14. febrúar 2017
Fundargerð Kappadeildar 14. febrúar 2017.
Fundurinn var haldinn í húsnæði Starfsmenntar að Skipholti 50 en Sólborg Alda starfar þar og fékk vinnustaðinn til afnota fyrir fundinn, hlýlegur og aðlaðandi vinnustaður.
Guðrún Edda formaður setti fundinn, bauð fundarkonur velkomnar og kveikti á kertum trúmennsku – hjálpsemi og vináttu.
Hefðbundin fundarefni: Nafnakall, Ingibjörg Guðmundsdóttir – 16 konur mættar.
Fundargerðir tveggja síðustu funda bornar upp. Júlíana las upp fundargerðina frá jólafundi í lok nóvember 2016 og Sólborg Alda las fundargerðina frá bókafund í janúar 2017. Báðar fundargerðir samþykktar.
Anna Sigríður flutti orð til umhugsunar sem hún kallaði „Hagsmunaárekstra og hugboð“. Það reyndist henni vel að treysta hugboðum en ekki hundsa þau þegar hún lenti í hagsmunaárekstrum vegna flokkunar rusls og baráttu við mús /mýs. Hún sagði frá baráttu við að ná músum og hvernig hugboð hennar um að mýs kynnu að leynast á háaloftinu í sumarbústaðnum hennar reyndist rétt þó aðrir segðu að það gæti varla verið. Hún gaf músum gjarnan matarafganga og hafði gaman af að fylgjast með þeim en nú heyrir sá leikur fortíðinni til því þær, eins og kálfurinn launuðu ekki ofeldið. Þær bara vildu meira og komu sér inn í hlýjuna. Lokaorð Önnu Sigríðar voru svo „Fylgjum hugboðum“. Formaðurinn þakkaði henni fyrir skemmtileg orð til umhugsunar með rós og fundarmenn þökkuðu fyrir með lófaklappi.
Þá var komið að innleggi kvöldsins sem að þessu sinni kom úr okkar hópi en Herdís Anna leiddi okkur í allan sannleikan um gæði og mikilvægi markþjálfunar. Hún sagði okkur aðdraganda þess að hún fór lærði markþjálfun en það var vegna sonar hennar sem greindur er með ADHD. Eftir mikinn lestur og fræðslu um ADHD fann hún ADHD markþjálfa sem varð til þess að þau fengu nýja sýn á drenginn sem fólst í því að horfa á hann eins og hann er, ekki eins og hann ætti að vera. Nú lætur hann ljós sitt skína.
Hjördís Anna lærði markþjálfun í Bandaríkjunum og tók framhaldsnám á Íslandi. Markþjálfun hefur gefið henni mikið og taldi hún upp meðal annars að tileinka sér það að hlusta og setja sig í spor annarra.
Hvað er markþjálfun? Hún útskýrði orðið sem segir sig nokkuð vel sjálft en þýðir þó ekki að þjálfa markverði J. Innihaldið er aðallega það að fylgja hjartanu, nálgast drauma sína og láta þá rætast og verða betri útgáfan af sjálfum sér. Markþjálfun er verkfærið. Lét okkur æfa okkur, að loka augunum og hugleiða „Hver er ég“.
Orðið marksækjandi merkir þann sem sækir sér markþjálfun – marksækjandi finnur leiðina. Trúnaður – siðarreglur – tímafjöldi og verð. Fólk kemur gjarnan vegna þess að einhver vill að það fari í markþjálfun en það virkar ekki. Í markþjálfun er athyglinni beint að jákvæðu hliðinni og hún látin vaxa því eins og vitað er þá vex það sem fær athygli. Sá sem kemur í markþjálfun þarf að vilja breytingar – að breyta, bæta og finna kosti og nýta þá – vilji von og möguleiki vinna saman Herdís hefur ástríðu fyrir því að aðstoða fólk, hjálpa því að finna drauma sína. Að fólk læri að horfa á það jákvæða.
Næst lét hún okkur fá blöð, skæri og lím og með þessu áttum við að búa til okkar draumakort.
Þá var gert matarhlé þar sem boðið var upp á mat frá Eþíópíska staðnum Tení. Systkini frá Eþíópíu komu með matinn frá staðnum, konan sagði okkur frá matargerðinni og innihaldi réttanna. Almenn ánægja var með matinn þó sumum hafi fundist sumt skrítið eða bara lítið gott. ( þetta er haft eftir undirritaðri, ritara sem reyndi að hlusta á raddir nokkurra í kringum sig).
Eftir kvöldmatinn sögðu þrír sjálfboðaliðar frá sínum draumakortum, Áslaug, Marsibil og Júlíana.
Nú var komið að liðnum „Fréttir frá stjórninni“.
Guðrún Edda minnti á að megin markmið Delta Kappa Gamma væri að styrkja konur í fræðslustörfum, það eru til dæmis styrkir fyrir konur sem eru að ljúka lokaverkefnum. Minnt á Landssambandsþingið á Akureyri 6. maí.
Evrópuþingið í Tallin í Eistlandi í júlí. Hægt er að nota styrktar sjóði stéttarfélaganna til að sækja ráðstefnur.
Landsþing verður 22. og 23 apríl í Gran í Noregi og fleiri spennandi ráðstefnur meðal annars í Finnlandi og í London. Loks hvatti hún fundarkonur til að fylgjast með á heimasíðunni.
Umræður sköpuðust um ferðir og fjölda okkar á þingum og hvað það gerði mikið fyrir hópinn að fara saman á þing með öðrum og eiga líka okkar stundir saman í nokkurskonar fríi.
Þeirri tillögu beint til stjórnar að hún sendi út til okkar kostnaðaráætlun vegna Akureyrarþingsins og dagskrá þegar hún verður endanleg. Mikið hlegið og mikið gaman að vanda.
Guðrún Edda minnti á að næsti fundur verður föstudaginn 10. mars þá verður haldið upp á tíu ára afmæli Kappa deildar – já tíminn flýgur.. Þá afhenti hún Herdísi Önnu og Sólborgu Öldu rósir og þakkaði þeim fyrir þeirra þátt í að gera þessa stund mögulega og fróðlega. Klukkan 20:50 slökkti hún á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Fundarritari Júlíana Hilmisdóttir
Síðast uppfært 24. okt 2017