3. apríl 2024


1. Hildur Elín Vignir, formaður Kappadeildar setti fund með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og viðhafði nafnakall. Voru 16 Kappa-systur mættar á fundinn.

2. Fundargerð síðasta fundar. Sólborg Alda las fundargerð síðasta fundar f.h. fundarritara sem var Anna G. Hugadóttir en hún var erlendis þennan dag.

3. Með verkum handanna – íslenskur refilsaumur fyrri alda. Lilja Árnadóttir, fyrrv. sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands sagði frá nýútkominni bók með þessu heiti sem hún ritstýrði ásamt Merði Árnasyni. Efni bókarinnar byggir á niðurstöðum rannsókna Elsu E. Guðjónsson, en ásamt útgáfu bókarinnar hefur verið sett upp sýning á refilklæðum í Þjóðminjasafninu. Í klæðunum eru varðveitt einhver stórbrotnustu listaverk Íslendinga frá fyrri öldum og þau hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi. Klæðin bera ekki síst vitni um menningarstarf kvenna á fyrri tímum.

Lilja sagði frá því að refilsaumur væri þeim kostur gæddur að hægt væri að búa til myndir og letur. Flestir dúkar sem saumað var í voru úr ull. Fyrst eru útlínur saumaðar svo svo fyllt inn í gjarnan með finna bandi. Hún sýndi dæmi um rönguna á klæðunum til að gefa mynd af fráganginum. Verkin voru unnin í lágreistum húsum en um 1400 er farið að setja myndir á strekkta ramma og saumað í. Refill er eitt langt klæði. Íslensku klæðin sem varðveist hafa verið eru 15, aðallega kirkjuleg verk en í ýmsum eru sagðar sögur, t.d. af Maríu mey, heilögum Marteini og Jóhannesi postula. Mjög líklegt að klæðin hafi verið saumuð í klaustrum landsins. Elstu klæðin eru frá því seint á 14. öld, nokkur frá því um eða eftir siðaskipti en hið yngsta er frá 1677. Níu klæðanna íslensku eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands en sex eru varðveitti í erlendum söfnum, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi.

Lilja brá síðan upp myndum af nokkrum klæðum til að gefa dæmi um hvers eðlis verkin voru og hvað einkenndi þau helst. Hún tók dæmi um refil frá Hvammi í Dölum, sennilega frá 15. öld og altarisvæng frá Hólum í Hjaltadal frá 15. öld. Þessi verk einkennast af mjög fínlegum saumi. Klæðið frá Hólum í Hjaltadal er líklega frá því að kaþólskan var að renna sitt skeið og kom rétt fyrir 1900 í safnið. Lilja sýndi líka mynd af klæði frá Skarði í Skarðssveit þar sem bara var búið að suma útlínurnar. Hún brá líka upp mynd af sk. Marteinsklæði sem er í Frakklandi en í klæðinu er sögð saga heilags Marteins sem einn af helstu þjóðardýrlingum Frakka. Lilja benti á að það þurfi að kunna nokkuð mikið í táknfræði til að átta sig á þeim atburðum sem lýst er í klæðinu og sagði frá því helsta s.s. að reka burt djöfla og skarfa og síðasta myndin sem sýndi dýrlinginn loks á dánarbeðinum. Lilja sýndi líka myndir af þremur klæðum sem voru s.k. frásagnarklæði en þau voru öll frá Norðurlandi. Mörg klæði hafa glatast því þeir karlar sem sáu um söfnin höfðu ekki skynbragð á menningarlegt og sögulegt gildi klæðanna. Lilja benti á einni myndinni á munstur sem Sigurður Guðmundsson, málari, notaði síðar í íslenska búninginn. Lilja brá upp nærmyndum af fyrstu og síðustu mynd á Maríuklæðinu sem er frá Höfða í Höfðahverfi og sýnir Jesú á krossinum. Upphaflegi grunnurinn hafði verið gulleitur sem var mjög algengt en enn má sjá tægjur eftir af upphaflega grunninum í kringum myndefnið. Klæði frá Mikladal í Eyjafirði er talið hafa verið unnið fyrir tilhlutan Helgu Sigurðardóttur fylgikonu Jóns Arasonar, biskups. Verkið kom frá Hollandi á 16. öld, fór líklega á uppboð í Þýskalandi en var keypt og gefið til Hollands. Verkið sýnir heilaga þrenningu. Einnig sýndi Lilja mynd af Þorláki sem var biskup á Hólum sem var mjög ítarlegt „portrett“. Hún las líka stuttan kafla upp úr bókinni kafla um Þorlák og konu hans. Enn er til saumað spjald í Hólakirkju sem bendir til þess að Elín, dóttir Þorláks og konu hans, ásamt erlendri kennslukonu hennar hafi saumað myndina. Lilja sýndi mynd af fyrsta myndreit í Bayeaux reflinum sem sýnir innrás Normanna í Englandi 1066 til að gefa dæmi um skyldleika íslenska refilsaumsins og refilsins í Bayeaux.

