29. apríl 2014

Sjötti fundur starfsárs Kappadeildar DKG á Íslandi starfsárið 2013 til 2014 haldinn 31. mars klukkan 20:00 að Sviðholtsvör 3 Álftanesi

 

Einkunnarorð starfsársins er:  ,,Konan í brúnni“

Formaður Kappadeildar Sigríður Johnsen setur fundinn klukkan 20:00 og kveikir á kertum sem tákna vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Sigríður býður Kappasystur velkomnar þakkaði fyrir síðasta fund.

Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 16 félagskonur  á fundinum.

Ritari las fundargerð fimmta fundar starfsársins sem var 27. febrúar á Kaffi Reykjavík.

 

Júlíana Sigurbjörg Hilmisdóttir fór með orð til umhugsunar, en hún stendur í brúnni og stýrir leikskóla. Hennar áherslur erustyrkleiki, jákvæðni og bjartsýni sem hún segir  hjálpa til við að vinna sigra á því sem á móti blæs,Hún sagði okkur frá því hvaða leiðir hún fer til að rækta starfsfólkið sitt, skapa jákvæðan anda og sjá um öllum á vinnustaðnum líði vel.Hún kallar fram bros hjá fólki með því að taka eftir og hafa orð á  ágætum vinnubrögðum, fyrirmyndar hegðun og góðum samskiptum. Hún segir að starfsmönnum finnist það oft erfitt verkefni sem hún fer fram á, en það er að skrá styrkleika sína og koma síðan á hennar fund til að ræða um þá.  Í kjölfar samtalsins fær hún undantekningalaust faðmlag og sælubros og starfsmaður sýnir aukinn áhuga og styrkleikarnir blómstra -veikleikar víkja.

Kjarninn  í orðum Júliönu

·       Skrá í þakklætisdagbókina (allavega einu sinni í viku) hvað maður er þakklátur fyrir. Fólk sem heldur þakklætisdagbók upplifi jákvæðni og hjálpsemi fremur en aðrir. Það er ákveðnara, hefur meiri orku, sefur betur, tengist öðrum betur, fær hærri einkunnir, nær auknu jafnvægi í heilsufari, hugræn virkni eykst og betri frammistaða kemur í ljós á vinnustað.

·       Get ég gert góðverk í dag?  Hvað get ég gert til að létta öðrum sem eiga erfitt –góð spurning  í samtalinu við sjálfan sig daglega. Hún mælir með að við gerum góðverk skipulega þannig að það verði lífstíll.

·       Æfa sjálfsskoðun og skrifa hjá sér styrkleika og nota alltaf styrkleika til að snúa niður veikleikana.

·       Leitast við að hafa orkubolta og  jákvætt fólk í kringum sig sem smitar jákvæðri orku sem aftur laðar enn  meiri jákvæðni að sér.

Hún fór hún með ljóð eftir Einar Benediktssonsem móðir hennar hafði oft yfir þegar hún var að vinna með henni að náminu. Hún segir það til marks um  hversu metnaður væri mikils virði og það að ætla sér að ná því marki sem maður stefnir að -  hægt og hljótt.

Láttu smátt, en hyggðu hátt,
heilsa kátt ef áttu bágt,
leik ei grátt við minni mátt,
mæltu fátt, og hlæðu lágt.

Að síðustu sagði Júlíana: ,,Konan í brúnni þarf að skoða inn í sálartetrið sitt, byggja það upp til að geta gefið öðrum hrós og hvatningu, þarf að koma sér upp úr hjólfarinu.“

Að loknum þessum dýrmætu orðum Júlíönu okkur til umhugsunar voru bornar fram veitingar semHulda Elín, Sólveig og Valgerður sáu um.

Formaður kynnti gest kvöldsins Vilborgu Einarsdóttur stofnanda og framkvæmdastjóra Mentor. Vilborg byrjaði á því að segja okkur frá uppvexti sínum og heimkynnum sem er í Mýrdalnum og segir það hafa verið sér mikilvægt veganesti út í lífið að hafa alist upp í sveit. Hún fór Samvinnuskólann á Bifröst, síðan í Kennaraháskóla Íslands og svo í framhaldsnám við Háskóla Íslands í viðskiptafræðum og lauk meistaragráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og Verslunarháskólanum í Árósum.

Vilborg stofnaði skóla fyrir fólk í atvinnuleit á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu árið 1996 og stjórnaði honum til ársins 1999. Mentor stofnaði hún árið 2000 og nú starfa rúmlega þrjátíu manns hjá fyrirtækinu. Mentor er með útibú í Svíþjóð þar sem 15 manns starfa við markaðssetningu, sölu og þjónustu á Mentorkerfinu, sproti er í Bretlandi og fyrirtækið er að taka sín fyrstu skref í Sviss en þar er fyrirtækið í samstarfi við helstu sérfræðinga á sviði einstaklingsmiðaðs náms og nú eru að opnast tækifæri á Ítalíu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Íslandi. Vilborg hefur einnig kennt stjórnun, mannauðsstjórnun og stefnumótun í Háskóla Íslands. Vilborg hefur verið mjög virk hjá Samtökum sprotafyrirtækja þar sem hún situr í stjórn og einnig í stjórn Samtaka iðnaðarins, Tækniþróunarsjóðs, Íslandsstofu og Manna og músa ehf. Vilborg segir að persónuleg tengsl gefi mest í framþróun fyrirtækisins og það sé góður jarðvegur á Íslandi þar sem nóg er af hörkuduglegu og skapandi fólki.

Eftir að hafa farið yfir feril sinn og sagt frá uppbyggingu og markmiðum Mentors fór Vilborg yfir atriði sem einkenna góða leiðtoga. Í lokin kom hún inn á skemmtilega samlíkingu sem afi  hennar vakti athygli hennar á. Að lýsingar hennar á góðum leiðtoga og væri það sama og fjallkóngar í sveitinni þyrftu að hafa til að bera. Svo rakti hún nokkur atriði því til frekari skýringar.

·       Ákveða hvenær og hvort fara skuli í göngur með hliðsjón af veðurspá

·       Sipuleggja útbúnað gangnamanna

·       Þekkja gangnamenn og vita hverjir henta hverjum stað – ákvarða hlutverk þeirra

·       Gefa skýr skilaboð

·       Hafa ákveðinn tímaramma

·       Hafa nákvæma áætlun og handleiða

·       Hvað verður gert varðandi eftirlegukindur, hverjar þarf að ,,skjóta úr svelti“.

 

Áhrifarík samlíking!

 

Að lokinni þessari veislu fyrir anda og kropp þakkaði Sigríður formaður þeim Júliönu og Vilborgu hjartanlega fyrir innlegg þeirra, gestgjafa kvöldsins fyrir að hýsa fundinn og síðast en ekki síst Kappasystrum fyrir komuna og samveruna.

Fyrirlesarar og gestgjafi fengu fallegar rósir í þakklætisskyni fyrir þeirra framlag, slökkt var á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og fundi slitið klukkan 22:00

Erla Guðjónsdóttir, ritari.

 

 

 

 

 


Síðast uppfært 21. maí 2014