesbæ og spilaði jólalög á fiðlu og ræddi við okkur um það sem er honum efst í huga þessa dagana og sagði okkur nokkrar gamansögur.

Í febrúar 2018 tóku þetakonurnar Elín og Ása á móti okkur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hittum við þar Ívar Valbergsson, fagstjóra í vélstjórn í FS. Ívar sagði frá starfi sínu en hann hefur farið ýmsar óhefðbundnar leiðir í kennslu.

Tveir rithöfundar sóttu okkur heim á þessu tímabili og lásu úr bókunum sínum og sögðu frá ævi sinni og störfum það voru þau Gerður Kristný og Guðmundur Brynjólfsson.

Vorferð Þetadeildar var farin 24. apríl 2016 og lá leiðin á Eyrabakka. Við heimsóttum þau heiðurshjón Valgeir Guðjónsson og Ástu K. Ragnarsdóttur í Bakkastofu. Í apríl 2017 munum við taka á móti Epsilon deildinni og er nefnd búin að setja saman skemmtilega og menningarlega dagskrá í Reykjanesbæ

Auk þess alls sem fram er komið þá brölluðu Þetakonur ýmislegt á fundum sínum m.a. var Kliðfundur,fjöldasöngur og tónlistaratriði frá tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Deildarkonur hafa tekið virkan þátt í nefndum og stjórnun landsambandsins. Inga María Ingvarsdóttir var meðstjórnandi í stjórn Delta Kappa Gamma 2015–2017 einnig sat Guðbjörg M. Sveinsdóttur fráfarandi forseti í stjórninni. Fulltrúar okkar í fastanefndum fyrir árið 2015–2017 voru Bryndís Guðmundsdóttir sem átti sæti í laganefnd og Sigrún Ásta Jónsdóttir sem var formaður námsstyrkjanefndar. Fulltrúar okkar í nefndum sem kosnar voru á landsambandsþingi fyrir árin 2017 – 2019 eru Guðbjörg M. Sveinsdóttir sem er formaður uppstillingarnefndar. Í nefndum tilnefndum af forseta eigum við tvo fulltrúa þær Sigrún Ástu sem er formaður laganefndar og Elínu Rut Ólafsdóttur sem á sæti í námsstyrkjanefnd. 

Ég vil þakka öllum félagskonum fyrir samstarfið, góða mætingu á fundi og skemmtileg erindi. Takk allar fyrir að taka á móti okkur og fyrir kynna sjálfar ykkur og starf, fyrir flutt orð til umhugsunar, skipulagningu funda og góða virkni. Það sem skapar og myndar Þetadeildina eru við allar sem vinnum saman að því að gera dagskránna og samskiptin innihaldsrík og fróðleg. Ég lýk máli mínu á að þakka innilega samstarfskonum mínum í stjórn deildarinnar fyrir einstaka hjálpsemi og vinsemd. Án þeirra hefði starfið alls ekki gengið eins vel.

Kærar þakkir fyrir fyrir veturinn og starfstímabilið allt.

Gerður Pétursdóttir

Formaður Þetadeildar 2016–2018.

 


Síðast uppfært 18. apr 2018