Jólafundur 28. nóvember 2017

Kappa konur komu saman til þriðja fundar starfsársins sem jafnframt var jólafundur á heimili Hildar Elínar Vignir kl. 18.30.

Guðrún Edda Bentsdóttir formaður setti fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.og voru 16 konur mættar.
Því næst las undirrituð fundargerð síðasta fundar og Guðrún Edda bætti um betur og las fundargerð frá vorfundi síðasta starfsárs. Sá fundur var haldinn í sumarhúsi Önnu Sigríðar að Böðmóðsstöðum í Bláskógabyggð. 

Valgerður Magnúsdóttir flutti Kappa systrum orð til umhugsunar. Valgerður hóf mál sitt með því að segja að hún væri í raun ennþá að hugsa um hvað hún ætlaði nákvæmlega að segja okkur en væri þó ákveðin í því að segja frá fremur en að lesa af blaði. Frásögn Valgerðar hófst á því að hún sagði okkur frá löngun sinni til að skrifa endurminningar en jafnframt að kynnast og skrá sögu kvenna í fjölskyldunni. Fyrir áratug fór hún á námskeið sem bar heitið „Til fundar við formæður“ með þetta í huga. Þá hafði Valgerður byrjað að blogga undir heitinu „Amma Vala“ en varð fyrir því að ráðist var að henni á þeim vettvangi. Í kjölfarið ákvað hún að fella frekari skrif um þetta efni niður þar sem hún gat ekki hugsað sér að gefa út sögu sína eða formæðra sinna sem hugsanlega yrði atað auri. Nú er Valgerður aftur á móti byrjuð á ný, með nýja hugmynd, hefur grúskað, viðað að sér, skráð, mátað og spurt. Löngun Valgerðar er að skrá fjölskyldusöguna eða uppsprettu fjölskylduvitneskjunnar. Samskipti við barnabörnin og spurningar þeirra eru einnig kveikjan að skrifum Valgerðar og vangaveltur þeirra um líf ömmu og afa og hvort allt hafi ekki verið einfaldara fyrir þau en það er í dag? Valgerður stefnir að því að skrifa lítið kver og gefa út í ellefu eintökum; átta fyrir barnabörnin, tvö fyrir synina og eitt ætlar hún að eiga sjálf. Kverið á að innihalda línuna í gegnum lífið. Á þeirri línu eru ýmsir áhrifavaldar eins og Tóta vinkona hennar, valdefling, kvennabarátta, blóð, sviti og tár en líka unga ástfangna Vala sem var kannski ekki svo varkár en alla vega ekki „vandræðaunglingur“. Valgerður endaði frásögn sína með því að kannski væri amma Vala meiri „rebel“ en hún ber með sér. Sigríður Hulda óskaði eftir því að Valgerður gæfi út tólfta eintakið handa Kappasystrum til að lesa og tóku aðrar viðstaddar undir þessa tillögu.

Þá var komið að jólahangikjötinu með tilheyrandi meðlæti. Sannkölluð jólastemning sveif yfir vötnum á afar fallegu og jólaskreyttu heimili Hildar Elínar.

Erla Gunnarsdóttir kynnti síðan til leiks góðan gest; Dag Hjartarson ljóðskáld sem yrkir til lífsins, ástarinnar og gleðinnar. Dagur var nemandi Erlu öll grunnskólaárin og er giftur inn í fjölskyldu hennar í dag. Svo skemmtilega vill til að bæði Dagur og faðir hans hafa í tvígang unnið til sömu verðlauna; þ.e. verðlauna Tómasar Guðmundssonar og Ljóðstafinn. Dagur byrjaði á því að lesa upp úr ljóðabókinni „Þar sem vindarnir hvílast“, fór svo með yndislegan óð til katta og að síðustu las hann ljóð úr nýútkominni ljóðabók „Heilaskurðaðgerðin“ en perónuleg reynsla þeirra hjóna er grunnur ljóðanna. Dagur leiddi okkur í gegnum söguna sem sögð er í ljóðunum á afar áhrifaríkan hátt. Guðrún Edda færði Degi þakkir fyrir flutninginn og rós.


Að því búnu hófst hinn hefðbundni jólapakkaleikur undir forystu Hildar Elínar. Þá minnti Guðrún Edda á næsta fund 17. janúar sem er samkvæmt venju bókafundur og afhenti Valgerði og Hildi Elínu rósir.
Í lok fundar sagði Hildur Elín fundarkonum frá málverki sem prýðir heimili þerra hjóna og þau fengu að gjöf frá tengdaföður hennar. Sagan tengist á margslunginn hátt lífi Hildar Elínar og manns hennar og er allt í bland ótrúleg, skondin, tilviljanakennd og örlagavaldur.


Guðrún Edda sleit fundi kl. 20.30 með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.


Fundarritari: Ragnheiður Axelsdóttir

 


Síðast uppfært 25. jan 2018