Fundargerð 25. mars 2021

Boðað var til sjötta fundar vetrarins. Umsjón með fundinum höfðu: Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir og Sigríður Hulda Jónsdóttir.


Vegna hertra sóttvarnaaðgerða sem miða við 10 manns var ákveðið að hafa fundinn á Teams en ekki í Listasafni Íslands, þar sem Ragnheiður Vignisdóttir verkefnisstjóri viðburða og fræðslu ætlaði að kynna menntunarhlutverk og fræðslustarf Listasafnsins og leiðsegja um sýninguna HALLÓ GEIMUR.


Boðað var til fundarins með eftirfarandi dagskrá:

1. Fundur settur, nafnakall, fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar
2. Orð til umhugsunar: Erla Gunnarsdóttir.
3. Önnur mál.

Hulda Anna bauð fundarkonur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og setti fund.
Fram fór nafnakall og voru 11 konur mættar. Síðan var lesin fundargerð frá síðasta fundi og hún samþykkt án athugasemda.


Erla Gunnarsdóttir flutti orð til umhugsunar. Hún nefndi það montreynslusögur. Í upphafi ætlaði hún að fjalla um starfið sitt sem íþróttakennari en svo breyttist það og hún tók ubeygju, ákvað að segja frá því hvernig það er að fylgja draumum sínum.
Erla fékk bréf í pósti og efnið var 95 ára reglan, hún hafði jú kennt í 37 ár. Þarna varð hún mjög hugsi, hún hafði áorkað miklu, var glöð og áhugasöm í starfinu. Hún var þakklát fyrir margt og að hafa staðið með draumum sínum, stofnað íþróttaskóla fyrir börn 3-5 ára og kennt þar í 25 ár, komið á fót hlaupahóp og unnið að öflugum forvörnum í heilsueflingu. Öll ævintýrin og sigrarnir sem tengjast þessu spruttu upp í huganum. Í framhaldinu velti Erla fyrir sér hamingjunni, hvað hún gefur okkur og að hennar mati er hamingjan það sem maður uppsker og að vera sáttur við sjálfa sig. Síðan sagði hún frá fimm leiðum til vellíðunar.
Þá var komið að sögum úr starfi íþróttakennara sem hlustaði á áhyggjur foreldra barna. Í fyrri sögunni aðstoðaði Erla ungan dreng sem týndi hlutunum sínum mjög oft. Hann hefði geta leitað sjálfur en hún ákvað að aðstoða og svara kalli foreldranna. Í seinni sögunni útbjó Erla æfingaáætlun fyrir ungri stúlku sem treysti sér ekki í sund, fjölskyldan hennar varð þátttakandi með henni og stúlkan vann persónulegan sigur. Hún ákvað að segja þessar sögur vegna þess að henni þótti þær ekkert merkilegar á meðan atburðirnir gerðust heldur eftirá að geta komið til móts við nemendur á þann hátt sem hentaði þeim, það er það sem gefur starfinu gildi, það eru allir þessir litlu hlutir.

Kappakonur gerðu góðan róm að erindi Erlu og hennar sýn á að fylgja draumum sínum, vera lausnarmiðuð og nota einstaklingsmiðað nám. 

Hulda Anna bauð konum að rifja upp, hvað þær ætluðu að verða þegar þær yrðu stórar og á hvaða aldri þær voru þegar það var ákveðið? 6 ára ætlaði að verða læknir, 5 ára búðarkona, bóndi svo raungreinakennari, 6-7 ára fornleifafræðingur, 5 ára að verða flugfreyja, skrifstofudama, kennari, bókasafnsfræðingur, húsmóðir og ein 7 ára ætlaði að verða leikkona eftir margar ferðir í leikhúsið sem frænku sinni, saumakonunni.

Undir liðnum önnur mál sagði Guðný Gerður að Ragnheiður Vignisdóttir hjá Listasafni Íslands hefði boðið okkur að koma í haust.
Næsti fundur er 20. apríl í umsjón: Erlu Gunnarsdóttur, Gunnlaugar Hartmannsdóttur og Soffíu Vagnsdóttur.

Hulda Anna velti því upp, hvort fjölga ætti í Kappadeild? Nú eru 25 konur í deildinni. Málið verður til umræðu á næsta fundi.

Sólborg Alda vefstjóri Kappadeildar minnir á að ef einhverjar breytingar þarf að gera í félagatali þá biður hún konur um að senda póst og hún sér um að breyta.

Í lok fundar færði Hulda Anna konum rafrænar rósir, Erlu fyrir orð til umhugsunar og skipuleggjendum fundarins, slekkur á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og slítur fundi kl. 19:05.

 


Síðast uppfært 23. apr 2021