Brúum bilið á Þorra

Tveir leikskólar og einn grunnskóli í Innri-Njarðvík vinna árlega þemaverkefni um Þorrann. Börn á aldrinum fimm til sjö ára taka þátt í verkefninu um hundrað nemendur ár hvert. Nemendum er skipt í sex hópa sem fara á milli skóla og vinna saman ólík verkefni, en öll tengjast verkefnin annað hvort Þorranum eða gamla tímanum á einhvern hátt. Dæmi um verkefni sem nemendur hafa unnið eru: •        þæfing utan um steina,  •        dansað og sungið um Ólaf Liljurós,  •        þjóðsögur lesnar og sett upp leikrit,  •        gömlu mánaðarheitin eru kynnt,  •        Þorramatsbingó er spilað,  •        rúgbrauðs-, sviðasultu og smjörgerð,  •        unnið er í listasmiðju með kol og þjóðsögur,  •        leikið með gömul gull, (bein, horn),  •        Stekkjarkot er heimsótt (gamall endurbyggður burstabær í Reykjanesbæ), •        farið í leiki í Narfakotsseylu sem er útikennslusvæði skólanna þriggja.  Í lok vikunnar á föstudegi hittast svo allir í leikskólanum Akri til að dansa, syngja og gæða sér á þeim mat sem nemendur hafa búið til, sviðasultu og rúgbrauð með smjöri.  Þessi þemavika er afar skemmtileg og góður undirbúningur og aðlögun fyrir leikskólabörnin að hinu nýja umhverfi sem grunnskólinn er.  Börnin fara á milli skóla og kynnast því að vinna á mismunandi stöðum með mismunandi fólki, ekki endilega kennurum síns skóla.  Ávinningur barnanna er mikill og einnig kennaranna sem kynnast vel vinnu á þessum tveimur skólastigum.  Kristín Helgadóttir leikskólastjóri og ritari í Þetadeild