26. september 2024

Fundargerð 1. fundar Kappadeildar
26. september 2024

Fundur var haldinn að Þrastarhöfða 24 í Mosfellsbæ, veitingar og skipulag fundar var í höndum stjórnar. Boðið var upp á dýrindis kjötsúpu og heimabakaðan marengs í eftirrétt.
Fundur hófst að venju með því að kveikt var á kertum vináttu, samvinnu og hjálpsemi. 15 konur voru mættar.
Fyrsta mál á dagskrá var starfsáætlun. Farið var yfir fundartíma og nefndir vetrarins.
Áherslur næstu tveggja starfsára eru;
Lyftum því sem vel er gert
beitum áhrifum okkar og aukum sýnileikann og þema þessa starfsfárs verður;

Lyftum því sem vel er gert, nærum það góða hjá okkur sjálfum og nærsamfélaginu.

Hvort tveggja var einróma samþykkt af fundarkonum. Ákveðið var að senda starfsáætlun út í tölvupósti til allra og gefa nokkra daga til að koma með ábendingar. Hafi engar athugasemdir borist föstudaginn 4. október telst starfsáætlun samþykkt. Rætt var um tímasetningu funda. Flestum finnst tímasetningin 18:00-20:00 hentug en það er eftir sem áður í höndum þeirra sem skipuleggja fund hverju sinni að ákveða tímasetningu. Mælt var með því að við skipulegðum fundi þannig að hægt væri að sitja u.þ.b. hálftíma lengur eftir að fundi væri slitið til að spjalla.
Annað mál á dagskrá; Upplýsingar frá fundi framkæmdaráðs. Linda fór yfir það helsta sem fram kom á fundinum.
Mikilvægt er að félagatalið okkar sé rétt inni á síðunni okkar – óskað er eftir því að við séum með skráð hvar við störfum, ekki bara starfsheiti. Þær sem eru hættar að vinna formlega á vinnustað – skrá síðustu starfsstöð sem unnið var á. Þetta gefur betri upplýsingar fyrir félagskonur þegar leitað er að fólki með fjölbreytta reynslu til að starfa t.d. í nefndum og ráðum. Við höfum skráð þetta svona hjá okkur og þurfum því litlu að breyta. Þær sem vilja breyta um mynd eða þurfa að uppfæra upplýsingar eru beðnar um að senda upplýsingar á Sólborgu.
Meiri sýnileiki í samfélaginu – aukin áhrif á skólamál - Samtökin láti sig menntamál enn meiru varða en hingað til – hvatt er til aukins samstarfs milli deilda.
Linda nefndi að Gammadeild hefur nú þegar boðið okkur á fund til sín nú í október (sjá starfsáætlun)
Einnig hefur Árný Elíasdóttir, landsambandsforseti lýst yfir áhuga á að fá að koma til okkar á fund í vetur. Linda mun senda henni starfsáætlunina okkar þegar hún hefur verið samþykkt.

Helstu ákvarðanir framkvæmdaráðsfundarins voru þessar:
50 ára afmæli samtakanna á Íslandi er árið 2025 – nefnd kynnti tillögur að því sem gert verður í tilefni afmælisins.
A. Veglegt Landssambandsþing verður haldið í Reykjavík, 10.-11. maí 2025. Umfjöllunarefni þingsins tengist markmiðum samtakanna og afmæli félagsins, m.a. að efla konur í fræðslustörfum. Rætt var um að þingið hefði tvíþætt inntak; mikilvægi kvenna í fræðslustörfum og leiðir til að efla konur til dáða á sviði fræðslumála.
Veisla að málþingi loknu. Fjör og fróðleikur. Mikið var lagt upp úr því að við reyndum að fjölmenna í öllum deildum.
B. Í tilefni afmælisins verði gefið út rit (rafrænt, e.t.v. einhver eintök prentuð) um sögu samtakanna á Íslandi. Þar kæmu fram helstu verkefni deilda og þátttaka í alþjóðlegu starfi.
C. Saminn verði afmælissöngur.
D. Deildir vinni að samfélagsverkefnum á sínu svæði sem nái út fyrir samtökin og séu með einhverjum hætti opin fyrir alla. Mikið var talað um að auka sýnileika samtakanna. T.d. með því að styrkja eitthvert gott málefni eða stofna til viðburðar í nærsamfélaginu.

