6. nóvember 2014

Annar fundur Kappadeildar starfsárið 2014 – 2015 haldinn  6. nóvember  2014, kl. 18.00 - 20.00. Fundurinn var haldinn í Víðisstaðaskóla í Hafnarfirði þar sem Kappakonan Hrönn Bergþórsdóttir ræður ríkjum. 

Formaður bauð konur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.  

Guðrún Edda hafði nafnakall – samtals voru mættar 15 konur. 

Formaður þakkaði fyrir og kallaði eftir óskum um heppilegar tímasetningar fyrir fundi og komu fram skýrar óskir um að hafa þá sitt á hvað.  

Ritari las þá upp fundargerð síðasta fundar sem hefur verið birt á heimasíðu deildarinnar.

Formaður sagði frá boði Alfa deildar sem bauð öðrum deildum að koma á fund með menntamálaráðherra.

Valgerður sagði frá vefsíðu, finnst verkefnið fremur erfitt en er að læra á að setja efni inn á síðuna. Benti hún á ýmsar fréttir sem þegar eru komnar eru inn. Hvatti hún þá konur til að skrá sig á póslista til að fá fréttir jafnóðum. Minnti líka á síðu á andlistsbókinni.

Formaður minnti á félagsgjöldin, hún hafði líka sent bréf um inntöku nýrra félaga, konur voru hvattar til að koma með tilnefningar fyrir 15. nóvember. Hugsanlega mætti taka inn í janúar eða febrúar.

Orð til umhugsunar:  Anna Guðrún Hugadóttir flutti orð til umhugsunar. Hún hóf mál sitt á því að fara yfir öll þau hugarðefni sem hún hefði getað hugsað sér að fjalla um s.s. tillögur um að leyfa ekki fólki eldra en 25 ára að stunda nám í  framhaldsskóla . Hún var sjálf brottfallsnemandi á sínum tíma og hóf nám aftur 34 ára gömul.  Þess í stað sneri  hún sér að persónulegri málum og sagði frá reynslu sinni þegar maður hennar greindist með krabbamein og lést árið 2013. Hún lýsti ferlinu frá greiningu og þeim góða stuðningi sem þau bæði fengu. Vegna neikvæðrar umræðu um heilbrigiskerfið hafði hún óttast að maðurinn hennar fengi ekki góða læknishjálp en sá ótti reyndist með öllu ástæðulaus og þjónustan var framúrskarandi góð og mörg úrræði í boði, bæði fyrir hann og hana sjálfa sem aðstandanda.  Hún minnti á hve brýnt sé að huga að sjálfum sér og heilsu sinni í þessum sporum eigi maður að geta verið ástvini sínum nauðsynlegur stuðningur. Hún hrósaði sérstaklega hjúkrunarþjónustunni Karítas sem og því starfi sem unnið er á líknardeildinni.  Tíminn eftir útförina var erfiður en þá dró úr gestakomum og símhringingum einmitt þegar hún var tilbúin til að hitta annað fólk.  Anna Guðrún velti upp ýmsum spurningum sem voru áríðandi í þessum aðstæðum t.d. um hvenær ætti að fara að vinna og að takast á við  nýtt líf. Hún lagði áherslu á að skipuleggja lífið þannig að alltaf sé eitthvað að hlakka til, það var oftast eitthvað sem tengdist samveru með fjölskyldunni.  Það sé  undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst mikilvægt að festast ekki í að hugsa um það sem er manni mótdrægt, reyna að dvelja í núinu án þess að grufla of mikið í fortíð eða framtíð. Hún vísaði í orð Júlíönnu sem hafði rætt um þakklætið og hrósið þegar hún flutti orð til umhugsunar á næsta fundi á undan og þakkaði Valgerði Magnúsdóttur Kappakonu  áhugavert og uppbyggjndi erindi á fundi Dögunar þar sem hún hefur fundið sér styrk í góðum félagsskap Ekkjublómanna.  Hún endaði á tilvitnun í Dalai Lama: hamingjan er ekki eitththvað sem er tilbúin hún myndas út frá þínum eigin aðgerðum.

