1. október 2012
Fyrsti fundur Kappadeildar starfsárið 2012 til 2013 var haldinn í Álafosskvosinni 1. október 2012.
Mæting var klukkan 18 og gengu félagskonur um Álafosskvosina undir leiðsögn Sigríðar Johnsen formanns sem sýndi okkur minjar um ullarvinnslu og fleira sem þarna er markvert að sjá. Stansað var við gömlu starfsmannabúsaði Reykjalundar og á grasbala stjórnaði Erla Gunnarsdóttir leikfimi- og teygjuæfingum.
Þegar heim í kaffihúsið Álafoss var komið, um klukkan 18:50 bauð Sigríður Johnsen formaður deildarinnar alla velkomna, setti fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Hún bauð Arndísi Hörpu Einarsdóttur velkomna í hópinn en hún var upphaflega félagskona í Ypsilon deild DKG og vegna búferlaflutninga flyst í Kappadeild.
Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 18 konur mættar. Að því loknu ræddi Gunnlaug um uppfærslu á heimasíðu félagsins og óskaði jafnframt eftir því að einhver gæfi sig fram sem gætu hugsað sér að taka að sér að taka myndir á fundum.
Ritari las fundargerð 6. fundar sl. starfsárs sem var aðalfundur.
Erla Gunnarsdóttir gjaldkeri tók til máls og ræddi árgjaldið sem er 10 þúsund og bað konur að greiða það sem fyrst.
Matur borinn fram.
Þema starfsársins og gestir í heimsókn:
Formaður tók til máls og talaði um valið á einkunnarorðum starfsársins sem er KONUR Í MENNINGU OG LISTUM.Hún ræddi um virði þess að njóta lista af öllu tagi og hvernig það getur orðið uppspretta gleði og hamingju.
Hún kynnti gesti kvöldsins þau Þórunni Lárusdóttur, leikkonu og Snorra Ketilsson, tónlistarmann og eiginmann Þórunnar.
Þórunn ávarpaði hópinn og ræddi um feril sinn og hvernig hún gat látið sinn draum um að verða leikkona rætast. Hún lærði á trompet en gerði trompetleik ekki að aðallistiðkun sinni. Hún ákvað ung að að verða leikkona og þegar þar að kom, komst hún í 16 manna úrtak sem var í inntökuprófi inn í leiklistarskóla hér á Íslandi. Þegar til átti að taka komst hún ekki í þann hóp sem tekinn var inn. Hún nýtti þau vonbrigði til góðs og sótti um skólavist í leiklistarskóla í London og segir að það hafi orðið sér síðar mikil hjálparhella að hafa gott vald á enskri tungu og geta jafnt leikið á þeirri tungu sem íslensku. Það hafi verið erfitt að komast inn í hlutverk þegar heim var komið en hún segist hafa verið lánsöm að fá hlutverk í Litlu hryllingsbúðinni. Á Íslandi þurfi leikarar helst að taka öllum hlutverkum sem þeim bjóðast en það geti einnig verið til góðs þar sem það breikkar sýn og þroska að þurfa að takast á við ólík hlutverk. Eftir að henni var sagt upp hjá Þjóðleikhúsinu fór hún í sálfræðinám í HR í eitt ár og naut þess, fékk góða hvatningu og stuðning af samnemendum sínum. Sagði hún frá því að hún hafi verið viss um að hún væri ekki góð að skrifa texta en komst síðan að því m.a. fyrir tilstuðlan hvatningar samnemenda sinna, að það lá bara ágætlega fyrir henni.
Hún heldur sig við drauminn um listina og er nú að leggja lokahönd á hljómdisk. Er að skrifa leikrit og hefur fengið starf við að leikstýra leikhópi í Mosfelllsbæ.
Að lokum ræddi Þórunn um mikilvægi þess að leggja sig allan í verkefni sín og það sem hún væri að gera þyrfti að koma frá hjartanu. Menn leggi ekki í svona vinnu nema af heilum hug.
Það er mikil hvatning fólgin í því að heyra sögu eins og Þórunnar og verða vitni að því hvernig hún breytti vonbrigðum í sigur með jákvæðu hugarfari og styrkri sýn á markmið sitt.
Að lokinni frásögn Þórunnar söng hún tvö lög af hljómdiski sem hún er að gefa út við undirleik Snorra. Þau voru Lítill fugl og Ástarljóð sem er frumflutt á diskinum.
Formaður þakkaði þeim hjartanlega fyrir komuna, óskaði þeim alls hins besta og afhenti þeim rós í þakklætisskyni.
Í lok fundarins sagði Sigríður formaður okkur frá því að Herta Jónsdóttir væri í félaganefnd alþjóðasamanbandsins og þar hefði Heiðrúnar Sverrisdóttur, félagskonu í Kappadeild verði minnst á fundi í sumar en hún lést á árinu 2010. Herta hafi afhent sér minningabók með nöfnum látinna félagskvenna á árunum 2010 og 2011 og óskað eftir því að hún yrði afhent aðstandendum Heiðrúnar, sem verður gert.
Kokkurinn Guðlaug Daðadóttir fékk rós með þakklæti fyrir matinn og félagskonum þökkuð koman. Fundi var síðan slitið klukkan 20:30 og slökkt á ljósum okkar sem eru tákn umtrúmennsku, hjálpsemi og vináttu
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017