Skýrsla stjórnar, flutt á aðalfundi 2009

Kappadeildin okkar er 10. deildin sem stofnuð var innan samtakanna, en við erum við 27 konur í þessari deild. Við höfum haldið sex fundi á árinu og einn þeirra var með Alfadeildinni. Fyrsti fundurinn okkar var í Árbæjarsafni og tók Guðný Gerður Gunnarsdóttir forstöðukona safnsins og Kappasystir okkar á móti okkur. Það var afar ánægjulegt að heimsækja safnið, skoða leikfangasýningu og teiga ilminn frá liðnum tímum, því við þurfum svo sannarlega á minningunum að halda til þess að þekkja uppruna okkar sem vegvísi inn í framtíðina. Þema okkar þennan veturinn er: ,,Hið gullna jafnvægi”. Spurningin er hvernig við náum jafnvægi milli allra hlutverka okkar. Við erum mæður, dætur, eiginkonur, fagmenn og fleira. Hugsum um hvað það er sem gleður okkur mest, í hvernig hlutverki erum við að blómstra og hvað það er sem nærir okkur. Það eru auknar kröfur um innihaldsríkt líf í einkalífi og vinnu. Verum hugrakkar og tökum okkur þann sveigjanleika sem við viljum og setjum mörk, því þannig breytum við samfélaginu.Við fengum mörg góð innlegg frá félagskonum okkar um þetta efni þennan veturinn.
Annar fundur okkar var haldinn í Flataskóla í Garðabæ, en þar tók Elín Guðmundsdóttir, deildarstjóri og Kappasystir á móti okkur og sagði okkur frá sögu skólans. Ásgerður Ólafsdóttir, sérkennari kynnti okkur fyrir CAT-kassanum, sem kom út árið 2005 í íslenskri þýðingu. Markmiðið með notkun CAT- kassans er að styðja samræður við börn og ungmenni frá 6 ára aldri sem eiga í erfiðleikum með að tjá sig beint um tilfinningar, hugsanir og upplifanir.
Á jólafundinn okkar sem haldinn var á glæsilegu heimili Sigríðar Johnsen félagskonu okkar í Mosfellsbænum fengum við leynigest. Hún birtist í górillubúningi og upphófust getgátur og spurningar, en að lokum komumst við að því að það var engin önnur en hún Diddú sem leyndist inni í górillunni. Diddú sagði okkur frá ævintýri sínu með rússnesku hljómsveitinni Tarem. Hún hafði ætlað sér að hætta að syngja þegar hún yrði fimmtug, en með kynnum sínum af „drengjunum“ í Tarem hófst nýr kafli í hennar lífi og hún syngur með þeim út um allan heim. Að lokum tókum við lagið saman og seldi hún okkur ógrynni af geisladiskum.
Fjórði fundur okkar var haldinn í Kennaraháskólanum, en eins og Anna Kristín Sigurðardóttir félagskona okkar kynnti fyrir okkur þá heitir hann Menntavísindasvið HÍ. eftir að hann sameinaðist Háskóla Íslands. Anna sem er deildarforseti kennaradeildar HÍ. kynnti kennaranámið sem fram fer við Menntavísindasviðið. Það eru 2600 nemendur við skólann flestir í grunnskólafræðum. Allt kennaranám hefur farið í gegnum endurskoðun og stendur núna á tímamótum. Hún sagði okkur frá helstu breytingum sem eru í farvatninu. Námið lengist í 5 ár og aukin áhersla verður á sérhæfingu kennslugreina og skipulagi vettvangsnáms er breytt svo eitthvað sé nefnt.
Fimmti fundur okkar þetta starfsárið var haldinn í Hvaleyrarskóla með Alfadeildinni. Það var ánægjulegt að hitta þær og hlýða á fyrirlestur Eyþórs Eðvarðssonar er hann nefndi: Hamingja, lífsmark, endorfín og kortisón. Hann hræði upp í okkur og kom okkur til að sjá hlutina í nýju ljósi.
Á síðasta fundi vetrarins var farin menningarferð í miðbæ Reykjavíkur, sýning Hörpu Árnadóttur skoðuð í Hallgrímskirkju, rölt um Skólavörðustíginn og borðað saman á veitingastaðnum Kryddlegin hjörtu.
Tillögur komu að þema næsta vetrar og má þar nefna: Vináttu, lífsgildi t.d. endurskoðun lífsgilda á krepputímum, nægjusemi, þakklæti, búhyggindi / slátur og skyr!
Þrátt fyrir brunakulda var okkur öllum hlýtt um hjartarætur þegar við kvöddumst og hlökkum við allar til að hittast aftur í haust.

Fyrir hönd stjórnar.
Marsibil Ólafsdóttir, formaður.