Titill bókarinnar er sóttur í texta frá Ingunni lærðu á Hólum á 11. öld sem hafði verið handverkskona og nunna og sem ekki aðeins kynnti guðsdýrð í orðum heldur og með verkum handanna. Í bókinni er útdráttur á ensku fyrir hvern kafla til að gefa erlendum áhugasömum kost á að lesa hana.

Elsa hafði gefið nákvæm fyrirmæli um hvaða mynd ætti að fylgja hvaða texta. Lilja benti á að bókin gæfi öðrum rannsakendum tilefni til að rannsaka klæðin betur. Lilja sagði frá því að „lengt í beislinu með tímapressu“ til að hægt væri að vanda sem mest til útgáfunnar.

Sagt er frá aldursgreiningum á klæðunum í lok bókar en um þær sáu Árný Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður á Jarðvísindastofnun og Jan Heinimeier, prófessor emiritus við Háskólann í Árósum. Sigrún Sigvaldadóttir hjá Hunangi hannaði bókina.

Bókin hefur hlotið ýmis konar verðlaun og viðurkenningar, s.s. tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaun og verðlaun Hagþenkis.

Lilju var klappað lof í lófa fyrir sérlega áhugavert erindi og fékk rauða rós í þakklætisskyni að hætti Delta Kappa Gamma.

Að loknu erindi Lilju var boðið upp á léttar veitingar, dýrindis bruscettur frá Brauð&Co. sem Kappasystur gerðu góðan róm að.

4. Orð til umhugsunar – Valgerður sagði að þegar hún hefði fengið beiðni um að vera með Orð til umhugsunar á þessum fundi hefðu hennar fyrstu viðbrögð verið að hún hefði talað svo oft við hópinn og því verið næstum búin að hafna því góða boði að vera með orð til umhugsunar á fundinum.

Hún ákvað samt að að taka þessari áskorun og valdi að tala út frá einu orði í þetta sinn. Hún valdi orðið: Samkennd.

Samkennd kemur úr Búddískum fræðum sem leið til að hjálpa okkur gegnum erfiðleika, aðferð sem Búddistar hafa þróað í meira en 2500 ár. Upp úr þessu sprettur Samkenndarsálfræði, compassion focused therapy sem er gagnreynt meðferðarform. Þjálfun í samkennd snýst um að læra að glíma við aðsteðjandi vanda – með skilningi, vingjarnleika og samkennd. Þetta snýr ekki bara að öðrum heldur er sjálfssamkennd mikilvæg, að nota hugsanir okkar jákvætt og mildilega í eigin garð, tala við okkur sjálfar í huganum á þann jákvæða hátt sem við myndum tala við bestu vini og vinkonur. Í stað þess að rífa okkur niður eins og okkur hættir stundum til að gera.

Valgerður sagði frá kenningum í samkenndarsálfræði sem ganga út á að við höfum þrjú gagnvirk tilfinningastjórnkerfi sem þurfa að vera í innbyrðis jafnvægi, því við þurfum á þeim öllum að halda við mismunandi aðstæður. Ekkert þeirra má verða alls ráðandi. Þau eru:

1) Ógn og sjálfsvörn sem stýrir okkur til að bregðast við ógn með hræðslu, reiði og andstyggð og virkjar okkur til að flýja, berjast eða frjósa. Þetta er frumstæðasta kerfið, það sem við köllum gjarnan skriðdýraheilann og hefur lítið þróast frá upphafi lífs á jörðinni, síðan skriðdýrin og svo forfeður okkar þurftu að lifa af. Við þurfum að læra að stjórna þessu kerfi af því að það fer svo sjálfvirkt í gang. Það er gott þegar við þurfum að bregðast við bráðum vanda en mjög eyðileggjandi ef það er alltaf í botnkeyrslu. Þetta kerfi getur staðið tilfinningalegum þroska fyrir þrifum.

2) Sókn og drifkraftur með tilfinningum sem hvetja okkur áfram, tengjast virkni og stýra okkur að mikilvægum markmiðum. Það tengist dópamín boðefni sem skortir hjá þunglyndum.