Formaður þakkaði Önnu Guðrúnu fyrir áhrifamikla og lædómsríka frásögn af því hvernig hún hafði tekist á við nýtt líf. Fundarkonur tóku undið það og  tjáðu Önnu Guðrúnu þakklæti sitt og samhug með lófaklappi. 
Þá voru bornar fram  glæsilegar veitingar í boði Guðrúnar Eddu, Sígríðar Huldu og  Guðný Gerðar sem Kappakonur gerðu góð skil. 

Þegar hér var komið sögu vék ritari af fundi til að sinna öðrum skyldum og Guðrún Edda tók við keflinu. 

Þá var komið að erindi fundarins en Hrönn Berþórsdóttir sagði frá rannsókn sinni á upplifun skólaliða á starfsumhverfi þeirra innan grunnskólans. Skólaliðar eru starfsmenn grunnskóla sem sinna öðrum störfum en kennslu eins og ganga- og frímínútnavörslu og lagði Hrönn áherslu á að koma sjónarmiðum skólaliðanna sem best á framfæri. Hrönn tók rýnihópaviðtöl við fimmtán skólaliða frá ólíkum skólum af höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður hennar bentu til að störf skólaliða séu ekki metin að verðleikum. Þeir upplifðu sig á margan hátt sem annars flokks starfsmenn sem skiptu ekki eins miklu máli fyrir skólastarfið og aðrir. Þetta fannst þeim m.a. endurspeglast í stjórnunarháttum skólanna það sem að þeirra starf hafi litla athygli stjórnenda t.d hvað varðar reglulega fundi, upplýsingamiðlun eða ákvarðanatöku auk þess sem lítill áhugi var á starfsþróun þeirra og takmörkuð hlutdeild í starfsmannahópnum. Engu að síður fengu þeir hrós frá yfirmönnum og virtust flestir nokkuð ánægðir í starfi sem tengdist helst samskiptunum við börnin sem var eitt að aðalverkefnum þeirra. Í því sambandi töluðu skólaliðarnir um þörfina fyrir fræðslu t.d.  um viðbrögð við hegðunarfrávikum og leiðir til úrbóta. Nokkrir höfðu stundað nám, ætlað þeim,  í Borgarholtsskóla og höfðu haft bæði gagn og gaman af. 
Gerður var góður rómur að erindi Hrannar og spurðu konur margs, enda um einstakt verk að ræða því þessi starfsstétt hefur fengið litla athygli annsakenda.  Henni var þakkað með áköfu lófaklappi. 

Fundi var formlega slitið um kl. 10 með því að Gunnlaug formaður slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Í lokin gekk hópurinn um húsakynni Víðistaðaskóla, starfsstöðina við Víðistaðatún, í fylgd Hrannar skólastjóra. Skólinn er með tæplega 700 nemendur og eins og búast má við í svo stórum skóla eru vistarverur margar og margvíslegar. Stoltust var skólastjórinn greinilega af nýrri aðstöðu fyrir félagsstarf nemenda á unglingastigi sem nefnist Bólið. Um er að ræða húsnæði á 1. hæð skólans sem áður var nýtt sem geymsla. Húsnæðið var nýlega gert upp í fullu samráði við nemendur sem t.d. völdu sjálfir innréttingar og húsbúnað og sáu að miklu leyti um framkvæmdirnar. Nafnið hefur einnig gefið fjölmörg tækifæri til skemmtilegra orðaleikja sem jafnvel geta leitt til vandræðalegra aðstæðna sem skólastjórinn hafði greinilega gaman af að rifja upp. 

Fundaritarar Anna Kristín Sigurðardóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir


Síðast uppfært 03. nóv 2015