25. janúar 2022

Bókafundur Kappadeildar 25. janúar 2022
Boðað var til fjórða fundar vetrarins á vefnum með Teams. Umsjón með fundinum höfðu: Gunnlaug Hartmannsdóttir, Erla Guðjónsdóttir, Erla Gunnarsdóttir og Sigríður Hulda Jónsdóttir.

Hulda Anna formaður bauð fundarkonur velkomnar, hún kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og setti fund.
Nafnakall var tekið, 22 konur mættar.
Herdís Anna, bauð gleðilegt ár og las fundargerð frá síðasta fundi og hún samþykkt með leiðréttingu á föðurnafni og dagsetningu bókafundar.
Þá fór fram bókakynning:

Sigríður Johnsen hóf kynninguna. Hún fjallaði um ofbeldi sem konur mega þola af körlum. En á tímum #Metoo byltingarinnar hafa konur fengið rödd og geta skilað skömminn. Bókin heitir Blóðberg eftir Þóru Karitas Árnadóttur, söguleg skáldsaga sem gerðust á sautjándu öld. Fjallar um Þórdísi sem sagðist hafa eignast barn með mági sínum og það var dauðasynd á tímum Stóra dóms. Sagðist vera hrein mey en eignaðist barn fimm mánuðum síðar. Að loknum nýársfögnuði að Hólum gekk hún til kvennavistar - en þá var hún tekin til fanga, bundin og settur poki á höfuð hennar og henni nauðgað af mörgum mönnum. Árlega ríður hún suður heiðar til að mæta fyrir Alþingi á Þingvöllum en heill áratugur líður þar til dómur er kveðinn upp. En það gerðist þann 30. júní 1618 þá er hún dæmd fyrir blóðskömm og hórdóm. Sigríður las afar áhrifamikla lýsingu Þórunnar af aftökunni og upplifun hennar af dauðanum, myrkum göngum en framundan sér hún bjart ljós.
Anna Kristín Sigurðardóttir minnir konur á bókina Mörk eftir sama höfund, en hún fjallar um móður höfundar. Átakanleg saga sem konur ættu að lesa.

Dagný Broddadóttir kynnir næst, hún er mikill lestrarhestur en svo heyrði hún af bókinni Sjö systur eftir Lucindu Riley, reyndi að fá hana á bókasafni án árangurs, svo hún neyddist til þess að sækja hana sem hljóðbók og hlusta. Er nú búin með 13 af 15 klst hefur gengið, skokkað og eldað óvenjulega lengi til þess að hlusta. Hefur heillast af bókinni og lestri Margrétar Örnólfsdóttur leikkonu. Sagan hefst með því að aðalsögupersónan Maia fregnar að faðir hennar sé látin. Hún átti fimm systur sem faðirinn hafði ættleitt úr óíkum heimshornum. Hann skildi á æskuheimili þeirra bréf til hverrar með upplýsingum um uppruna þeirra. Maia var frá Brasilíu og þangað ferðast hún til þess að finna uppruna sinn. En um leið lýsir höfundur sögu Brasilíu, landi, þjóð og menningu. Smám saman raðast brotin saman um móður hennar, líf og ástir. Höfundurinn hefur skrifað í allt 20 bækur þar á meðal sögu systranna og föðursins áður en hún lést af völdum krabbameins sl. sumar.

