6. apríl 2017

6. fundur starfsársins var haldinn í húsnæði list- og verkgreinadeildar Menntavísindasviðs HÍ, Skipholti 37, fimmtudaginn 6. apríl 2017.

1. Guðrún E. Bentsdóttir, formaður, setti fund og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
2. Nafnakall sem Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, varaformaður, sá um. Átta félagar í Kappadeild voru mættir á fundinn auk gesta.
3. Fundargerð síðasta fundar lesin. Guðrún Edda las fundargerðina í fjarveru Júlíönu, ritara. Var fundargerðin samþykkt með smávægilegri breytingu.
4. Ljóðalestur. Tveir nemendur í 5. bekk Norðlingaskóla, þær Anna Eir og Eva, lásu upp úr væntanlegri ljóðabók inni, Lífið í ljóðum. Ljóðin fjölluðu m.a. um náttúruna og lífið og báðar höfðu þær samið ljóð hvor til annarrar sem lýstu gagnkvæmri einlægni og hlýju í garð hvor annarrar. Síðasta ljóðið var sungið og leikið undir á gítar. Um var að ræða frumsamið lag sem þær stöllur höfðu samið við ljóðið. Var gerður góður rómur að flutningi þessara efnilegu skálda og þeim óskað velfarnaðar á skáldabrautinni með því að færa þeim tákn samtakanna, rauða rós.
5. Aðalerindi kvöldsins fjallaði um sögu íslensku lopapeysunnar en það var Ásdís Jóelsdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ. Ásdís bauð hópnum í textíl stofuna þar sem gaf að líta ýmislegt sem tengdist efni fyrirlestrar hennar, s.s. ullarlagðar í ýmsum litum, plötulopi í sauðalitunum o.fl. Ásdís byrjaði að greina frá aðdraganda verkefnisins sem var að auglýst var eftir rannsóknarverkefni um efnið sem myndi verða styrkt af Hönnunarsafni Íslands, Gljúfrasteini – húsi skáldsins og Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Rannsóknin var byggð á frumheimildum í formi munnlegra og ritaðra heimilda, s.s. bréfasöfn, ljósmyndir, safnmuni, prjónauppskriftir, auglýsingar, viðtöl o.fl. Ásdís ákvað síðan að halda áfram með rannsóknina en niðurstöðurnar eru nú tilbúnar til útgáfu sem ritrýnt verk.
Upphafið að hönnun lopapeysunnar eins og hún lítur út í dag má rekja til greinar í Ársritinu Hlín frá 1931 þar sem því var lýst yfir að íslendingar þyrftu að eignast íslenska peysu, þjóðlega að lit og lögun. Það væri tilvalið verkefni fyrir íslenskum konum að keppa um að hugsa upp slíka peysu. Helstu niðurstöður rannsóknar Ásdísar voru þær að lopapeysan væri hluti af handverkshefð, textíl- og hönnunarsögu þjóðarinnar, sögu bæði karla og kvenna og útflutningsvöru Íslands.
Ásdís rakti sögu peysuprjóns og útflutnings á peysum allt til Einokunarverslunar Dana 1602 – 1787. Rannsókn hennar hefði leitt í ljós að grófar og fljótprjónaðar peysur úr linsnúnu bandi hefðu orðið vinsælar eftir 1724 og verið kallaðar „islender“. Prjón hefði á þessum tíma verið auðveldara en vefnaður, ekki eins plássfrekt, prjónaþekking almenn í landinu og því hefði prjónaskapur sem söluvara átt auðvelt uppdráttar.
Eftir iðnbyltinguna hófst fjöldaframleiðsla á ýmsum vörum og datt þá niður markaður fyrir handprjónavörur til sölu erlendis. 1907 var vistarbandi aflétt hér á landi og skólaskylda komin á fyrir 10 – 14 ára börn, bæir stækkuðu og fækkaði um leið þeim sem sinntu ullarvinnslu á heimilum, ónauðsynlegt handverk vék en óspunnin lopi kom sér vel. Um leið og skipafloti stækkaði og vélbátaútgerð óx, jókst um leið þörf fyrir hlýjan fatnað. Fyrstu ullarverksmiðjurnar voru stofnaðar í lok 19. aldar, Álafoss í Mosfellssveit og Gefjun á Akureyri þar sem var framleiddur plötulopi, einföld og fljótleg prjónatækni þróaðist og til urðu fljótprjónaðar sjómannspeystur þegar farið var að þrívinda lopann í hnykla svo að úr varð sterkara band. Fyrsta auglýsingin sem Ásdís fann þar sem auglýstar voru íslenskar peystur var frá 1917.
