27. október 2010

Annar fundur starfsársins 2010 til 2011 í Kappadeild var haldinn í í Menntaskólanum Hraðbraut, Faxafeni 10 þann 27. október.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður deildarinnar setti fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Formaður sagði frá því að ný deild verði stofnuð 28. október, Lambda og eru Kappadeildarkonur boðnar velkomnar á stofnufundinn. Alfadeildin býður til 35 ára afmælisveislu í Þjóðmenningarhúsinu næstu helgi.

Vakin var athygli á heimasíðu samtakanna og að við getum og eigum að leita uppi Delta, Kappa, Gamma systur þegar við erum á faraldsfæti.

Sigríður Johnsen viðhafði nafnakall og voru 15 konur mættar.  Fundargerð síðasta fundar lesin og samþykkt.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans Hraðbrautar bauð okkur velkomnar og sagði frá starfsemi  skólans. Þetta ár er hennar fyrsta starfsár og segist hún hafa fundið strax fyrir því að skólinn er rekinn af hugsjón. Um tvö hundruð nemendur stunda þar nám og komast ekki allir að sem vilja. Starfsár skólans er allt árið að undanskildum einum sumarleyfismánuði. Tvær brautir eru í boði; mála- og náttúrufræðibraut. Unnið er í lotum og eru þrjú fög í hverri þeirra.  Kennt er þrjá daga vikunnar og hina tvo virku dagana eru vinnudagar þar sem nemendur vinna í skólanum og hafa aðgang að kennurum til leiðsagnar eftir því sem þeir þurfa.  Nemendur sem skara fram úr fá að vera á heiðurslista  og fylgja því ákveðin forréttindi.

Eftir áhugaverða kynningu á skólanum flutti Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur og Kappasystir fyrirlestur um hvernig við styrkjum sjálfið.  Hún kom inn á hvernig við hlúum að sjálfinu okkar í ólgusjó hins daglega lífs. Minnti okkur á að klassísk og góð gildi lifi nú sem aldrei fyrr.  Spyrjum okkur í hvaða sæti við erum í lífinu og hvernig okkur líður í raun. Ætlum við að leysa allt sjálfar, ,,snöppum“ við af minnsta tilefni, fáum við sektarkennd yfir óánægju sem við finnum fyrir innra með okkur? Erum við þreyttar, áhugalausar fyrir einhverju sem er annars í raun gylliboð.

Valgerður dró fram þrjú hlutverk sem við erum í:

  • Á vinnustað – undirmaður, yfirmaður,vinnufélagi.
  • Á heimili – foreldri, maki, ástvinur.
  • Í frístundum – vinur, félagi.

Kjarninn er: Heppinn er sá er við hug sinn ræður. Því allt á sér uppsprettu í hugsuninni.

Við lok erindisins lagði Valgerður fyrir okkur streitupróf og lögðum við saman stig okkar hver og ein. Streitukvarðann fengum við síðan að sjá til að geta borið stig okkar við hann – lærdómsríkt!

Næst á dagskrá voru veitingar og spjall. Anna Kristín Sigurðardóttir, Anna Sigríður Einarsdóttir og Áslaug Ármannsdóttir komu með dýrindis krásir sem við gæddum okkur á, spjölluðum og hlógum. Á leið okkar til baka í sal gengum við um skólann og skoðuðum hann undir leiðsögn Sigríðar Þrúðar.

Sigríður Hulda formaður þakkaði Sigríði Þrúði fyrir að bjóða okkur í skólann og Valgerði fyrir hennar innlegg og fengu þær rós sem þakklætisvott. Næsti fundur er 25. nóvember og er það jólafundur. Tillaga kom fram um að koma með litla gjöf og var það samþykkt.  Eftir áramót munum við halda áfram að segja frá okkur sjálfum og undistrikaði formaðurinn hversu dýrmætt það væri og efldi með okkur kærleik og vinarþel. Í lokin var slökun, slökkt á kertum og fundi slitið klukkan 22:00.

Erla Guðjónsdóttir, ritari


Síðast uppfært 14. maí 2017