Fundargerð 16. maí 2012
Sjötti fundur Kappadeildar haldinn að Steinási 8 í Garðabæ á heimili formanns Sigríðar Huldu Jónsdóttur 16. maí 2012.
Mæting var klukkan 19 og gengu félagskonur um Gálgahraun undir leiðsögn Þorsteins Þorsteinssonar eiginmanns Sigríðar Huldu. Ferðin í yndislegu vorveðrinu var bæði fróðleg og skemmtileg og er Þorsteini færðar góðar þakkir fyrir leiðsögnina.
Þegar heim í hús var komið, bauð Sigríður alla velkomna, setti fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Fundurinn var lokafundur starfsársins og jafnframt aðalfundur.
Nafnakall annaðist Sigríður Johnsen og voru 17 konur mættar.
Svanhildur Silja Þorsteinsdóttir dóttir gestgjafanna lék á þverflautu.
Ritari las fundargerð 5. fundar sem haldinn í mars á veitingahúsinu HAPP í Aðalstræti hjá frumkvöðlinum Unni Guðrúnu Pálsdóttur eða Lukku.
Aðalfundarstörf
1. Sigríður Hulda Jónsdóttir fór hún yfir helstu þætti starfsemi vetrarins og flutti skýrslu stjórnar sem var borin upp og samþykkt. Alls voru haldnir sex fundir og yfirskrift vetrarins var Látum verkin tala, látum verkin lifa – frumkvöðlar.
2. Gjaldkeri fór yfir reikninga ársins og voru þeir samþykktir.
3. Stjórnarkjör: Uppstillinganefnd gerði tillögu um nýja stjórn. Nefndin lagði til óbreytta stjórn að öðru leyti en því að Sigríður Hulda gengur úr stjórn og inn kemur Anna Kristín Sigurðardóttir. Sigríður Johnsen sem hefur verið varaformaður tók við formannsstöðunni á fundinum og þakkaði Sigríði Huldu gott starf og óskaði jafnframt eftir því að stjórnin gæti fengið að njóta hennar reynslu og góðra ráða áfram við skipulag á starfsemi deildarinnar. Einnig var henni þakkað hjartanlega fyrir að bjóða okkur að halda fundinn á heimili sínu.
Veitingar bornar fram í boði stjórnar.
Gestur kvöldsins var Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðaprestakalli. Jóna Hrönn las úr og lagði út af texta í 3. Mósebók 21. kafla versum 5 til 20 og Fyrsta Tímóteusabréfi Páls postula í Nýja testamentinu 3. kafla vers 1. til 7. Á þessum stöðum eru fyrirmæli um það hvaða kostum biskupar, prestar og aðrir þeir sem til þjónustu eru á vegum safnaðanna, eiga að vera gæddir. Las Jóna upp dygðalista þessara ,,starfslýsinga“ og ræddi á sinn einstaka hátt um efni textanan og bar m.a. saman við það sem við höfum verið upplifa á Íslandi.
Eftir að formaður hafði afhent gestgjafa og fyrirlesara rósir var formlegum fundi slitið og slökkt á kertum klukkan 22:00. Eftir það nutu þær konur sem vildu, þess að dvelja áfram við spjall og slökun í heitapotti í yndislegum garði þeirra hjóna.
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 01. jan 1970