06. febrúar 2008
Kappadeildarfundur 06. febrúar 2008. Haldinn í Háskólanum í Reykjavík
Gestgjafi: Sigríður Hulda Jónsdóttir
Fundarstjóri: Marsibil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
Fundur hófst kl. 20:00.
1. Setning fundar
Marsibil setti fund, kveikti á kertum og bauð félagskonur velkomnar.
2. Nafnakall
Alls voru mættar 19 af 28 félögum.
3. Fundargerð síðasta fundar – Sólborg Alda Pétursdóttir
Sólborg las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
4. Orð til umhugsunar með tónlistarlegu ívafi
Brynhildur Auðbjargardóttir tónmenntakennari talaði um söng og ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar börnum og fullorðnum er kenndur söngur. Sjálf hefur hún verið í tengslum við söng og tónlist frá blautu barnsbeini. Brynhildur sagði okkur m.a. að það væri ekkert til sem heitir að vera laglaus, aðeins lagvilltur og það er hægt að þjálfa. Röddin er viðkvæm og vandmeðfarið hljóðfæri. Sálin og söngröddin eru samtengd, ef þér líður illa getur þú ekki sungið vel. Hún sagði okkur frá tegundum söngradda og raddblæ, lýsti gerð og virkni raddbanda. Hún sagði að stúlkur færu í vægar mútur líkt og drengir. Hún sagði gríðarlega vandasamt verk að stjórna barnakórum, það ætti reyndar að tala um söngkennslu en ekki kórstjórn þegar verið væri að stjórna barnakórum. Mjög auðvelt væri að skemma raddir barna með rangri þjálfun.
5. HRM og allt sem því fylgir.
Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, sérfræðingur og framkvæmdastjóri hjá HRM rannsóknir og ráðgjöf, sagði frá rekstri fyrirtækisins, sem hún stofnaði árið 2004 ásamt annarri konu. Hún sagði okkur frá menntunar- og starfsferli sínum og hvað hefði orðið til þess að hún ákvað að láta slag standa og stofna fyrirtækið sem einbeitir sér m.a. að fræðslu og þjálfun starfsmanna. Fyrirtækið hefur þróað mælitæki til þess að mæla starfsánægju, það býður upp á fræðslustjóra til leigu, „Hot hour“ hópefli og eins er fyrirtækið í samstarfi við SAM Headhunting sem sérhæfir sig í leit að stjórnendum og sérfræðingum fyrir fyrirtæki og stofnanir um heim allan með virkri aðstoð netsins.
6. Áður en veitingar voru veittar sagði Marsibil frá komandi viðburðum. Vorþing verður haldið 17. maí frá kl. 10:00 – 15:00, en ekki er búið að ákveða dagskrána. Hver kona má bjóða með sér einni konu.
Alþjóðaþingið verður haldið í Chicago 22. – 26. júlí. Evrópuþingið verður haldið í Osló í byrjun ágúst 2009.
Hertha benti okkur á að kíkja í fréttablaðið NEWS, hún benti þar á grein um Sigrúnu Klöru Hannesdóttur sem sækist eftir kjöri í stjórn alþjóðasamtakanna. Evrópukonur eru að byrja að gera sig gildandi í samtökunum en aðeins 10 ár eru síðan Evrópudeildin var stofnuð. Hvatti hún okkur einnig til að kíkja á vefsíðu samtakanna.
7. Stúdentaþjónusta HR
Sigríður Hulda Jónsdóttir, gestgjafi okkar og forstöðumaður stúdentaþjónustu HR sagði okkur frá áherslum HR, sem eru meðal annars að vera háskóli 21. aldar og háskóli í sífelldri þróun. HR leggur áherslu á framúrskarandi menntun, rökhugsun, samvinnu,tengsl við atvinnulífið og raunhæf verkefni.
Hún sagði okkur frá deildum skólans og hlutverki stúdentaþjónustunnar auk þess sem hún sagði okkur frá Stjórnendaskóla HR. Það eru um 3000 nemendur við skólann sem er starfræktur á nokkrum stöðum í bænum. Það stendur til bóta því áætlað er að taka nýja byggingu í Öskjuhlíðinni í notkun á árunum 2009 og 2010.
Að lokum leiddi Sigríður okkur um skólann og sýndi okkur húsakynnin.
Fundi lauk kl. 22:00
Síðast uppfært 14. maí 2017