17. janúar 2018

Bókafundur haldinn miðvikudaginn 17. janúar 2018 kl. 19 í húsnæði Starfsmenntar að Skipholti 50b – þriðju hæð.

Fundargerð

Formaður, Guðrún Edda Bentsdóttir, setti fundinn og óskaði gleðilegs árs. Hún kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Þetta er 4. fundur starfsársins.

Ingibjörg Guðmundsdóttir gerði nafnakall og voru 13 konur mættar.

Guðrún Edda las fundargerð síðasta fundar í forföllum Ragnheiðar Axelsdóttur ritara. Fundargerðin var samþykkt.

Bókakynningar. Þrjár Kappa – systur sögðu frá áhugaverðum bókum.

Gunnhildur Óskarsdóttir kynnti bókina Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.
Þetta er skáldsaga fyrir unglinga og annað fólk. Bókin vann Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka. Gunnhildur telur bókina unglinga- og fullorðinsbók (ekki barna-). Gunnhildur og Kristín Helga eiga sömu langömmuna og hlustaði Gunnhildur á kynningu á bókinni í Hannesarholti fyrir jólin. Bókin er unnin upp úr sönnum sögum og eru sýrlenskar fjölskyldur á Akureyri heimildarmenn.
Gunnhildur vitnar í texta aftan á bókinni: „Eitt sinn bjó Ishmael í borg þar sem var líf og fjör alla daga og börn léku sér innan um dulúðuga hnífasala, villiketti og sápugerðarmeistara. Núna er hann fjórtán ára og borgin hans er vígvöllur. Þegar heimilið er rústir einar neyðist hann til að leggja land undir fót og leita skjóls þar sem friður ríkir. En flóttaleiðin er lífshættuleg. Á sama tíma glímir fjölskylda í Kópavogi við það flókna verkefni að fóta sig í nýju landi.“
Ishmael fer með afa sínum í flóttamannabúðir. Kafli er í bókinni sem segir frá flótta frá Aleppo. Mikilvægt er að reyna að vera ósýnilegur, vekja ekki athygli á sér. Svo grípa örlögin inn í.
Bókin snertir mig segir Gunnhildur og fréttir í framhaldinu. Hún mælir með bókinni – sérstaklega fyrir menntaskólanema.

Boðið var upp á léttan kvöldverð, pítur, ásamt kaffi og konfekti – kostnaður kr. 1500 á mann.

Erla Guðjónsdóttir sagði að val sitt á bók helgaðist af Valgerði og Sólborgu. Hún er að vinna í minningum um forfeður og –mæður og komin í þær stellingar að skrifa.
Hún kynnti bókina Það sem dvelur í þögninni eftir Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur.
Bókin er um lífsferil formæðra Ástu. Þetta er ættarskáldsaga – dramatískar sögur. Sagan byrjar snemma á 19. öld á frásögn um nöfnu höfundar, um forréttindafólk, prestssetur, lækna. Dætur eru menntaðar heima sérstaklega í tungumálum og síðar í tónlist. Þetta eru vel gefnar konur og mikilhæfar. Ásta sækir mikið í brunn foreldra sinna. Það sem einkennir formæðurnar er að þær eru gáfaðar og skáldmæltar.
Sagan tengist svo dætrum úr Húsinu á Eyrarbakka.
Kristrún Tómasdóttir giftist yngri manni Árna Benediktssyni og eignuðust þau 4 börn. Hann skilur við Kristrúnu og á barn með sænskri konu, flytur til Ameríku og týnist þar. Finnst þar 20 árum síðar. Kristrún fór til Ameríkur að leita hans og Ragnar Tómas Árnason, faðir Ástu, var úti með móður sinni.
Mjög áhugaverð bók um hindranir sem konur stóðu frammi fyrir.

Anna Kristín Sigurðardóttir kynnti bókina Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro Nóbelsverðlaunahafa 2017. Hann er af Japönskum ættum. Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi bókina.
Bókin er meistaraverk. Bergrún Andradóttir skrifaði ritgerð um bókina í háskólanámi og vitnaði Anna Kristín einnig í hana.
Þetta er lágstemmd saga og flöt en heldur manni. Hún segir frá þremur nemendum í heimavistarskóla. Þau eru klónuð til að verða líffæragjafar. Mikið er lagt í menntun þeirra, sérstaklega listir. Reynt er að gera líf gjafanna sem eðlilegast. Þetta er bók um mennskuna. Á unglingsaldri fara þau á býli úti í sveit. Það er einskonar biðstöð. Annað hvort verða þau gjafar eða hlynnar. Ef þau geta sýnt fram á að verða ástfangin geta þau frestað því að verða gjafar. Þau eru hvött til að stunda kynlíf en geta þó ekki átt börn. Þau komast að því að þau eru klónuð úr neðsta lagi samfélagsins og vilja vita uppruna sinn. Þau sem verða gjafar lifa af 2 til 4 skipti. Er þetta siðferðislega réttlætanlegt? Er hægt að fara til baka? Þarna er búið til líf til að bjarga öðru lífi. Líkaminn er markaðsvara. Ástin bjargar þeim ekki, það kemur í ljós þegar þau heimsækja gæslukonurnar.
Þetta er áhrifamikil bók segir Anna Kristín og í hvaða samhengi á maður að setja hana?
Kvikmynd, Never let me go, byggð á bókinni hefur verið sýnd á RUV.

Formaður afhenti Gunnhildi, Erlu og Önnu Kristínu rauða rós, einnig Sólborgu fyrir að taka á móti hópnum.

Formaður slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og sleit fundi kl. 21:10.

Næsti fundur verður 1. mars.

Ingibjörg Guðmundsdóttir ritaði fundargerðina.

 

 

 

 

 

 


Síðast uppfært 04. mar 2018