Fundargerð 4. júní
Fundargerð Kappadeildar 4. júní 2020 - Aðalfundur
Sjötti fundur starfsársins sem jafnframt var aðalfundur Kappadeildar var haldinn í Laugardalnum í Reykjavík í blíðskapar sumarveðri. Boðað var til gönguferðar um dalinn kl. 17.30 og í kjölfarið til aðalfundar á veitingastaðnum Flóru.
Umsjón fundarins var í höndum stjórnar; þeirra Ingibjargar Guðmundsdóttur, Huldu Önnu Arnljótsdóttir, Ragnheiðar Axelsdóttur, Áslaugar Ármannsdóttur og Hildar Elínar Vignir.
Áslaug leiddi göngu um Laugardalinn, þar fræddi hún Kappakonur um söguna, fólkið og lífið í dalnum. Gangan endaði hjá þvottalaugunum þar sem lesið var á skiltin og rætt um konurnar sem þvoðu þvottana við misjafnar og hættulegar aðstæður og dreypt var á sherry og gammeldansk. Þá var gengið í hús á veitingastaðnum þar sem Ingibjörg formaður setti aðalfundinn kl. 18.30 með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Tekið var nafnakall og voru þrettán konur mættar. Kappakonur lyftu því næst glösum til að fagna því að hittast loks eftir samkomubann. Að því búnu las Hulda Anna fundargerð sína frá síðasta fundi 26. febrúar og var hún samþykkt.
Þá var gengið til aðalfundastarfa skv. dagskrá.
1. Kosning fundarstjóra og ritara. Ingibjörg formaður lagði til að hún yrði fundarstjóri og undirrituð fundaritari og var það samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. Ingibjörg formaður flutti skýrslu stjórnar sem fer hér á eftir. Eftir lestur skýrslunnar var orðið gefið laust en ekki urðu umræður um skýrslu stjórnar.
Skýrsla stjórnar Kappadeildar
Stjórnina síðustu tvö ár skipuðu Ingibjörg S. Guðmundsdóttir formaður, Hildur Elín Vignir varaformaður, Ragnheiður Axelsdóttir ritari og Hulda Anna Arnljótsdóttir meðstjórnandi. Gjaldkeri er Áslaug Ármannsdóttir.
Kappasystur hafa verið 25 en ein bættist við nú eftir áramótin þegar Júlíana S. Hilmisdóttir kom aftur inn í deildina. Þannig að við erum 26. Í tíð þessarar stjórnar komu tvær nýjar konur í deildina, þær Dagný Broddadóttir og Soffía Vagnsdóttir sem flutti úr IOTA deildinni á Vestfjörðum til okkar.
Stjórn Kappadeildar býr til starfsáætlun fyrir árið á haustin og leggur fyrir fyrsta deildarfund til umræðu og afgreiðslu. Konum í deildinni er skipað í umsjónarhópa með einstaka fundum og í raun falin dagskráin. Þess er gætt að allar konur taki þátt. Stjórnin hefur umsjón með fyrsta og síðasta fundi starfsársins. Þetta skipulag hefur reynst mjög vel og fundirnir verið fjölbreyttir, fræðandi og skemmtilegir. Fasti dagskrárliðurinn á öllum fundum deildarinnar, Orð til umhugsunar, er mjög góður og gefandi því að reynslan og spekin sem frá konunum kemur undir þessum lið er uppbyggjandi og fróðleg.
Veturinn 2018-2019 voru haldnir sjö fundir í deildinni en einungis fimm nú í vetur. Jólafundurinn sem vera átti 10. des. Hjá Sigríði í Mosfellsbænum féll niður vegna óveðurs. Svo skall heimsfaraldurinn COVID-19 á og allt þjóðfélagið fór úr skorðum. Sjötta fundi sem vera átti 31. mars var aflýst vegna samkomubannsins. Vorfundinum / aðalfundinum sem vera átti 14. maí var frestað og hér erum við nú.
Allar fundagerðir Kappa-deildar eru settar inn á heimasíðu okkar inni á DKG.is. Það er hægt að rifja upp og fræðast um fundi deildarinnar.
Óvenjulegum og erfiðum vetri er lokið og vonandi á hann sér enga bræður í náinni framtíð. Ég þakka ykkur öllum samstarfið í deildinni. Formannstíð minni er nú að ljúka, þetta hefur verið skemmtilegur tími fyrir mig og óska ég þeim sem taka nú við stjórnartaumunum góðs gengis og ykkur öllum gleði og gæfu.
3. Ársreikningur. Áslaug Ármannsdóttir gjaldkeri kynnti því næst ársreikninga, fór yfir inneign, útgjöld, félagsgjöld og vexti. Staða á reikningi er kr. 160.274.-
4. Kosning formanns og kosning stjórnar. Ingibjörg gaf Guðrúnu Eddu Bentsdóttur orðið fyrir hönd uppstillingarnefndar. Uppstillinganefnd var að þessu sinni skipuð Guðrúnu Eddu, Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Önnu Guðrúnu Hugadóttur. Fram kom í máli Guðrúnar Eddu að Ingibjörg formaður og Ragnheiður ritari ganga nú úr stjórn. Uppstillinganefnd gerði tillögu að Huldu Önnu Arnljótsdóttur sem formanni og var það samþykkt með lófataki.
Guðrún Edda mælti með Hildi Elínu Vignir, Herdísi Önnu Friðfinnsdóttur og Sigrúnu Kristínu Magnúsdóttur í stjórn og var það samþykkt með lófataki. Áslaug Ármannsdóttir gaf áfram kost á sér sem gjaldkeri og var því fagnað með lófataki.
5. Ákvörðun félagsgjalda fyrir næsta starfsár. Árgjald kr. 15.000.- var samþykkt en gjaldið var þegar komið í heimabanka, reyndar tvöfalt sem eru mistök bankans og verða leiðrétt.
