Fundargerð 27. maí 2021

Áttundi fundur og lokafundur Kappadeildar haldinn 27. maí 2021 frá kl. 15.30-19.00.

Mættar voru 13 konur en margar höfðu boðað forföll vegna ýmissa anna tengdum útskriftum og öðrum gleðiviðburðum sem sprottið hafa upp í kjölfar afléttinga sóttvarnareglna og margra undangenginna sólardaga. Sólin lék við fundarkonur í byrjun dagskrár sem hófst í fyrra fallinu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þar var skoðuð sýningin „Hið þögla en göfuga mál um myndir Sigurhans Vignis.

Gísli Helgason veitti Kappakonum leiðsögn og höfðu margar á orði að þær þyrftu að koma aftur til að stúdera sýninguna enn betur. Ljósmyndirnar heilluðu og sjónarhornin og viðfangsefnin eru gríðarleg menningarverðmæti og merkar heimildir. Listamaðurinn fangar ýmsar hliðar Reykjavíkur og ekki síst venjulegt líf, athafnir og fólk í margskonar störfum.

Farið var yfir á veitingahúsið Höfnina á Geirsgötu 7 við höfnina í Reykjavík þar sem fundurinn var settur á annarri hæð hússins með útsýni yfir sundin blá. Formaður setti fundinn og fór yfir dagskrá en útskýrði um leið af hverju byrjað væri svona snemma dags og að á næsta ári yrði vonandi farið í ferð, sem einnig hafi verið tilbúin. En vegna ástandsins var ákveðið að stíga varlega til jarðar hvað varðaði framkvæmd fundarins. Áslaug Ármannsdóttir las upp fundargerð og var gerð smávægileg athugasemd um að kona sem hélt orð til umhugsunar hafi mætt á fundinn - og því verið til staðar. Áslaug brá sér síðan í hlutverk gjaldkera deildarinnar og fór yfir fjárhaginn en þar sem nánast engu var eytt á yfirstandandi ári vegna fjölda fjarfunda á deildin um 260 þúsund. Engar athugasemdir voru gerðar við upprissaðan rekstrarreikning og Áslaug upplýsti einnig um að félagsgjöld þyrfti að greiða fyrir 10. júní og hún sæi um að skila þeim áfram til landssambandsins. Eiginlega væri búið að ákveða að hafa félagsgjöldin þau sömu og áður og mótmælti því enginn.

Hvað varðar fjölgun í deildinni þá fannst fundarkonum stærð deildarinnar mjög heppileg og að bjóða mætti aftur þeim konum inn í deildina sem hafa ekki mætt í vetur. Formaður hafði talað við eina og ætlar að hafa samband við Erlu Guðjónsdóttur. Formaður fór svo stuttlega yfir dagskrá ársins og hvað hafði verið gert á hverjum fundi og einnig að deildin væri búin að uppfylla allar sínar skyldur gagnvart landssambandinu. Konur skáluðu fyrir góðu ári og ákveðið var að geyma liðinn Orð til umhugsunar þar til síðar um kvöldið en taka fyrir „önnur mál“ sem voru engin - nema bara gleði og þakklæti. Kvöldverður var síðan í boði stjórnar þar sem konur áttu góða stund saman í glampandi sólskini og seglskútustemningu við höfnina í Reykjavík.

Sigríður Johnsen flutti síðan orð til umhugsunar og sagði listilega vel frá sögum sem hún er að safna saman og setja í búning, stútfullan af góðum húmor. Þannig sagði hún frá því þegar að hún stofnaði barnaskóla í Vestmannaeyjum og nýtti til þess hænsnakofann. Henni fannst kornungri eitthvað ganga hægt með lestur barna í Eyjum og vildi bæta úr því. Hún setti skilti á kofann um barnaskóla Sigríðar og undirtitill var „Opinn öllum“. Þarna kenndi hún og sinnti öllum hlutverkum sem sinna þarf í skólum s.s. kennslu, húsvörslu, skólastjórn, samskiptum við foreldra o.s.frv. Foreldrum unga skólastjórans blöskraði þó framtakssemin þegar hún tók til við að rukka fyrir þjónustuna en haft var á orði að þarna væri þó framtíðarstarfið komið, - og að hún ætti örugglega eftir að stýra stærsta skóla landsins. Sem reyndust orð að sönnu. Sigríður sagði álíka skemmtilegar sögur að því þegar hún byrjaði að kenna, og þá fullnuma, verðandi kvótakóngum í Stýrimannaskólanum, nýskriðin út úr námi og hvernig hún mætti í stuttu pilsi undir dúndrandi blístri nemenda og til hvaða ráða hún tók til að ná tökum á ástandinu- og kenna töffurunum góða stærðfræði. Aðra sögu sagði hún frá dansæfingu í Eyjum og vandræðunum sem gátu fylgt því að bjóða upp í dans eða vera boðið upp í dans. Þá sagði hún frábæra sögu um afar fullorðinslegan en utanviðsig dreng sem sendur var upp til hennar sem skólastjóra og tók samtalið við sig sjálfur. Sigríður þurfti ekkert að koma að því samtali sem hún lýsti náttúrulega kostulega.

Hulda Anna þakkaði Sigríði fyrir alla frásagnagleðina og fékk henni rós að launum. Áslaug gjaldkerfi fékk einnig rós fyrir undirbúning fundar og frumlegan rekstrarreikning og síðasta rósin fór til Guðnýjar Gerðar sem ætlar að undirbúa fund nr. tvö næsta haust og reyna að endurtaka heimsóknina á Halló Geimur í Listasafni Íslands. Hulda sleit síðan fundi með því að blása á kerti vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og sátu konur áfram frjálsar og fríar og nutu samverunnar fullar tilhlökkunar um gott sumar og fleiri nærverufundi.

Fundargerð ritaði Hulda Anna Arnljótsdóttir


Síðast uppfært 08. okt 2021