5. nóvember 2013
Annar fundur Kappadeildar starfsárið 2013 til 2014 var 5. nóvember í Fræðslusetri Starfsmenntar, Ofanleiti 2 í Reykjavík 2013 klukkan 19.00.
Formaður deildarinnar Sigríður Johnsen, setur fundinn klukkan 19:00 og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og býður Kappasystur velkomnar. Hún ræðir um upphaf vetrarstarfsins og segist sannfærð um að þessi vetur verði kröftugur og gjöfull – byrjunin lofi góðu. Hún þakkar gestgjafa kvöldsins, Huldu Önnu Arnljótsdóttur fyrir að bjóða okkur að halda fundinn á vinnustað sínum, Fræðslusetri Starfsmenntar.
Sigríður las bréf frá Margréti Elínu Guðmundsdóttur Kappasystur þar sem hún lýsir því að hún hafi ekki tök á því að starfa lengur með deildinni og segi sig úr henni. Hún þakkar samveruna og sendir óskir um farsæld í starfi okkar.
Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 15 konur mættar.
Ritari las fundargerð 1. fundar starfsársins sem var haldinn að Brekkulæk 4, heimili Önnu Kristínar Sigurðardóttur.
Orð til umhugsunar flutti Valgerður Magnúsdóttir. Sagði hún frá ferð sinni til Suður – Afríku sem snart hana mjög, segir að maður verði ekki samur eftir að hafa verið þar og komist í kynni við land, þjóð og sögu hennar. Hún ræddi sögu Mandela sem er samofin sögu þjóðarinnar sem byggir landið. Það sé svo áhrifaríkt að skynja hversu stutt sé í raun síðan Mandela var leystur úr haldi en það var árið 1990 eftir að hafa verið 27 ár í fangelsi. Margt sem þarna gerðist hafi ekki náð til umheimsins, en augu hans beindust að apartheit þegar ljósmynd af dreng sem var skotinn til bana birtist í heimspressunni og einnig þegar 50 þúsund konur stóðu í þöglum mótmælahópi og afhentu mótmælaskjal gegn því að svart fólk þyrfti að ganga með passa og sýna hvenær og hvar sem það var beðið um hann. Það var 9. september og er dagurinn nú tileinkaður konum þar. Valgerður segist hafa hrifist af úrvinnslu apartheit, en sett var á stofn sannleiksnefnd sem hafði það hlutverk að greina orsakir og eðli stefnunnar, bera kennsl á fórnarlömb, veita sakaruppgjöf þeim sem vildu hafa samvinnu um úrlausn mála auk þess sem gerð var ný stjórnarskrá sem kölluð er Mandela Legacy. Valgerður ræddi það hversu áhugavert rannsókar- og samtalsefni það væri, hvað Mandela hefði fengið í vöggugjöf sem gerði það að verkum að hann þoldi það sem hann þurfti að upplifa en hélt reisn og heilbrigðum anda.
Matur var borinn fram en hann var frá veitingahúsinu Saffran. Á matseðlinum var kjúklingur og salat. Drykkir og eftirrétturinn, súkkulaðikaka, var í boði Huldu Önnu.
Hulda Anna Arnljótsdóttir var fyrirlesari kvöldsins og sagði hún okkur frá þróun Fræðslusetursins Starfsmenntar sem var stofnað árið 2002. Fræðslusetrið Starfsmennt er vettvangur verkalýðsfélaga og samtaka atvinnulífsins og sækir tilvist sína í kjarasamninga en launagreiðendur greiða í starfsmenntasjóð. Hún ræddi um hvernig allt er að breytast varðandi menntun fólks, nýjar leiðir opnist og menn geti menntað sig áfram eftir þeim brautum sem starf þeirra býður og ný tækifæri ávallt í augsýn. Starfsmennt býr til starfstengt nám fyrir stofnanir og starfsfólkið á kost á því að sækja símenntun sína á vinnutíma. Starfsmennt vinnur námskrár og námskeið að óskum stofnana sem eru aðilar að starfsmennt og veitir heildstæða þjónustu á sviði starfsþróunar. Þjónustan er sérsniðin að þörfum þátttakenda. Hún ræðir það að menntun geti átt sér stað hvar sem er, það séu gæðin og kröfur um gæði sem skipti sköpum.
Eftir að hafa sagt okkur frá því hvernig hún sem framkvæmdastjóri hefur leitt þróun Starfsmenntar í gegnum þessi ár, víkur hún að sjálfri sér. Hún segir okkur frá uppvexti sínum, menntunar- og starfsferli. Hún ólst upp á Grundarstígnum í Reykjavík og flutti síðan í Hlíðarnar. Þegar hún líti til baka á uppvöxt sinn og það sem hún sýslaði með, sjái hún að hún hafi ávallt farið sínar leiðir og verið dygg við að fylgja því eftir sem hún ákvað. Hún fann fljótt út í hverju hún var góð og t.d. setti hún sér það markmið að verða góð í boltaleik og spilaði handbolta í 12 ár. Áhugasvið hennar hafi einnig verið að tala og skrifa. Hún hafi verið góð í því að fylgja hjartanu og standa með sjálfri sér og hún finni það eftir á að hyggja að það séu margar leiðir að sama markinu. Mikilvægt sé að vera opin fyrir nýjungum og þróun en vinna samt innan ákveðins ramma.
Það var skemmtilegt og áhugavert að hlusta á Huldu Önnu og hugleiða hversu vel það sem hún sagði, rímaði við spurningu Valgerðar um það hvernig það sem við fáum í vöggugjöf hjálpi okkur fram veginn.
Eftir þessa áhugaverðu frásagnir þakkaði formaður okkar Sigríður Johnsen fyrirlesurunum hjartanlega fyrir og Kappasystrum fyrir komuna. Huldu Önnu gestgjafa kvöldsins var þakkað sérstaklega fyrir bjóða okkur í heimsókn. Hulda Anna og Valgerður fengu rauðar rósir í þakklætisskyni.
Fundi var síðan slitið klukkan 21:15 og slökkt á ljósum okkar sem eru tákn umtrúmennsku, hjálpsemi og vináttu
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017