26. nóvember 2015

Jólafundur Kappadeildar var haldinn þann 26. nóvember 2015 á glæsilegu heimili Sigrúnar Kristínar að Reynihvammi 25 í Kópavogi.
Formaður setti fund og bauð konur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Guðrún Edda hafði nafnakall og voru 15 konur mættar.
 
Þá las Guðrún Edda fundargerð fyrsta fundar starfsársins sem hún hafði skrifað í fjarveru ritara. Fundargerðin þótti í lengra lagi og viðraði formaður þá hugmynd að hætta að lesa fundargerðina upp. Kappakonur voru á því að við ættum að halda þessum sið þar sem gott væri að minnast þess sem hafði gerst á næsta fundi á undan. Ritari mun því framvegis leggja sig fram um að vera gagnorð í ritun fundargerða.
 
Formður greindi frá því að ritnefnd hefði þegar hafið störf og væri hafin vinna við endurskoðun á vefsíðu, Sólborg hefur tekið við umsjón hennar.
 
Orð til umhugsunar: Anna Sigríður flutti orð til umhugsunar. Hún greindi frá nýrri reynslu sem hún hafði orðið fyrir, s.s. að kaupa sér bíl. Hún lýsti ferlinu frá gerð þarfagreiningar og þar til kaup voru gerð. Margt óvænt kom upp á leiðinni en hún endaði á Suzuki sem fékk viðurnefnið Daman en númer bílsins er VID sem stendur fyrir Very Important Dame. Fundarkonur skemmtu sér konunglega yfr þessari frásögn en þótt þó mest um hvernig Önnu Sigríði tókst að prútta. Henni voru vel þökkuð orðin. 
 
Inntaka nýja félaga. Ingibjörg Kristleifsdóttir formaður félags  stjórnenda leikskóla og Ragnheiður Axelssdóttir sérkennsluráðgjafi voru teknar inn í Delta Kappa Gamma, samkvæmt skilgreindu ferli samtakanna. Þær voru boðnar velkomnar í Kappadeild með áköfu lófaklappi. 
 
Þá voru bornar fram dýrindis veitingar sem undirbúnar voru af Sigrúnu Kristínu og Huldu Önnu. 
 
Aðalerindi kvöldsins var flutt af Kolbrúnu S. Ingólfsdóttur rithöfundi. Eftir stutta kynningu Önnu Sigríðar,  kynnti Kolbrún bók sína  Þær ruddu brautina og las valda kafla.  Hún lýsti aðdraganda kvennabaráttunnar, víða um heim, sem rekja má til misréttis á síðari hluta 19 aldar og við upphaf 20. aldar. Hún rakti sögu kvenna sem ruddu brautina í Bretlandi og í Bandaríkjunum m.a. um Lucy Stone sem var boðið að flytja úrskriftarræðu en hafnaði því vegna þessa að hún mátti ekki flytja hana sjálf. Hún fallaði um konur sem voru fyrstar til að setjast á þing hér á landi, m.a. Ingibjörgu H Bjarnason sem beitti sér mjög fyrir bættri menntun kvenna. Kolbrún hefur greinilega leitað fanga víða,  og gert yfirgripsmikla  og áhugaverða greiningu á upphafi baráttunnar. Frásögn Kolbrúnar vakti konur til umhugsunar um þessa miklu baráttu þeirra kvenna sem ruddu brautina og spurðu hvort  dætur okkar væru meðvitaðar um hana.  
Formaður þakkaði Kolbrúnu og fundakonur klöppuðu henni lof í lófa.
 
Þá var komið að söng undir stjórn Lindu Hrannar sem leiddi hópinn í söng á jólalögum við undirleik Hennings Emils Magnússonar.
 
Þá var aftur tekið til við veitingar og almennt spjall. 
 
Anna Kristín Sigurðardóttir skráði
 

Síðast uppfært 14. apr 2017