Þó svo að almenn menntun kvenna hafi aukist á næstu áratugum og handverk aukist m.a. með tilkomu húsmæðraskólanna var lopapeysuprjón ekki kennt í þeim skólum heldur var frekar litið á það sem „fátækrahandverk“. Árið 1939 var gefið út ritið Íslensk ull undir yfirskriftinni „Vinnum ull, hún verður gull“. Það voru aðallega þær Laufey Vilhjálmsdóttir og Anna Ásmundsdóttir sem áttu heiðurinn að því að gera íslenska peysu að lúksus söluvöru en þær stofnuðu umboðssölu fyrir handprjónaðar peysur, héldu samkeppnir um uppskriftir og munstur, sölusýningar, fyrirlestra, héldu námskeið,skrifuðu greinar í blöð og bækur.
Á stríðsárunum jókst aftur þörf fyrir prjónaskap fyrir hermenn í stríði. Sem dæmi má nefna að íslenskar konur prjónuðu peysur og sendu finnskum hermönnum í vetrarstríðinu 1940. Hermenn í erlendu setuliðunum keyptu lopapeysur sem minjagripi og tóku með sér heim. Árið 1944 var haldin landssýning þar sem m.a. voru sýndar peysur sem hannaðar voru út frá íslenskum munsturbókum, vefnaði og útsaumsmynstrum. Stríðsárin hvöttu líka til þess að konur nýttu efniviðinn betur og dæmi eru um að peysur væru prjónaðar úr sk. uppraki.
Auður S. Laxness er meðal frumkvöðla að mótun lopapeysunnar. Hún prjónaði mikið sjálf og gaf vinum og kunningjum erlendis. Til er mynd af Auði frá árinu 1943 í lopapeysu sem hún hannaði og prjónaði sjálf.
Árið 1954 jókst útflutingur á lopapeysum verulega en einnig með tilkomu vélprjóns árið 1963. Sama ár birtist fyrsta uppskrift að lopapeysu í núverandi mynd í Eldhúsbókinni sk. Þegar hespulopinn kom á markað árið 1967 gátu erlendar konur prjónað úr lopanum, sala erlendis jókst samhliða ukinni fjöldaframleiðslu í munsturgerð, nýir hönnuðir koma fram, haldnar voru keppnir um mynstur og námskeið fyrir hönnuði og prjónakonur. Áhersla var á þjóðlega skírskotun og að efnið/garnið væri í sauðalitunum (eins og sjónvarpið). Árið 1970 gengur Ísland í EFTA og þá jóst verulega útflutningur á lopavörum.
Handprjónasambandið var stofnað 1977 og nokkrir hönnuðir voru mjög vinsælir, þar á meðal Bára Þórarinsdóttir sem átti „mest stolna munstrið“ sem margir kannast við. Álafossverslunin var stofnsett árið 1987 en varð gjaldþrota árið 1991. Helstu ástæður þess voru að vélprjón fór vaxandi og fyrirtækið hafði ekki fylgt eftir tísku og straumum varðandi munstur, breyttan markað og hönnun var ekki í takt við tíðarandann. ÍSTEX er síðan stofnað1994 af starfsmönnum gömlu Álafossverksmiðjunnar. Hjá fyrirtækinu var lopapeysan ímynd þjóðarstoltsins og vegna vöntunar á „smart munstrum“ voru ráðnir nýir hönnuðir. Megináherslan var á að varðveita upprunann og söguna fyrir komandi kynslóðir.
Erindi Ásdísar var afar vel tekið og margar spurningar vöknuðu um þetta áhugaverða efni. Umræðurnar héldu síðan áfram undir gómsætum veitingum frá Jóla Fel. og var Ásdísi þakkað með rauðri rós að hefð samtakanna.
Í lok fundar var undirbúningshópnum þakkað fyrir góð störf og skemmtilegan fund en að þessu sinni sáu Anna Kristín, Ragnheiður, Sólveig og Valgerður um undirbúninginn.
Guðrún Edda sleit fundi um kl. 20 og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.


Síðast uppfært 08. nóv 2017