5. desember 2013
Þriðji fundur Kappadeildar starfsárið 2013 – 2014, jólafundur, var 5. desember Móvaði 49 í Reykjavík klukkan 20.00.
Formaður deildarinnar, Sigríður Johnsen, setur fundinn klukkan 20.00 og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og býður Kappasystur velkomnar. Hún þakkar gestgjafa kvöldsins, Júlíönu Hilmisdóttur fyrir að bjóða okkur að halda jólafund deildarinnar á sínu fallega heimili. Hún ræðir hversu mikilvægt það er okkur Kappasystrum að geta komið saman á heimilum hvor annarrar, það eykur nánd okkar og stuðlar að því að við þekkjumst betur. Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 14 konur mættar.
Gunnlaug las fundargerð annars fundar starfsársins sem haldinn var í Fræðslusetrinu Starfsmennt, Ofanleiti 2 í Reykjavík.
Orð til umhugsunar flutti Hildur Elín Vignir. Sagði hún frá minningum sínum tengt jólaundirbúningum á æskuheimili sínu í Fossvoginum þar sem jafnan var mikið lagt í jólaskreytingar. Hildur Elín segist vera mikið jólabarn og hefur hún alltaf lagt mikið upp úr því að skreyta heimili sitt og byrjar jafnan snemma í desember. Þar nýtur hún dyggrar aðstoðar eiginmannsins sem telur það ekki eftir sér að bera kassana upp úr kjallaranum þegar á þarf að halda. Hildur Elín las hugvekju, litla hjartnæma sögu sem segir frá 3ja ára stúlku sem fékk skammir frá föður sínum fyrir að eyða heilli rúllu af gylltum pappír við að pakka inn litlu boxi sem hún setti undir jólatréð. Á jóladagsmorgun færði litla stúlkan föður sínum pakkann, þegar í ljós kom að boxið var tómt gaus reiði hans upp á ný með þeim orðum að þegar gjafir eru gefnar eigi þær að innihalda eitthvað. Litla stúlkan leit til föður síns tárvotum augum og sagði að boxið væri fullt af kossum, bara fyrir hann. Faðirinn var miður sín og bað dóttur sína að fyrirgefa sér. Þegar dóttirin fór svo í gegnum eigur föður síns eftir andlát hans fann hún gyllta boxið frá jólunum forðum daga. Hafði hann geymt það við rúmstokkinn og þegar honum leið ekki vel gat hann tekið ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum. Það getur enginn gefið dýrmætari gjöf en skilyrðislausa ást og dýrmætar minningar. Hvatti Hildur Elín okkur til að gefa okkur augnablik hvern dag og njóta minninganna. Með þeim orðum lauk hún frásögn sinni og færði okkur Kappasystrum litla jólapoka fulla af vináttu.
Veitingar voru bornar fram og voru þær í boði Önnu Guðrúnar Hugadóttur, Önnu Sigríðar Einarsdóttur, Arndísar Hörpu Einarsdóttur auk húsráðanda Júlíönu Hilmisdóttur. Borð svignuðu undan kræsingunum, glösum lyft og skálað fyrir gleðinni.
Leynigestur mætti á svæðið eins og venja er á jólafundi. Hér var komin rithöfundurinn og þýðandinn Þórdís Gísladóttir og kynnti hún og las upp úr verkum sínum. Hún byrjaði á að segja okkur frá bókum sem hún hefur þýtt yfir á íslensku, barnabókunum um Breka og Dreka, finnskum metsölubókum, og Hringnum og Eldinum, sænskum unglingabókum sem hafa notið mikilla vinsælda meðal unglinga - allt upp í 28 ára aldur. Um er að ræða tvær af þremur bókum úr seríu og er þriðja bókin væntanleg á næsta ári. Þórdís ræddi um hlutverk þýðandans og mismunandi áherslur sem koma fram í þeirri vinnu. Sumir höfundar hvetja þýðandann til þess að lagfæra textann miðað við aðstæður á meðan aðrir vilja sjá nákvæma þýðingu frá orði til orðs. Hún sagði jafnframt að mikill munur væri milli landa því í Frakklandi vill fólk litlar bækur á meðan bandaríkjamenn vilja ekki styttri bækur en 350 blaðsíður. Því næst las Þórdís nokkur ljóð upp úr ljóðabók sinni „Leyndarmál annarra“, en fyrir þá bók fékk Þórdís verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010. Auk þess las Þórdís ljóð úr nýrri ljóðabók sem væntanlega verður gefin út árið 2014. Ljóð hennar vöktu mikla hrifningu viðstaddra og eflaust einhverjar Kappasystur sem hugsa sér að festa kaup á nýju bókinni þegar hún kemur út en fyrri ljóðabók Þórdísar er uppseld hjá útgefanda. Að lokum kynnti Þórdís barnabækur sínar um Randalín og Munda og las fyrsta kaflann í bókinni sem kom út núna fyrir jólin, Randalin og Mundi í Leynilundi. Þórdís fékk Fjöruverðlaunin fyrir fyrri bók sína, Randalín og Mundi.
Síðasta atriði á dagskrá voru svo jólapakkarnir en Kappasystur hafa haft það fyrir sið á jólafundi að skiptast á litlum jólapökkum.
Eftir þennan áhugaverða og skemmtilega jólafund þakkaði formaður okkar Sigríður Johnsen fyrir góðan fund og góða samveru og færði leynigesti okkar rauða rós með þakklæti fyrir hennar framlag auk þess sem Hildur Elín og Júlíana fengu rósir í þakklætisskyni. Hún minnti okkur á að kærleikurinn og vináttan er það sem við getum gefið hver annarri og okkar nánustu og verður ekki keypt fyrir peninga.
Fundi var slitið kl. 22.30 og slökkt á ljósum okkar sem eru tákn um trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Gunnlaug Hartmannsdóttir, fundarritari.
Síðast uppfært 19. mar 2014