6. nóvember 2019

Fundur haldinn í Kappadeild 6. nóvember 2019 kl. 18-20.15 í Fjölbrautaskóla Garðabæjar
Ingibjörg formaður setur fundinn og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Þá fer nafnakall fram og eru 16 mættar ásamt gesti fundarins Bryndísi Jónu Jónsdóttur sem ætlaði að kynna „Núvitund í dagsins önn“.

Fundargerð síðasta fundar frá 1. okt. lesin af Huldu Önnu í fjarveru Ragnheiðar Axelsdóttur ritara.

Að því loknu gaf formaður Bryndísi orðið en hún starfar sem aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og vinnur þar í deild menntunar og margbreytileika. Þar starfar hún sem kennari og vinnur m.a. að evrópsku samstarfsverkefni um seiglu. Bryndís er ekki ókunnug starfi Delta Kappa Gamma þar sem hún er í Gamma deildinni. Hún kynntist núvitund árið 2012 eftir að hafa keyrt á vegg 2007 og hafið leit að úrræðum sem gætu nýst henni í eigin uppbyggingu. Hún vann í 16 ár sem mannauðsstjóri í Flensborg sem er heilsueflandi framhaldsskóli og leggur áherslu á geðrækt og þar prófaði hún að innleiða núvitund og núvitundaræfingar í skólastarfið. Í þeirri vinnu er mikilvægt að sýna sjálfri sér mildi um leið og hugurinn var forvitinn og opinn fyrir upplifunum augnabliksins. Bryndís hefur mikinn áhuga á að innleiða núvitund heildrænt í skólastarf og hefur nýlega gefið út bók sem um tíma sat efst á bóksölulista Eymundssonar. Hún sagði það skýrast af því að hún hafi verið á undan öðrum í jólabókaflóðinu og því skákað frægari höfundum - um tíma.
Bryndís sagði að núvitund væri bæði fræði og hagnýt nálgun s.s. í uppeldi. Hún sagði frá upphafinu þar sem Jon Kabat Zinn fór að vinna með fólki sem glímdi við verki og var illa statt. Hann þróaði núvitund gegn streitu með því að vinna með athyglina og leitast við að vera meðvitaður um innra og ytra líf. Við þurfum að vita hvað við erum að gera þegar að við erum að gera það. „Núvitund felst í því að beina athygli okkar meðvitað að upplifun okkar og reynslu á líðandi stundu, með opnum huga, forvitni og án þess að dæma. Að veita lífinu og líðan á hverri stundu vakandi athygli.“ Aðferðir núvitundar geta því nýst í vinnu með ofvirkni og athyglisbrest og hjálpað fólki til að blómstra og líða betur. Með því að iðka núvitund og skoða hugsanir sínar og upplifanir er hægt að vinna gegn bjöguðum túlkunum hugans og fá víðara sjónarhorn á eigin viðbrögð. Við eigum víst ekki að hrekjast um eins og hauslausar hænur í áreitum dagsins heldur nýta hugann til að rækta heilann. Í lokin sagði Bryndís frá mikilli fjölgun ritrýndra greina um fræðin og örri þróun á því sviði. Þá sagði hún frá verkefni með 5 grunnskólum sem eru í 2ja ára innleiðingarferli þar sem verið er að gagnreyna heildræna nálgun sem teiknuð er upp sem tré. Áhersla er lögð á starfsfólkið sem síðan miðlar áfram til nemenda.

Kappakonur spurðu um eftirfylgnilista sem tengjast innleiðingunni, fyrir hverja námsefni væri ætlað og hvað þyrfti til að halda góðum verkefnum gangandi í skólastarfi. Bryndís sagðist gjarnan vilja sjá núvitund komast inn í kennaranámið en þakkaði síðan fyrir sig og fékk rós að launum frá formanni.

Fundarkonur snæddu saman nepalskan mat sem góður rómur var gerður að og kom það síðan í hlut Dagnýjar að segja nokkur orð til umhugsunar. Hún lagði út af eigin verkefnum í dagsins önn, bæði persónulegum sem og faglegum. Hún sagði frá starfi sínu sem náms- og starfsráðgjafi og hvernig hún hefði innleitt núvitund í þeim skólum sem hún hefur starfað í m.a. til að bæta líðan nemenda og vinna gegn kvíða. Boðið hefur verið upp á núvitundarnámskeið þar sem áhersla er lögð á kennarana, námsferð skipulögð erlendis með kennurum og hugleiðslustundir haldnar í hádeginu. Þá sagði hún frá átaki sem er í mótun í FG til að vinna gegn einmanaleika nemenda með t.d. félagslegum smiðjum þar sem spilað verður á spil og leikið og lifað í þægilegum andrúmslofti. Hver mánuður mun fá sína yfirskrift s.s. „notalegt í nóvember, dásamlegt í desember“ og stungu Kappakonur upp á ýmsum öðrum skáldlegum heitum. Dagný benti á að það væri ekki bara nýnemar sem upplifðu sig einmana. Nemendafélagi FG mun taka þátt í þessu átaki og stefnt er að því að auka fjölbreytni samverustundanna s.s. með dansi og fá veitingar t.d. frá nærsamfélagi. Kappakonur vildu endilega heyra meira af framvindu þessa verkefnis síðar í vetur.
Ingibjörg formaður þakkaði Dagnýju fyrir erindið og gaf henni rós og opnaði síðan fyrir önnur mál.


Undir þeim lið sagði Valgerður frá því að hún væri í hóp með konum sem ætluðu „að eldast með ósóma“ en þær hafi ákveðið að „eldast frekar með djörfung og dug“. Mörgum Kappakonum þótti upprunalega heitið vera meira spennandi. Erla benti á að skv. hamingjurannsókn þá væru konur eldri en 60 ára hamingjusamastar - ef þær ættu pening. Þá sagði Sigríður Johnsen frá að næsti fundur yrði haldinn 10. desember heima hjá henni kl. 19-22. Ákveðið var að konur kæmu sér sjálfar í bíla og ekki yrði pöntuð sameiginleg rúta í Mosfellsbæinn. Erla sagði líka frá því að dóttir hennar væri að þýða bók um sjálfbærni og hófsemi í lífsstíl sem nefnist á ensku „Zero-waist“.

Ingibjörg formaður þakkaði umsjónarkonum fyrir skipulag fundarins og sleit fundi með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Fundarritari Hulda Anna Arnljótsdóttir


Síðast uppfært 06. mar 2020