Áslaug Ármannsdóttir rekur lestina með kynningu á þriðju bókinni, hún tók líka fyrir konu. Hún tengir bókina við aðrar bækur eins og t.d.: Parísarkonan eftir Paulu McLain sem er söguleg skáldsaga um fyrsta hjónaband Ernests Hemingways. Sögu­sviðið er París á þriðja áratug tuttugustu aldarinnar þar sem hin ungu hjón (Hemingway og Hadley Richarson) eru miðdepilinn í litríkum en hviklyndum vinahópi – hinni sögufrægu „týndu kynslóð“, þar á meðal Gertrude Stein, Ezra Pound, og F. Scott Fitzgerald. Áslaug bentin líka á kvikmyndina Midnight in Paris sem Woody Allen gerði – þar sem segir frá lífi Gertrudar Stein.
Áslaug fjallar um bók Gertrude Stein, sjálfsævisögu Alice B. Toklas en fjallar í raun um eigið líf höfundarins. Bókin kom út í íslenskri þýðingu á nýliðnu ári, þar kemur hvergi fram að Gertrude hafi líka verið ástkona Alice. Bókin kom fyrst út 1933 en þá var samkynhneigð feimnismál. Áslaug las upphaf bókarinnar fyrir fundarkonur og eins umfjöllun höfundar um ástkonuna. Gertrude skrifaði fleiri bækur en þær seldust ekki vel, eiginlega bara þessi um ástkonuna. Bókin tæpir á lífi og gleði, ástum og sorgum mikilla listamanna sem voru upp á þeim tíma sem bókin fjallar um. Áslaug mælir með því að konur fái hana að láni í bókasöfnum landsins og lesi hana.

Konur eru að endingu hvattar til þess að lesa fleiri bækur – og hlusta.
Yndislestrarlistann kynnir Gunnlaug Hartmannsdóttir, hún fékk frá Guðnýju Gerði tillögu um bókina Endir eftir Þórhildi Ólafsdóttur skólasystur Guðnýjar. Hún segir bókina áhugaverða og skemmtilega bók sem vert er að lesa lýsir sveitalífi á Íslandi yfir heilt ár.

Guðrún Edda sendi tillögu um tvær bækur sem hún fylgdi úr hlaði með kynningu
10 mínútur og 38 sekúndur í lífi í þessari undarlegu veröld eftir tyrkneska höfundinn Elif Shafak, Nanna B. Þórsdóttir þýddi. Þetta er margbrotin og ógleymanleg saga af samfélagi á jaðrinum, óblíðum kjörum kvenna í karlaveröld og vináttu sem nær út yfir gröf og dauða.
Stúlka, kona, annað eftir Bernardine Evaristo. Hún fjallar að mestu hluta um konur í Bretlandi af afrískum uppruna sem tengjast á ólíkan hátt. Tæpir á lífi fólks í mörgum jaðarsettum hópum. Hvernig konurnar þroskast af mótlætinu. Þýðandi er Helga Soffía Einarsdóttir en hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál. Bókin hlaut Booker verðlaunin, en Bernardine er fyrsta svarta konan, og fyrsta svarta manneskjan, til að hljóta þau verðlaun.

Anna Guðrún nefnir bókina hennar Steinunnar Sigurðardóttur Systumegin, telur hana vera eins og konfekt sem hún að lokum ákvað að treina sér, lesa aðeins tvær blaðsíður á dag.
Hulda Anna rekur ferli við inntöku nýrra kvenna, hún hefur fengið tillögur sem hún kynnir. Segir að konur megi senda sér eða stjórn skilaboð ef einhver hefur eitthvað við tillögurnar að athuga.
Sigríður Hulda stakk upp á að fá þær til þess að koma hver með sitt skemmtiatriði á fund og velja þá sem eru bestar
Guðrún Edda sagði frá hvernig aðrar deildir hafa tekið nýjar konur inn.
Hulda mun senda listann út og konur hafa tækifæri til þess að gefa álit sitt, bæði með og á móti. Að því loknu verða konur teknar inn.

Sigríður Hulda biður um orðið undir liðnum önnur mál. Hún ákvað um áramótin að takast á við lífið af hugrekki og bjóða sig fram í bæjarstjórn Garðabæjar. Seta í bæjarstjórn snýst að hennar áliti um samstarf og samvinnu við að gera bæjarfélaginu gott. Hún spyr konur hvort einhver sé tilbúin til þess að aðstoða sig við þetta verkefni, tala hennar máli í kosningabaráttunni.
Soffía Vagnsdóttir segir sögu af sínu pólitíska starfi.

Næsti fundur verður haldinn 2. mars, þær sem hafa umsjón með fundinum eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Júlíana S. Hilmisdóttir, Dagný Hulda Broddadóttir og Sigríður Johnsen

Hulda færir konum rósir – frummælendum og þeim sem skipulögðu fundinn. Hún slekkur á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og slítur fundi.

 

 


Síðast uppfært 08. apr 2022