4. desember 2018

Þriðji fundur vetrarins, Jólafundur var haldinn á heimili Áslaugar Ármannsdóttur. Ingibjörg formaður setti fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Hún tók því næst nafnakall og voru sautján konur mættar. Lesin var fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

Dagný Broddadóttir var þessu næst tekin inn í Kappadeild með formlegum hætti. Auk þess var Soffía Vagnsdóttir boðin velkomin í Kappadeild en hún skipti um deild vegna flutninga í höfuðborgina. Kappakonur gleðjast mjög að fá þessar öflugu konur til liðs við sig.


Kappakonur nutu síðan jólamatar í félagsskap hver annarrar. Eva Rún Snorradóttir sjálfsætt starfandi sviðslistarkona og ljóðskáld las upp úr ljóðabók sinni „Fræ sem frjóvgar myrkrið“. Ljóðin í bókinni fjalla meðal annars um misspennandi leyndarmál.


Áslaug stóð síðan fyrir leik þar sem Kappakonur öttu kappi um að finna lausnarorð sem öll enda á -ull.

Hefðbundinn jólapakkaleikur var því næst á dagskrá og hafði að þessu sinni tekið óvænta stefnu eftir umræður Kappakvenna fyrir jólafundinn. Allir pakkar kvöldsins innihéldu eitthvað nýtilegt og umhverfisvænt. Valgerður Magnúsdóttir hafði hrundið þessari þörfu umræðu af stað. Hún ásamt, Sigríði Huldu Jónsdóttur og Erlu Guðjónsdóttur vöktu okkur síðan til enn frekari umhugsunar um eyðslu og sóun. Af umræðum sem urðu er ljóst að margar Kappakonur hugsa í daglegu lífi um þetta málefni.

Soffía Vagnsdóttir tók síðan upp gítarinn og leiddi Kappakonur í söng.
Ingibjörg formaður sleit fundi kl. 21.30 með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.

Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir


Síðast uppfært 28. jan 2019