7. desember 2024

Jólafundur Kappa var haldinn þann 7. desember kl. 18:00 á fallegu heimili Önnu Kristínar í Dugguvoginum. 18 konur voru mættar og eftir fundarsetningu og nafnakall leiddi Soffía okkur í jólasöng. Enginn gítar var á staðnum svo hún dró upp hristu og þrýhorn og kallaði á Olgu sér til aðstoðar. Við sungum Bráðum koma blessuð jólin og að því loknu var komið að matnum sem Anna Kristín hafði galdrað fram af sinni alkunnu list og natni. Ýmsir gómsætir réttir voru á boðstólnum,  nóg til og meira frammi. Konur gæddur sér á mat og drykk og spjölluðu í rólegheitunum uns gestur fundarins mætti. Það var hún Vilborg Davíðsdóttir sem gladdi okkur með nærveru sinni og sagði okkur frá bókunum Undir Yggdrasil sem kom út 2020 og Landi næturinnar sem kom út í haust. Sú bók hefur verið tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna. Undir Yggdrasil (2020) er fyrra bindið af tveimur um Þorgerði Þorsteinsdóttur og gerist um aldamótin 900. Sagan hefst á Íslandi en fylgir Þorgerði þaðan til Noregs, Jamtalands og síðan til Kúrlands við Eystrasalt. 
​Sagan í Landi næturinnar hefst þar sem þræðinum sleppir í bókinni Undir Yggdrasil.

Eftir harmleik heima á Íslandi heldur Þorgerður til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar frá Jamtalandi. Saman halda þau í kaupferð til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.

Ásamt því að lesa upp úr Landi næturinnar sýndi Vilborg okkur fornaldar rokk og snældu. Henni er mjög umhugað að fjalla um konur þessa tíma, hún aflar sér eins mikilla upplýsinga og hægt er í gömlum ritum og skáldar svo í eyðurnar.

Eftir upplesturinn settist Vilborg með okkur og áritaði bækur sem konur keyptu. Aðal dagskrá fundarins var lokið en Anna Kristín bar fram eftirrétt, Rice ala mand sem maður hennar hafði útbúið fyrir okkur. Þegar fundi var slitið um 20:30 voru konur saddar og sælar með kvöldið. Gleðileg jól hljómaði ótt og títt þegar konur kvöddust með bros á vör.

 


Síðast uppfært 17. jan 2024