29. janúar 2014

Fjórði fundur starfsárs Kappadeildar DKG á Íslandi starfsárið2013til2014 haldinn 29. janúar að Vesturholti 1 Hafnarfirði klukkan 19:00.

Einkunnarorð starfsársins hjá deildinni er:  ,,Konan í brúnni“

Formaður Sigríður Johnsen setur fundinn klukkan 19:00 og kveikir á kertum sem tákna vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Sigríður býður Kappasystur velkomnar og þakkar gestgjafa kvöldsins Hrönn Bergþórsdóttur fyrir að bjóða okkur að hafa bókafundinn á heimili sínu.

Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 17 félagskonur  á fundinum.

Gunnlaug las einnig fundargerð þriðja fundar starfsársins sem var jólafundurinn þann 5. desember 2013 á heimili Júlíönu Sigurbjargar Hilmisdóttur.

 

Sigríður kynnti Kappasystur sem kynna bækur kvöldsins, en það eru þær Ingibjörg Guðmunsdóttir, Sigrún Kristín Magnúsdóttir, Linda Hrönn Helgadóttir og Anna Sigríður Jónsdóttir.

 

Gengið var beint til dagskrár og  byrjaði Ingibjörg kynningu sína.  Í inngangi sagði hún frá uppvexti sínum í Dölunum en þar hafi samfélagið verið einangrað og hún hafi farið í heimavistarskóla átta ára gömul. Hún hafi lesið mikið sem barn og andi skálda hafi svifið yfir vötnum í Dölunum, en þaðan eru m.a. þeir Steinn Steinarr, Jón frá Ljáskógum og Jóhannes úr Kötlum. Ljóðabókin sem hún hefur valið er eftir skáld sem einnig er úr Dölunum, Björn Stefán Guðmundsson og bók hans er með 70 ljóðum frá ýmsum tímum á ævi skáldsins. Hún les formála bókarinnar þar sem stiklað er á ævi skáldsins. Ingibjörg  les nokkur ljóðanna og byrjaði á ljóði sem heitir ,,Alveg rétt eða.....“ sem fjallar um kaldhæðni sem getur  falist í mannamótum á jarðarförum. Annað ljóð ,,Að elska“er um það hvernig getur farið  fyrir ástinni á stundum.  Ljóðið ,,Fimmtán mínútur“ er um yfirborðsmennsku sem höfundi hefur fundist vera á  foreldraviðtölum í skólum. Ljóðið ,,Kalda fegurð“er um lífið sem listaverk.  Ingibjörg kom einnig með og kynnti hljómdiskinn Hugsýn með Írisi Björgu Guðbjartsdóttur sem samið hefur lög við  ljóð eftir Björn Stefán og spilaði fyrir okkur. Ingibjörg lauk svo framlagi sínu til dagskrár kvöldsins  með því að lesa ljóðið,, Það vex eitt blóm fyrir vestan“ eftir Stein Steinarr.

 

Linda Hrönn Helgadóttir steig síðan á stokk og byrjaði á því að segja frá eigin lestrarvenjum frá því að hún var barn. Segist vandfýsin á bækur og í þeim þurfi að vera persónur sem hennig geti þótt vænt um og í þeim sé góður texti sem hrífi hana. Hún segir Mánastein eftir Sjón vera bók sem fellur undir þessa skilgreiningu. Sagan veki svo sannarlega til umhugsunar, sé hrífandi og ljóðræn. Hún er um einstakling sem í raun enginn vill vita af en það virðist ekki snerta við honum, hann heldur sínu striki og lifir af. Bakgrunnur sögunnar er Reykjavík árið 1918 og atburðir sem ganga yfir landið á þeim tíma.  Linda vill ekki spilla ánægju hlustenda með því að rekja frekar söguþráð en les fyrir hópinn kaflann um það þegar spænska veikin er að taka völdin í Reykjavík. Hún segir okkur jafnframt af því að Jóhann Sigurðarson lesi söguna á hljóðbók og upplestur hans sé afar góður eins og  honum er svo lagið.

 

Veitingar eru bornar fram sem er súpa frá versluninni Kjötkompaní ásamt brauði og hunangsbökuðum osti sem Hrönn býður okkur. Kaffi og konfekt fylgdi á eftir. Allt rann þetta ljúflega um bragðlaukana og gerði okkur væntanlega enn einbeittari í því að njóta þeirra frásagna sem biðu okkar.