Hefðbundnum aðalfundastörfum var lokið en næst á dagskrá fundarins var Orð til umhugsunar sem Sólveig Jakobsdóttir flutti okkur.
Sólveig sagði frá sérstöku ári í lífi sínu sem markaðist af margvíslegum gleði tilefnum en ekki síst af ófyrirséðum veikindum í byrjun júlí 2019. Sólveig var stödd á ráðstefnu á Krít um upplýsingatækni og stafræna miðlun í námi og kennslu. Hún hafði lokið erindi sínu á ráðstefnunni og hlakkaði til nokkra vikna sumarleyfis í Grikklandi með eiginmanni og fjölskyldu til að fagna framgangi í prófessor, sextugsafmæli sínu og fjörtíu ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna. Ferðatilhögun var þaulskipulögð sem aldrei fyrr, stefnumót við eiginmanninn 6. júlí, viku sigling um Miðjarðarhafið, síðan Aþena og Kefalónía. Í gamansömum tón sagði Sólveig okkur frá því að hún hefði nú vitað fyrirfram að Grikkir væru dramatískir en 5. júlí fékk hún heilaslag á hótelherberginu. Þessi dagsetning er um margt merkileg í fjölskyldunni og flaug í gegnum huga Sólveigar að gott gæti verið að heita á framliðna klúbbinn sér til aðstoðar. Til allrar lukku missti Sólveig ekki mál né rænu og gat hringt þrjú símtöl í eiginmann, móttökuna til að fá lækni og í vinkonu sína Þuríði Jóhannsdóttur sem einnig var á ráðstefnunni að fagna framgangi í prófessor. Við tók sjúkrahúslega, þar sem margt þurfti að ganga upp en Þuríður og hjónin sem stóðu að ráðstefnunni veittu ómetanlega hjálp og aðstoð. Snjallsímatækninn kom að góðum notum við þessar aðstæður og Sólveig komst að því að Grikkir eiga sér málshátt sem hljóðar svo: „Þegar mennirnir gera áætlanir hlæja guðirnir“. Þaulskipulagða planið kom eigi að síður til góða því rækilega var gengið frá öllum tryggingarmálum. Einkenni Sólveigar gengu að hluta til baka með fyrirbyggjandi meðferð á spítalanum þannig ferðaplönum var framhaldið, þau hjón fóru í siglinguna nokkrum dögum seinna þvert á ráð lækna. Sólveig var á því að hún hefði jafnvel fengið annað heilaslag af frústrasjón, gráti og gnístran tanna ef hún hefði þurft að fara beint heim. Heim komu þau því með dásamlegar minningar og innilegt þakklæti að ekki fór verr. Í sama gamansama tóninum þakkaði Sólveig fyrir það að vera ekki tónlistarkona eða tannlæknir þar sem fínhreyfingarnar eru með verra móti en hún heppin að vera fjarkennari og nota bara lyklaborðið! Sólveig tengdi svo þessa atburði í lífi sínu við það sem hún kallaði „slag“ sem samfélagið fékk í heimsfaraldrinum nú eftir áramót. Þar sem tveggja áratuga reynsla Sólveigar af þróun fjarkennslu fékk með hennar orðum „spark í rassinn“ hvað varðar fjar- og netnám, og nýtingu stafrænna miðla í skólum á öllum stigum. Spennandi tímar þar sem allir þurftu að endurmeta, endurskipuleggja, færa nám og viðburði á netið og háskólasamfélagið stóð frammi fyrri því hvernig það gæti stutt við skólasamfélagið. Menntabúðir voru færðar á netið og settar upp stofur í Zoom fjarfundakerfinu. Þátttakendur voru frá um 50 til um 200 þegar mest lét. Niðurstaða Sólveigar þegar litið er yfir sviðið er að ekki er lengur um einyrkja að ræða í skólasamfélaginu miklu frekar er um að ræða lærdómssamfélag sem lét ekki deigan síga við þessar aðstæður, henti sér í djúpu laugina og lærði að synda með alls kyns björgunarbúnað og fólki sem hjálpaði hvert öðru. Nú er að læra af þróuninni; hugsa til framtíðar og hafa blandaðar leiðir staðlota og fjarkennslu fyrir mismundi hópa, finna réttu blönduna. Sólveig endaði svo mál sitt á því að grísku guðirnir kunni að hlæja að okkur mannfólkinu en það sem hafi verið í gangi í stefnumótun, menntun kennara og áherslum á náms- og lærdómssamfélag hafi skilað sér.
Ingibjörg formaður færði Sólveigu og Áslaugu rósir og þakkir fyrir þeirra framlag til fundarins.
Undir liðnum önnur mál minnti Ingibjörg á vorráðstefnu DKG sem að þessu sinni var færð til haustsins og verður haldinn 12. september í Borgarnesi.
Valgerður Magnúsdóttir, Soffía Vagnsdóttir, Hulda Anna Arnljótsdóttir og Sigríður Johnsen tóku til máls undir liðnum önnur mál, rætt var um innlegg Sólveigar, næstu skref í menntamálum á öllum skólastigum, að fjarnámið í kennaramenntuninni hefði orðið til þess að fjölga menntuðum kennurum á landsbyggðinni, hversu auðvelt það er að festast í viðjum vanans og hversu erfitt það getur verið að breyta hegðun fólks. Líflegar og góðar umræður.
Að lokum þakkaði Sigríður Johnsen Ingibjörgu fráfarandi formanni fyrir hennar forystu sem formaður Kappadeildar.
Ingibjörg formaður þakkaði að lokum kappasystrum fyrir skemmtilegan tíma sem formaður, slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 07. okt 2020