18. febrúar 2009
Haldinn í boði Önnu Kristínar Sigurðardóttur í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð
Fundarstjóri: Marsíbil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur og nafnakall viðhaft.
18 félagar mættir
2. Fundagerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn.
Sólborg las upp fundargerð síðasta fundar og lagði hana fyrir fundinn. Fundargerðin var samþykkt með einni athugasemd.
3. Orð til umhugsunar. Minnie Eggertsdóttir, sérkennari.
Minnie rifjaði upp tíma sinn í Kennaraháskólanum og það sem hún lærði í skólanum. Eitt af því var að kenna börnum að lesa. Hún ræddi síðan um að texti í lestrarbókum fyrir börn hafi verið gagnrýndur fyrir að vera leiðinlegur og innihaldslaus. Hún er ekki sammála því. Hún tók síðan nokkur dæmi úr lestrarbókunum og lagði út af textanum. Setningin „Ása sá sól“ er dæmigerð fyrir bjartsýni og lífsgleði kvenna. Þessi setning hefur oft bjargað erfiðum degi í vinnunni. „Óli á ól“. Þessi setning hefur fyllt marga skelfingu. Hvað er Óli að gera með ól? Óli er í rauninni tákn fyrir hinn ofbeldissinnaða karlmann sem stöðugt er að lumbra á öðrum. Setningarnar um hann Ara eins og „Ari á rós“ og fleiri setningar sem segja hvað Ari á, segja til um að hann Ari sé hinn dæmigerði útrásarvíkingur. Líklega hefur Ari komið öllu sem hann á í öruggt skjól. „ Jói er að masa tóma frasa“. Þessi setning segir allt um stjórnmálamennina okkar. „Dóri er að róa“ Nú má enginn róa, það ætti að fella þessa setningu út úr bókunum. Og Minnie tók dæmi um fleiri setningar. „Óli sá Sísi, þessi setning táknar fyrstu ástina. Meira að segja hægt að snúa henni við, Sísí sá Óla, gagnkvæm ást. „Lóa át ís, ís, ís“,. Þarna er ýjað að offituvandamáli. „Sæli vælir og er ær, ég vil læra vælir Sælir“. Þetta er merkileg setning því Minnie vill meina að hún hafi aldrei heyrt um nemanda sem hefur vælt yfir því að fá ekki að læra. Með setningunni „Öl, öl, öl, Óli á öl“ er verið að halda öli að börnum og hvetja til drykkju. Trúleysingjar vilja setninguna „Jól, jól, Jesú á jólin“ burt því þeir segja þetta trúarlegan áróður. Að lokum sagði Minnie að setningin „ Mummi sá mö, mö á möl“ væri líklega tákn um gróðureyðinguna í landinu.
4. Húsnæðið skoðað og smá sprell.
Anna Kristín kynnti fyrir okkur Menntavísindasvið HÍ eins og Kennaraháskólinn heitir eftir að hann sameinaðist Háskóla Íslands. Á 100 ára afmæli skólans var búið til hefti sem nefnist „Aldarspegill“ ritsýrt af Svanhildi Kaaber og gaf Anna Kristín hverri og einni okkar eintak. Hún fór yfir sögu Kennaraskólans sem síðar varð Kennaraháskóli Íslands og nú Menntasvið Háskóla Íslands eins og fyrr segir. Þessi bygging sem við vorum í var byggð 1962. Nánast allt í húsinu er upprunalegt. Það er búið að byggja þrisvar sinnum við upprunalegt húsnæði. Hún sagði okkur frá nöfnum húsa og sala. Skáli heitir sá salur þar sem við vorum staddar í. Hún sagði okkur nánar frá hönnunar- og byggingarsögu hússins. Hún las fyrir okkur kafla úr skólaslitaræðu Brodda rektors frá árinu 1963. Eftir það gengum við inn í Hamar, nýjustu viðbygginguna og skoðuðum hana.
Áður en við fengum okkur kaffi komum við saman í sal mötuneytisins og sungum og lékum okkur aðeins.
5. Kaffi og léttar veitingar
Framreiddar voru stórglæsilegar veitingar að hætti félagskvenna.
6. Anna Kristín Sigurðardóttir deildarforseti kennaradeildar HÍ fjallaði um kennaramenntunina – framtíðarsýn og álitamál.
Áður en Anna Kristín hóf mál sitt sagði Marsíbil okkur frá næstu fundum deildarinnar í mars og apríl. Einnig minnti hún á landsþingið á Hallormsstað 16. og 17. maí. Þá minnti hún á heimasíðuna okkar sem er nýbúið að opna..
Anna Kristín tók við og kynnti kennaranámið sem fram fer við Menntavísindasviðið. Það eru 2600 nemendur við skólann flestir í grunnskólafræðum. Allt kennaranám hefur farið í gegnum endurskoðun og stendur núna á tímamótum. Hún sagði okkur frá helstu breytingum sem eru í farvatninu. Námið lengist í 5 ár. Aukin áhersla verður á sérhæfingu kennslugreina og skipulagi vettvangsnáms er breytt svo eitthvað sé nefnt. Í því sambandi sagði hún frá samstarfi við þann heimaskóla/samstarfsskóla sem taka á móti nemendum í starfsnám.
Leyfisbréf kennara mun skarast á milli skólastiga.
Í máli Önnu kom meðal annars fram að iðnaðarmenn með meistararéttindi geta numið í eitt ár við skólann og náð sér í kennsluréttindi í iðngreininni.
Hún sagði okkur frá nokkrum lykilhugtökum sem eru áberandi í umræðunni s. s. skóli án aðgreiningar, sveigjanleg skil milli skólastiga og svo framvegis. Hún sagði frá áfangaskýrslu sem hópur hagsmunaaðila vann um kennaramenntun. og var að skila af sér. Skýrslan inniheldur tillögur hópsins um innihald kennaramenntunar. Forsendur þessarar skýrslu voru niðurstöður málþings hagsmunaaðila um kennaramenntun sem haldið var í maí 2008. Hún sagði okkur að í skýrslunni settu allir á oddinn að kennarar hefðu hæfileika til samvinnu og hefðu góða samskiptahæfni. Einnig var lögð áhersla á að í náminu væru góð tengsl við starfsvettvang. Hópurinn setti saman fimm hæfniviðmið varðandi hvað kennarinn á að geta tekist við í starfi og hvað kennaranámið á að innihalda til þess að undirbúa kennara til þess að geta tekist á við það sem bíður þeirra. Vinnan heldur áfram við að útfæra þessar tillögur og tillögur að nýju og breyttu námi þurfa að vera tilbúnar í lok þessa árs. Skýrslan er á vef Menntavísindasviðs þar sem allir geta nálgast hana sem vilja.
Fundi var slitið kl. 22.00.
Síðast uppfært 14. maí 2017