3) Huggun og sátt sem gefur okkur jafnbvægi, sálarró og sátt við okkur sjálf. Þaðan sprettur ástúð, vinsemd og vingjarnleiki sem er öllum mikilvægur. Einnig að finna til öryggis og tilheyra hópi, s.s. vinum og fjölskyldu. Í þessu kerfi útleysum við til dæmis boðefnið oxytocin sem gerir að mæðrum með börn á brjósti finnst þær vera í einhvers konar vellíðunarhjúpi. Við þurufm

Valgerður benti á að hætta sé á ferðum þegar samkenndina vantar hjá fólki og sagði að hana skorti greinilega hjá nokkrum leiðtogum heimsins sem standa fyrir ófriði. Sagðist hún ekki vilja nefna nöfn þeirra, ekki taka þau sér í munn. Hjá þeim er skriðdýraheilinn yfirgnæfandi. Það er mikilvægt að rækta vel upp samkennd í eigin garð og annarra, sjálfsmildi, því heiminn skortir meira af þeim eiginleikum okkar.

Valgerður sagðist að lokum vilja leiða okkur í æfingu í samkennd í eigin garð og bauð okkur að setjast í góða stellingu, loka augunum og anda aðeins dýpra en venjulega. Hún leiddi okkur síðan í gegnum æfingu þar sem hún hvatti okkur til að finna okkar innri styrk og nýta hann, finna það hugrekki sem við búum yfir, finna eigin góðvild í eigin garð og annarra, sýna okkur sjálfsmildi o.fl. Einnig gerðum við æfinguna heilanudd, þar sem við beygðum munnvikin aðeins upp á við og gerðum okkur á svipinn eins og Dalai Lama leiðtogi Búddista er á öllum myndum. Með því leysum við út vellíðunarboðefni í heilanum. Það gerum við líka með því að taka utan um okkur sjálfar með handleggjunum og strjúka blíðlega. Þetta getum við alltaf gert þegar okkur langar í gott faðmlag.

„Þú getur líka kallað fram minningu um einhverja þá bestu stund sem þú manst eftir, þegar þú fannst fyrir friði, ró og visku. Notaðu öndunina til að beina athyglinni að þessari minningu og eiginleikunum sem henni fylgja. Athugaðu hvort þú getir heyrt rödd þína, tóninn í röddinni, hraðann og taktinn þegar þú talar við þig út frá samkenndarsjálfinu. Taktu eftir tilfinningunni sem er innra með þér og hvernig þú tjáir hana þegar þú talar við þig. Finndu fyrir hlýunni.“

Formaður afhenti Valgerði rauða rós fyrir innihaldsríkt erindi og að leiða okkur í kærkominni slökun og núvitundaræfingu. Fundarritari þakkar Valgerði kærlega fyrir aðstoð við þennan kafla í fundargerðinni.

5. Hildur Elín, formaður Kappadeildar, fór yfir dagskrá vorferðarinnar sem fyrirhuguð er 1. – 2. maí nk. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir sagði stuttlega frá því helsta sem hægt væri að skoða og tengja við menningu og sögu svæðisins. Hún nefndi m.a. Leifsbúð í Búðardal sem er safn um ferðir Leifs Eiríkssonar og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Gert verður stutt hádegisstopp. Síðan er hægt að fara í Hjarðarholt í Dölum þar sem helstu kappar Laxdælu bjuggu eða að Höskuldsstöðum í Laxárdal þar sem írska ambáttin og konungsdóttirin Melkorka bjó með syni sínum Ólafi Pá. Einnig er hægt að heimsækja Hvamm í Dölum sem var bústaður Auðar djúpúðgu og skoða tvo stapa sem menn trúa að séu álfakirkjur. Gist verður á Dalahótel að Laugum í Sælingsdal en þar er hægt að halda aðalfundinn t.d. fyrir kvöldmat, borða kvöldmatinn og njóta síðan samverustundar í setustofunni, o.s.frv. Eftir morgunverð daginn eftir hefur Anna frænka Ingibjargar boðið hópnum í fjárhúsið í Magnússkógum þar sem sauðburður mun væntanlega standa sem hæst. Á heimleiðinni verður hægt að koma við á Eiríksstöðum í Haukadal og Erpsstöðum þar sem mjólkurbú, ísgerð o.fl.

Gert er ráð fyrir að sameinast í bíla til að spara. Nokkrar hafa þegar boðið fram bíla og aðrar geta keyrt. Hildur Elín sendir póst um akstursmálin o.fl.

Önnur mál – Hildur Elín minnti á vorráðstefnuna sem verður á Hótel Vesturland í Borgarnesi laugardaginn 20. apríl nk. Yfirskriftin er listir, læsi, líðan – til farsældar og verður metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá sem menntamálanefnd hefur undirbúið undir forystu Soffíu Vagnsdóttur, Kappa-systur.

Hildur Elín sleit fundi um kl. 20 og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Í undirbúningshópi voru Júlíana S. Hilmisdóttir, Sveinbjörg Olga Veturliðadóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir sem ritaði fundargerð.

 


Síðast uppfært 03. maí 2024