7. október 2014

Fyrsti Kappafundur vetrarins 7. október 2014, kl. 20.00. Fundurinn var haldinn í glæsilegum húsakynnum IÐUNNAR fræðsluseturs að Vatnagörðum 20 Formaður setti fundinn, sinn fyrsta fund sem formaður, og bauð konur velkomnar. Hún kynnti nýja stjórn sem í eru Gunnlaug Hartmannsdóttir formaður, Guðrún Edda Bentsdóttir gjaldkeri, Anna Kristín Sigurðardóttir ritari og Valgerður Magnúsdóttir meðstjórnandi sem hefur tekið að sér að sjá um heimasíðuna og stofna hóp á andlitsbókinni. Stjórnin hefur valið Áslaugu Ármannsdóttur sem gjaldkera. 

Dagskrá: 

1. Nafnakall – Guðrún Edda las upp nöfn félagskvenna. Samtals voru mættar 17 konur.

2. Anna Kristín Sigurðardóttir las fundargerð frá lokafundi síðasta starfsárs sem Erla Guðjónsdóttir hafði ritað.

3. Þá voru fram bornar glæsilegar veitingar í boði IÐUNNAR.

4. Formaður kynnti þema vetrarins Fjölbreyttar leiðir til náms og þroska sem stjórnin hafði valið. Fór yfir hugarleikfimi stjórnarinnar við að ákvaða þemað, þar sem m.a. kom upp spurning um hvort mennt sé máttur. Veturinn verður því nýttur til að kynnast hinum ýmsu leiðum sem standa til boða fyrir fullorðið fólk sem vill hefja nám að nýju eða efla stöðu sína. Formaður kynnti síðan og dreifði til fundargesta, drögum að dagskrá vetrarins. Búið er að gera tillögu að hinum ýmsu hlutverkum í tengslum við fundina og bað formaður Kappakonur um að láta vita ef gera þyrfti breytingar. Formaður óskaði jafnframt eftir tilboðum í að halda jólafund eða bókafund í heimahúsi. Fundartími á fundum vetrarins verður ýmist kl. 18.00 eða kl. 20.00. Í mars verður heimsókn á Vesturland til Delta deildar. Stjórnin hefur verið að ræða hugsanlega fjölgun í deildinni. Í því sambandi þarf að huga að fjölbreytni í hópnum. Formaður sendir póst bráðlega til félagsmanna. Lagt til að hafa óbreytt félagsgjöld, en taka umræðu síðar um hvort eigi að hækka.

5. Formaður flutti fréttir af vettvangi landssamtakanna en hún hafði nýverið tekið þátt í formannafundi. Þar var mikil umræða var um fjármál en tillaga er uppi um að hækka gjaldið en erfitt er að halda uppi starfi landssamtakanna vegna takmarkaðra fjárráða. Þema landssambansins er Styrkjum tengsl til framtíðar sem deildirnar voru hvattar til að taka tillit til. Hún minnti Kappakonur á að njóta vinskaparins og tengslanna í hópnum. Vera t.d. vakandi fyrir því að vekja athygli á greinum, viðtölum og öðru sem konur í samtökunum taka þátt í. Nú er 40 ára afmælisár samtakanna og óskað hefur verið eftir að deildir taki að sér að skipuleggja vorfundinn. Leitað hefur verið eftir því að deildin taki þátt í því. Stungið var upp á Sigriði Johnsen að hafa forgöngu um það, hún íhugar málið. Minnt á að halda á upp á 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og bent á að við ættum að taka þátt í því. Formaður fékk hrós og þakkir.

6. Gestgjafi kvöldsins Hildur Elín tók til máls og bauð hópinn velkominn og sagði frá starfi fræðslusetursins sem flutti í þetta húsnæði s.l. sumar, en áður var starfsemin dreifð á þrjá staði. Hún dreifði ársskýrslu og námsvísi setursins. IÐAN varð til árið 2006/2007. Hildur Elín hefur starfað sem framkvæmdastjóri frá upphafi og hefur tekist á við ýmsar áskoranir. Sem dæmi um fjölbreytni verkefna þurfti Hildur Elín að gera hlé á máli sínu til að læsa húsnæðinu en námskeiði um virðisaukaskatt var að ljúka á neðri hæðinni. IÐAN er einkahlutfélag í eigu launþegahreyfinga og atvinnurekenda og byggir á gömlum merg. Ákveðið hlutfall af heilarlaunum rennur til IÐUNNAR, sem er er misjafnt milli greina vegna þess að þarfirnar eru misjafnar. Meginhlutverk að standa að endurmenntun fyrir margvíslegar iðngreinar en auk þess annast setrið framkvæmd sveinsprófa, námssamninga og raunfærnimats í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar um allt land. Þar er einnig unnið að þarfagreiningu fyrir faghópa og fyrirtæki. Starfið vex hratt og sem dæmi um umfangið nefnir Hildur Elín að á síðasta ári hafi verið haldin um 240 námskeið. Kreppan hafði áhrif á félagafjölda og tekjustofna en Hildur segir að um 22- 23 % félaga sæki námskeiðin á hverju ári sem er mun meira í samstarfslöndum. Þá voru líflegar umræður um stöðu iðnmenntunar í landinu og kröfur atvinnulífsins til þekkingar. Að lokum leiddi Hildur Elín hópinn um glæsileg húsakynni setursins sem nýlega hafði verið tekið í notkun. Athygli vakti smekkvísi í hönnun húss og búnaðar og hagsýni sem m.a. birtist í fjölnýtingu rýma. Hildi var þökkuð fræðslan með áköfu lófataki.

7. Þá var komið að lokum og formaður þakkaði gestgjafa fyrir höfðinglegar móttökur og færði henni tvær rósir. Hún sleit fundi og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Fundi slitið kl. 10.08. Anna Kristín Sigurðardóttir

Síðast uppfært 31. okt 2015