1. mars 2018
Fimmti fundur starfsársins hófst með kynningu hjá Heimili og skóla - Landssamtökum foreldra að Suðurlandsbraut 24. Guðbergur K. Jónsson verkefnastjóri tók á móti Kappa konum en hann var einn uppistandandi af starfsmönnum samtakanna þar sem flensa herjaði á.
Heimili og skóli starfar óháð stjónmálaflokkum eða trúfélögum. Samtökin voru stofnuð 17. september 1992 og eiga því 25 ára sögu að baki. Markmið Heimilis og skóla er að stuðla að bættum uppeldis- og mennturnarskilyrðum barna og unglinga. Heimili og skóli á aðild að Almannaheillum, barnahópi velferðarvaktarinnar, Náum áttum, SAMAN-hópnum, Göngum í skólann, Samráðsnefnd leik- og grunnskóla, starfshópi um starfsemi frístundaheimila, Röddum - samtökum um vandaðan upplestur og framsögn, samráðshópi um mótun fölskyldustefnu og RANNUM - rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun.
Allir foreldrar og forráðamenn barna geta gerst félagar og aðrir sem vilja styrkja hag barna geta gerst styktarfélagar. Heimili og skóli taka þátt í fjölbreyttum verkefnum í samvinnu við ýmsa aðila en áherslan er ávallt á forvarnir. Samtökin veita ráðgjöf til foreldra og foreldrasamtaka, standa að útgáfu tímarits og efnis um foreldrastarf. Á heimasíðu samtakanna má finna allt útgefið efni s.s. Læsissáttmálann, foreldrahandbók og foreldrasáttmála fyrir öll skólastig, bæklinga og plaköt.
Þá rekur Heimili og skóli SAFT netöryggisverkefnið sem er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanoktun barna og unglinga. SAFT stendur fyrir samfélag, fjölskylda og tækni. Lykillinn að góðum árangri SAFT verkefnisins er ungmennaráðið en ekkert fer út nema að undangenginni umræðu og hugmyndavinnu hjá ungmennaráðinu.
Að lokinni kynningu Guðbergs færði Guðrún Edda formaður honum rós og bað hann fyrir rósir til þeirra sem lágu veikir heima.
Hefðbundnum fundarstörfum var síðan framhaldið í hliðarsal á veitingastaðnum Pottinum og Pönnunni í Brautarholti þar sem notið var veitinga.
Guðrún Edda tók nafnakall og voru níu konur mættar en þegar logaði á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Undirrituð las fundargerð síðasta fundar sem Ingibjörg S. Guðmundsdóttir ritaði og var hún samþykkt.
Guðrún Edda minnti á fréttabréf DKG en þar er að finna ýmsar upplýsingar um það sem framundan er s.s. vorþingið sem haldið verður á Egilsstöðum 5. maí. Yfirskrift þingsins er Sköpun - Gróska - Gleði. Þá var minnt á skrá yfir erindi sem félagskonur eru tilbúnar til að koma með inn á fundi hjá öðrum deildum. Hvatti Guðrún Edda Kappa konur til að setja þar inn erindi.
Nú er vinna við Evrópuráðstefnuna 2019 að komast á fullt skrið og býst Guðrún Edda við að allar deildir fái þar hlutverk.
Guðrún Edda sleit fundi kl. 20.45 með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 21. apr 2018