27. febrúar 2019
Fimmti fundur vetrarins hófst í Bessastaðakirkju þar sem Erla Guðjónsdóttir sagði frá sögu kirkjunnar en heimildir eru um kirkju á þessum stað allt frá 13. og 14. öld. Kristján VII Danakonungur lét reisa steinkirkjuna árið 1773. Steinarnir í kirkjuna koma úr Gálgahrauni en tuttugu ár tók að byggja kirkjuskipið. Kirkjan var vígð árið 1796 en turninn var byggður síðar og honum lokið árið 1820. Grímur Thomsen keypti jörðina af Danakonungi með jarðarskiptum árið 1867. Erla las skemmtilega lýsingu Benedikts Gröndals á kirkjunni upp úr bókinni „Dægradvöl“ en kirkjan var bændakirkja og viðhaldi ábótavant enda efni oft lítil. Grímur lést árið 1896 og eftir það var hún í eigu margra, síðast Sigurðar Jónssonar forstjóra sem gaf ríkinu jörðina árið 1941. Á árunum 1945-1947 voru gerðar miklar breytinar á kirkjunni. Í dag príða steindir gluggar kirkjuna eftir listamennina Finn Jónsson og Guðmund Einarsson frá Miðdal og róðukross og predikunarstól eftir Ríkharð Jónsson. Þar má einnig finna altaristöflu eftir Mugg, skírnarfont frá 15.öld og forsetaskildi svo eitthvað sé nefnt.
Að lokinni heimsókn í kirkjuna var haldið að heimili Erlu á Álftanesi. Ingibjörg formaður setti þar fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og þakkaði Erlu leiðsögnina um kirkjuna. Hún tók því næst nafnakall og voru fimmtán konur mættar og einn gestur. Lesin var fundargerð síðasta fundar og hún samþykkt með tveimur breytingum.
Gunnhildur Óskarsdóttir flutti kappakonum Orð til umhugsunar og lagði þar út frá hugtakinu samkennd. Hún sagði þar frá leið sinni að verkefni þar sem fókusinn var á að kennaranemar fengju reynslu af kennslu barna af erlendu bergi. Unnið var með skilning þátttakenda á hugtakinu fjölmenningarleg kennsla og kom í ljós að skilningur manna var mjög misjafn. Niðurstaða Gunnhildar og þeirra sem tóku þátt í verkefninu var að samkennd skipti mestu máli.
Í framhaldi af frásögn kynnti Gunnhildur, Nínu Helgadóttur gest kvöldsins en hún er teymisstjóri flóttamannamála hjá Rauða krossi Íslands. Nína sagði frá starfi sínu og varpaði ljósi á ýmsar hliðar sem snúa að aðstoð við flóttamenn, mennsku og samkennd. Hún telur að heimurinn sé á ákveðnum tímamótum eða krossgötum í ljósi atburða sem orðið hafa í Evrópu og víðar. Ýmsar hindranir séu í veginum en líka rými til að gera betur. Skilgreiningar á flóttamanni séu frá árinu 1948 og ekki í takti við það sem er í gangi í heiminum í dag. Nauðsynlegt sé að jafna stöðu kvótafljóttamanna sem eru lítið brot þeirra 22-23 milljóna sem eru á flótta í dag og hafa hrakist að heiman. Nína sagði einnig frá samvinnu ráðuneytis, sveitarfélaga og Rauða krossins á Íslandi. Hverjir það eru sem hafa komið sem kvótaflóttamenn frá árinu 1956 og ýmsu sem fólkið glímir við s.s. tungumálaerfiðleikum, áföll, söknuður og samviskubit
.
Að loknu erindi Nínu var borin fram dýrindis súpa og brauð, kaffi og kökur af þeim Erlu, Gunnhildi og Marsibil.
Önnur mál: Ingibjörg formaður sagði frá boðsfundum Alfa og Gamma deilda í febrúar. Fimmtán konur út Kappadeild sóttu fund Alfadeildar þar sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra var með erindi. Minnt var á næsta fund 9. apríl, vorfund Kappadeildar 16.maí og Landsambandsþingið 4. maí sem haldið verður í Kvennaskólanum. Þá sagði Ingibjörg frá því að óskað væri eftir sjálfboðaliðum til að vera í gestgjafahlutverki í hátíðarkvöldverði Alþjóðaráðstefnunnar í júlí. Gestgjafahlutverkið felst í því að sitja til borðs með hópi kvenna og halda uppi samræðum.
Ingibjörg formaður þakkaði síðan skipuleggjendum kvöldins þeim Erlu Gunnhildi og Marsibil fyrir einkar ánægjulegt kvöld og Nínu fyrir vekjandi fræðslu og lofaði þeim rósum við fyrsta tækifæri. Að því loknu sleit hún fundi með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 15. apr 2019