20. október 2008

Kappadeildarfundur 20. október 2008. Haldinn í Flataskóla

Gestgjafi: M. Elín Guðmundsdóttir
Fundarstjóri:  Marsibil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir

1. Fundur settur og nafnakall viðhaft.

17 félagar voru mættir.

2. Fundagerð síðasta fundar er lögð fyrir fundinn.

Sólborg las og lagði fundargerð síðasta fundar fyrir.  Samþykkt eftir eina athugasemd

3. Orð til umhugsunar: Sigríður Johnsen fyrrverandi skólastjóri.

Sigríður talaði um tímamótin sem urðu í lífi hennar nú í ár.  Hún hætti sem skólastjóri Lágafellsskóla og fór á eftirlaun. Ákvörðunin kom fólki mjög á óvart.  Sigríður lýsti því hversu glöð hún gekk ávallt til vinnu á hverjum morgni og hvernig allt hennar líf nánast snérist í kring um vinnuna. Hún var vakin og sofin í vinnunni og helgarnar voru engin undantekning.  Bilið milli starfs og einkalífs varð alltaf minna og minna.
Ákvörðunin um að hætta var ekki auðveld.  Eftir mikla umhugsun og pælingar um að líf væri eftir starfslok ákvað hún að hætta.  Hún áttaði sig á því að frelsið til að stjórna lífi og verja tíma sínum er mjög verðmætt.
Sigríður sagði okkur frá föðursystur sinni sem lifði á síðustu öld. Hún var einstök manneskja sem geislaði af gleði og hamingju og öllum leið vel í návist hennar.  Umburðarlynd brosti hún allt sitt líf þrátt fyrir ágjöf. Hún þurfti ekki á hamingjunámskeiði að halda, hún hafði hamingjuna í hjartanu.
Miklir spekingar velta því fyrir sér af hverju sumir eru hamingjusamari en aðrir.  Einn spekingur segir að það þurfi að taka eftir því þegar hamingjan bankar upp á.  Hraðinn er svo mikill í lífi okkar að við tökum ekki eftir því þegar hún bankar upp á. Allar einfaldar og eðlilegar athafnir daglegs lífs leiða af sér hamingjuna sagði Will Durant sem leitaði hamingjunnar víða. Og boðskapur Sigríðar til okkar er að leita ekki langt yfir skammt að hamingjunni.
Nú nýtur Sigríður þess sem áður fór fram hjá henni í erli dagsins.  Nú hefur amman og mamman tíma til að vera með í næstum öllu.  Maðurinn hennar fékk aftur sokkaþjónustu á heimilið.  Vínviðurinn gefur af sér vínberjaklasa, hestarnir eru í toppþjálfun, hún hefur fengið sér hvolp og les bækurnar sem hún mátti aldrei vera að því að lesa.  Skólinn er enn á sínum stað og kannski tekur hún eitthvað að sér síðar ef hana langar.  Ákvörðun hennar var hárrétt.  Það eru forréttindi að geta hætt að vinna á meðan heilsan og þrótturinn eru enn til staðar. Það er svo sannarlega líf eftir starfslok. 

4. Sagt frá Flataskóla
Eín, sem er aðstoðarskólastjóri skólans, sagði okkur frá skólanum sem nýlega er orðinn fimmtugur.  Starfsmenn eru 60 og nemendur eru 320  upp í 7. bekk.  Elín sagði okkur frá þeim þróunarverkefnum sem eru í gangi. Hún var t.d. nýkomin frá Litháen með tónmenntakennaranum þar sem þau eru í Comeníusarverkefni með kennurum frá ýmsum löndum. 

5. Kaffi og meðlæti.

6. CAT kassinn

Ásgerður Ólafsdóttir, sérkennari hefur kennt börnum með einhverfu í mörg ár, stofnaði m.a. Einhverfuráðgjöfina með Sigrúnu Hjartardóttur. Hún sagði okkur frá CAT-kassanum, sem er ekki kassi heldur mappa sem kom út árið 2005 í íslenskri þýðingu. Markmiðið með notkun CAT- kassans er að styðja samræður við börn og ungmenni frá 6 ára aldri sem eiga í erfiðleikum með að tjá sig beint um tilfinningar, hugsanir og upplifanir. Bæði foreldrar og fagfólk getur notað CAT-kassann í daglegum samræðum við börn. Notkun hans hvetur bæði börn og fullorðna til umhugsunar meðan samtalið á sér stað.
Ásgerður hefur notað þetta mest með unglingum en er núna að prófa þetta með grunnskólabörnum þar sem hún er að kenna á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði.

Áður en fundi var slitið kl. 22:00 var tilkynnt að jólafundurinn yrði þann 20. nóvember  hjá Sigríði Johnsen.

/SAP


Síðast uppfært 14. maí 2017