17. maí 2018
Sjöundi og síðasti fundur Kappa-deildar starfsárið 2017 – 2018 sem einnig var aðalfundur var haldinn fyrir austan fjall fimmtudaginn 17. maí 2018 þrátt fyrir afar óhagstæða veðurspá. 13 Kappa-systur söfnuðust saman í rútu frá höfuðborgarsvæðinu eins og árið áður og lá leið frá Hafnarfirði, í gegnum Reykjavík og yfir Þrengslin þar sem til stóð að skoða menningarbæinn Þorlákshöfn. Náttúruöflin létu alveg vita af sér á leiðinni en allir komust þó heilu og höldnu á áfangastað.
Í Þorlákshöfn tóku á móti okkur Ásgerður Eiríksdóttir, félagi í Epsilon-deild DKG og Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir, formaður deildarinnar. Vegna veðurs óku þær með okkur um bæinn og sögðu frá því helsta sem fyrir augu bar. Fyrst var ekið niður að höfn og skoðaðir s.k. dolásar sem eru e.k. einkennismerki Þorlákshafnar og listaverkið við höfnina sem er knörr eftir Erling Ævarr Jónsson sem einnig hefur gert listaverk um Auði djúpúðgu sem prýðir annan stað í bænum. Síðan var ekið að Þorlákskirkju þar sem Rán Gísladóttir, kirkjuvörður, tók á móti hópnum, sýndi honum kirkjuna og sagði frá sögu hennar og helstu munum. Kirkjan var upphaflega byggð að frumkvæði foreldra 8 ára gamals drengs sem lést af ólæknandi sjúkdómi en foreldrunum fannst langt að fara með lík sonar síns í Strandakirkju til greftrunar. Kirkjan var hönnuð af Jörundi Pálssyni í anda fornra verbúða. Arkitektinn hannaði einnig altari og prédikunarstól, skírnarfont o.fl. Áhersla var á að nota íslenskt byggingarefni, s.s. grágrýti og gabbró. Íbúar Þorlákshafnar tóku virkan þátt í byggingu kirkjunnar í sjálfboðavinnu og margir munir í eigu hennar voru gefnir af félögum og fyrirtækjum á staðnum. Rán sagði frá því að Ingimundur, faðir Jónasar píanóleikara, hefði verið organisti á staðnum þegar kirkjan var í smíðum og hafi andast að lokinni vígsluathöfn kirkjunnar.
Síðan var ekið að Egilsbraut þar sem þjónustuíbúðir fyrir aldraða, dagdvöl og tómstundastarf er til húsa. Sigrún Theódórsdóttir sem er forstöðumaður þjónustunnar tók á móti hópnum og sýndi okkur aðstöðuna. Varð einhverjum á orði að best væri að flytja til Þorlákshafnar sem fyrst til að fá þarna inni þegar þar að kæmi. Svo vel leist Kappa-systum á aðstöðuna og þá þjónustu sem þar var í boði fyrir eldri borgara Þorlákshafnar.
Ásgerður bauðst til að hýsa vorfund/aðalfund deildarinnar á heimili sínu, Oddabraut 1 sem var vel þegið af Kappa-systrum. Guðrún Edda, fráfarandi formaður, setti fund og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Síðan var nafnakall sem Ingibjörg, varaformaður, sá um og voru 13 Kappa-systur mættar.
Þá var gengið til aðalfundarstarfa.
1. Kosning fundarstjóra og ritara – Guðrún Edda bauð sig fram sem fundarstjóra og stakk upp á Ingibjörgu sem ritara aðalfundar og var hvort tveggja samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár – Guðrún Edda reifaði það helsta sem hafði verið á döfinni starfsárið 2017 – 2018 og byggði á haustskýrslu 2017 og vorskýrslu 2018 sem eru aðgengilegar á vef DKG. Skýrsla stjórnar var borin upp samþykkt samhljóða.
3. Ársreikningur – Áslaug Ármannsdóttir, gjaldkeri fylgdi úr hlaði ársreikningum fyrir síðustu tvö starfsár. Tekjur starfsársins 2016 – 2017 voru kr. 532.768 og útgjöld kr. 531.679.- Rekstarafgangur var því kr. 1.089.- Tekin var upp sú nýbreytni haustið 2017 að innheimta árgjald í gegnum innheimtuþjónustu banka sem skilaði mjög góðum árangri og létti starf gjaldkera verulega. Tekjur ársins voru samtals kr. 365.736 og útgjöld kr. 287.026.- Þá var eftir að greiða kostnað vegna rútu fyrir vorfundinn svo að rekstur deildarinnar reyndist í góðu jafnvægi þetta árið.
4. Kosning formanns – Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, varaformaður sl. tveggja starfsára, gaf kost á sér og var kjörin formaður með dynjandi lófaklappi.
5. Kosning stjórnar – Ragnheiður Axelsdóttir var kosin ritari til næstu tveggja ára, Hildur Elín Vignir og Hulda Anna Arnljótsdóttir höfðu einnig gefið kost á sér í stjórnina sem mun síðar skipta með sér verkum.
6. Ákvörðun félagsgjalda fyrir næsta starfsár – Guðrún Edda rifjaði upp að félagsgjaldið hefði verið kr. 15.000.- undanfarin ár og þar af fara kr. 10.000.- til landssambandsins og kr. 5.000.- í sjóð deildarinnar. Var samþykkt einum rómi að hafa félagsgjöldin óbreytt og innheimta þá sérstaklega fyrir kostnaði þegar á þarf að halda.
Að loknum aðalfundi var klappað sérstaklega fyrir nýrri stjórn og þeim Ásgerði og Ingibjörgu voru færðar rósir með sérstöku þakklæti fyrir að taka svona vel á móti hópnum og Ásgerði sérstaklega fyrir að hýsa fundinn.
Þegar hér var komið voru Kappa-systur orðnar tilbúnar fyrir kvöldverðinn á veitingastaðnum/galleríinu Hendur í höfn þar sem boðið var upp á gómsætan mat sem er að mestu unninn úr hráefnum úr héraði. Boðið var upp á þrjá rétti; ferskasta fiskinn sem í boði var sem þennan daginn var ljúffengur lax, hamingjuborgara og vegan-hamingju (grænmetisborgara). Á eftir var svo boðið upp á kaffi og eftirrétt. Í lok máltíðarinnar sýndi Dagný Magnúsdóttir, listakona og matgæðingur, okkur inn í nýja eldhúsið sitt og sagði stuttlega frá sögu veitingastaðarins sem var nýfluttur í nýtt húsnæði.
Brottför var um kl. 22 og var þá farið að lægja verulega, Kappa-systrum til óblandins léttis. Að lokinni vel heppnaðri vorferð gengu Kappa-systur léttar í bragði út í sumarnóttina og þakklátar fyrir enn eina gefandi samverustundina.
Fundargerð ritaði Guðrún Edda Bentsdóttir
Síðast uppfært 29. okt 2018