Fundargerð 23. nóvember 2011
Þriðji fundur starfsárs Kappadeildar DKG á Íslandi haldinn 23. nóvember 2011 að Meðalbraut 2 Kópavogi klukkan 20:00.
Einkunnarorð vetrarins eru: Látum verkin tala, látum verkin lifa – frumkvöðlar.
Varaformaður deildarinnar Sigríður Johnsen, setur fundinn í fjarveru formanns klukkan 20:00og kveikir á kertum sem tákna vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Sigríður býður félagskonur velkomnar og þakkar gestgjafa kvöldsins Önnu Sigríði Einarsdóttur fyrir að bjóða okkur að hafa jólafundinn á heimili sínu en það var svo sannarlega komið í jólabúning og einnig prýtt sýningum á verkum myndlistarkonunnar Halldóru Helgadóttur.
Nafnakall annaðist Sigríður Johnsen og voru 21 félagskona mætt.
Fundarritari las fundargerð annars fundar starfsársins sem var 24. október.
Inntaka nýs félaga. Sigríður Johnsen varaformaður, ásamt konum úr stjórn sáu um inntöku nýs félaga; Sólveigu Jakobsdóttur.
Orð til umhugsunar flutti Marsibil Ólafsdóttir. Hún leiddi okkur um heim vináttunnar og fjölskyldubanda og hversu mikilvægir þeir eru sem standa okkur næst. Tók hún dæmi úr eigin fjölskyldu og deildi með okkur reynslu sinni af gleði og sorgum og hvernig hver atburður og lífsreynsla botnar ávallt í því að eiga góða að og hafa góð fjölskyldubönd.
Veitingar bornar fram. Þær voru í umsjá Önnu Sigríðar, gestgjafans og stjórnarinnar.
Meðan við gæddum okkur á súkkulaðidrykk með þeyttum rjóma, kökum og brauðtertum gekk leynigestur í hús. Górilla sem gaf ekki frá sér hljóð heldur gaf til kynna með látbragði hvort svar hennar við spurningum okkar var játandi eða neitandi. Þessi dökka vera gaf það einnig vel til kynna hvort henni líkaði spurningar okkar eða ekki. Smám saman komumst við að því hver hinn fjölhæfi gestur var og hann svipti sig gerfinu sem er úr geymslum Sigríðar Johnsen og á sér skemmtilega sögu. Það var Felix Bergsson sem birtist og síðan gítarleikari við hlið hans. Felix sagði okkur frá diskinum sínum með ástarljóðum Páls Ólafssonar. Milli þess sem Felix söng fyrir okkur valin lög af diski sínum, fór hann yfir þætti úr æfi Páls. Hann sagði frá því hvernig hann hreifst af ljóðum hans og æfi og fékk áhuga á koma þeim á framfæri í fyrir nútímann og fékk ólíka tónlistarhöfunda, vini sína, til að gera lög við ljóðin.
Eftir flutning þeirra félaga þakkar Sigríður þeim fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma, deila með okkur sögunni bak við ljóðin og leyfa okkur að heyra brot af því sem er á diskinum.
Sigríður þakkaði gestgjafa fyrir móttökurnar, Kappasystrum fyrir komuna og óskaði öllum friðar og gleði á komandi jólahátíð. Að því mæltu slökkti hún á kertunum og sleit fundinum klukkan 22:00.
Erla Guðjónsdóttir, ritari.
Síðast uppfært 01. jan 1970