 

Sigrún Kristín Magnúsdóttir sagði okkur frá uppvexti, menntun og starfi sínu.  Hún fór ung í söngnám til Vínarborgar og lærði þýsku með því að lesa hana og kynntist þá skáldverkum Stefans Zweik.  Hugljúf er saga hennar um það þegar móðir hennar skrifaði  henni bréf  til Vínarborgar er hún lét gjarnan fylgja kvæði úr ljóðabálki sem heitir Lífsreglur og er eftir Guðfinnu Þorsteinsdóttur sem átti sér skáldanafnið ERLA. Kvæðið er úr ljóðabók hennar sem heitir Hélublóm og  kom út árið 1937.

Sigrún las fyrir okkur eitt erindið sem hljóðar svo:

Vertu alltaf hress í huga,

Hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því að þér á herðar

þyngri byrgði´ei varpað er

en þú hefur afl að bera.

Orka blundar næg  í þér.

Hún stundaði  nám í Noregi og fór síðan í norskunám í Háskóla Íslands og hún segir söguna af því hvernig það varð úr að hún réðst í það þrekvirki að þýða Hálfbróðurinn eftir norska rithöfundinn  Lars Saabye Christensen sem er handafi bókamenntaverðalauna Norðurlandaráðs. Bókin kom út í þýðingu Sigrúnar á síðasta ári.

Sigrún hafði þýtt sögu hans Amatören sem var gefin út í Noregi 1988, áður en hann varð þjóðþekktur og fékk verðlaunin, en fékk ekki útgefanda af þýðingu sinni þá. Þegar svo Lars fékk Norðurlandaverðlaunin segist hún hafa hringt í úgefanda og sagt frá því að hún hefði Amatören tilbúna þýdda en fékk þá spurninguna hvort hún vildi ekki þýða Halvbroren sem hún svo gerði.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir var fjórða og síðasta Kappasystirinn sem gaf okkur innsýn í heim bókmenntanna þetta frábæra kvöld.  Hún segir okkur frá því að áhugi hennar hafi kviknað á sögum um spænsku borgarastyrjöldina.  Sagan Stríðsmenn Salamis hafi hrifið hana inn í þennan heim en hún er eftir Javier Cercas og kom út árið 2005 á íslensku. Sagan fjallar um  fanalgista sem flúði aftökusveit lýðveldissinna og var eltur uppi. Hermaður finnur hann og horfist í augu við hann en gengur svo á braut. Höfundur  leitar svara við því hver þessi óþekkti hermaður var og hvers vegna hann þyrmdi lífi hins.

Anna Sigga er einnig með bókina Nada eftir Carmen Laforet en hún hefur ekki verið þýdd á íslensku.Sagan hefur fengið þá dóma að hún sé ein af þeim bestu um lífið á Spáni eftir borgarastyrjöldina. Hún gefi afar góða innsýn inn í sálfræði- og félagsleg áhrif stríðs á samfélagið. Sýni fram á hversu dýrkeyptar fórnir eru færðar fyrir frelsi einstaklingins. Sögusviðið er Barselóna 1939 og lýsir vonum, ótta og vonleysi sem birtist í lífi ungrar konu, sögð í fyrstu persónu, en getur átt við allar aðrar manneskjur hvar sem er í heiminum.

Þriðja bókin sem Sigríður var með er  Yfir Elbrofljótið eftir Álfrúnu Gunnarsdóttur, en spænska borgarastyrjöldin er efniviður sögunnar og hún er byggð að hluta til á frásögn eins Íslendings sem barðist þar.

 

Að loknum þessum hrífandi frásögnum og þeim undursamlegum myndum sem við fengum úr heimi bókmenntanna þakkaði Sigríður formaður vor gestgjafanum Hrönn Bergþórsdóttur fyrir móttökurnar og Kappasystrum fyrir komuna. Einnig beindi hún orðum sínum til þeirra sem gáfu okkur innsýn inn í bókmenntaheiminn, allar með ólíkum hætti og með ólíkar og fjölbreytilegar bókmenntir sem þær hafa heillast af og þær svo heilluðu okkur með.  Gestgjafi og bókakynnar fengu fallegar rósir í þakklætisskyni og slökkt var á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Fundi slitið  klukkan 22:00.

Erla Guðjónsdóttir, ritari.

 

 

   

 



Síðast uppfært 22. apr 2014