Stjórn var falið að útfæra stuðning við Menntunarsjóð mæðrastyrksnefndar í tilefni afmælis. Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar styrkir efnalitlar konur til náms með því að greiða skólagjöld og námsbækur. Sjóðurinn hefur veitt yfir 500 styrki frá stofnun sjóðsins árið 2012. Frjáls framlög eru þegin með kærum þökkum: Á fundinum kynnti Guðríður Sigurðardóttir, formaður Menntunarsjóðs mæðrastyrksnefndar starfsemi nefndarinnar. Þær leita að styrktaraðilum, hægt er að styrkja samtökin með beinum framlögum frá einstaklingum.
Sjóðurinn selur Mæðrablómið í kring um mæðradaginn á ákveðnum sölustöðum.

Tillaga Mýdeildar um ályktun til aðalstöðva DKG vegna stríðsátaka víða um heim var dregin til baka þar sem fram kom að hún samræmdist ekki lögum og stefnu samtakanna. Samþykkt var að beina því til deildanna að þær geti lagt sitt af mörkum til að styðja við þá er þess þurfa sem gæti um leið tengst samfélagverkefnum vegna afmælis. Samtökin gætu haft meiri áhrif með því að styrkja uppbyggingu menntunar þegar stríðsátökum lýkur eða með því að styrkja kennslu í móðurmáli þeirra sem þurfa að búa fjarri heimalandinu en með pólitískum yfirlýsingum.
Vakin var athygli á vefum samtakanna og konur hvattar eindregið til að gefa sér tíma til að kynn sér það fjölbreytta efni sem þar er að finna.
https://www.dkg.is/
Linda vakti athygli Kappakvenna á þekkingarforðanum en þar gefa konur í hinum ýmsu deildum kost á sér til að flytja erindi. Hún benti á að innan okkar raða eru konur með mikla reynslu og þekkingu sem ættu fullt erindi til að bjóða fram krafta sína á þessum vettvangi.
www.dkgeurope.org
https://www.dkg.org/
Vakin var athygli á styrkjum samtakanna. íslensku samtökin eru stór á alþjóðavísu. Alls eru 347 félagskonur skráðar árið 2024. Í mörgum öðrum löndum eru deildir færri en hér og félagskonur ekki svona margar. Við greiðum talsverða fjármuni til samtakanna og ættum að vera duglegri að taka þá út aftur í formi styrkja.
Hægt er að sækja um styrk til landsamtakanna sem styrkja verðug verkefni t.d. góð samfélagsleg verkefni sem við viljum standa fyrir.
Íslenski námstyrkjasjóðurinn – þangað er hægt að sækja styrki til og með 1. mars ´25
Mikilvægt að skoða hvaða styrkmöguleikar eru til masters- eða doktorsnáms á alþjóðlegu síðunni og eins til útgáfu. Innan okkar raða eru konur sem hafa reynslu af því að sækja um þessa styrki og eru tilbúnar að hjálpa til.
Vakin var athygli á leiðtoganámskeiði í Texas 26. október
Síðasta mál á dagskrá voru ,,Orð til umhugsunar“ Á þessum fyrsta fundi var ákveðið að fá örstutt innlegg frá öllum fundarkonum. Óskað var eftir því í fundarboði að umræðuefnið yrði; ,,Fyrir hverju brenn ég í vetur? Hvað ætla ég að gera til að næra andann?"
Kappakonur sögðu frá því sem þær sjá fyrir sér að muni næra þær hvað mest á komandi vetri og því næst var slökkt á kertum vináttu, hjálpsemi og samvinnu og fundi slitið eftir mjög nærandi og góða samveru.

 


Síðast uppfært 05. nóv 2024